02.05.1927
Efri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Baldvinsson:

Mjer hefir fundist það liggja í loftinu og koma jafnvel fram í tali sumra háttv. íhaldsmanna, síðan þessar tillögur hv. fjvn. komu fram, að hún væri nú búin að bjarga föðurlandinu úr þeim voða, sem ógætni hv. Nd. hefði verið búin að steypa því í. Jeg get ekki tekið þátt í þessari aðdáun á starfi hv. fjvn., og jeg er hræddur um, að hún eigi ekki lof skilið fyrir allar niðurskurðartillögur sínar. Jeg er líka hræddur um, að sumar þessar tillögur hennar reynist ekki haldgóðar sparnaðarráðstafanir, og það muni koma fram í dagsljósið, þegar landsreikningurinn fyrir árið 1928 verður lagður fyrir Alþingi. Það væri full ástæða til að athuga vandlega, hvort ekki er verið með sumum tillögum nefndarinnar að draga fjöður yfir einhver þau útgjöld ríkissjóðs, sem óhjákvæmileg eru, útgjöld, sem stjórnin verður að borga, hvað sem fjárlögin segja. Það er ekki til annars en að draga sjálfan sig á tálar að vera að færa niður að miklum mun áætlaða útgjaldaliði á fjárlögunum, ef sú niðurfærsla fer í bága við reynslu undanfarinna ára. Jeg get því ekki tekið undir þann lofsöng um hv. fjvn., sem mjer heyrist, að sumir vilji nú kyrja. Jeg skal játa, að nokkur ástæða er til þess að hafa jafnvægi í fjárhag ríkissjóðs í fjárlögunum, en það er hægt án þess að ganga jafnlangt í niðurskurðinum og hjer er gert. En það er ekki nauðsynlegt, að þetta jafnvægi haldist nákvæmlega á öllum tímum. Það getur verið ástæða til að leggja fram fje á kostnað framtíðarinnar, einmitt í því skyni að auka tekjurnar síðar. Hæstv. forsrh. (JÞ) mun nú sjálfur vera kominn á þá skoðun, að nauðsynlegt sje til þess að komast yfir krepputíma að nota fje ríkissjóðs til þess að auka verklegar framkvæmdir og hjálpa atvinnuvegunum að minsta kosti óbeint. Ríkissjóður fær líka margvíslegar tekjur af framkvæmdum sínum, hvort sem um er að ræða bættar samgöngur, hafnarbætur eða aðrar þarflegar framkvæmdir. Þó að þetta kosti mikið fje í bili, fær ríkissjóður, vegna aukinnar framleiðslu, þá uppskeru áður en langt líður, sem borgar allan tilkostnað og meira en það. Þegar litið er á þessa hlið málsins, fer að verða vafasamt, að hv. fjvn. hafi hitt naglann á höfuðið með þessum hlífðarlausa niðurskurði sínum. Máli mínu til sönnunar skal jeg nú drepa á nokkur atriði, sem ekki virðast vel fallin til virkilegs sparnaðar, þó að þau kunni að sýna minni tekjuhalla á fjárlagafrv.

1. brtt. nefndarinnar er um framlag til landhelgisgæslu. Í raun og veru minkar nefndin alls ekki þann kostnað, enda gæti hún það ekki. Hún minkar að vísu framlag ríkissjóðs, en því fylgir sá böggull, að það, sem sparast á þann hátt, á að taka úr landhelgissjóði. Nefndin segir í áliti sínu, að hún líti svo á, að landhelgissjóður sje svo vel stæður, að hann geti vel bætt á sig þessari fjárhæð. Með þessu móti getur fjvn. að nafni til lækkað útgjöld ríkissjóðs um 65 þús. kr., og tekjuhallinn lækkar þá að sama skapi. En þetta er enginn raunverulegur sparnaður. Fjeð er bara tekið úr öðrum vasa ríkissjóðs og látið í hinn. Í raun og veru er hjer aðeins um einskonar blekking að ræða, til þess að láta fjárlögin líta betur út. Landhelgissjóðurinn er vitanlega eign ríkisins, og hv. fjvn. á ekkert lof skilið fyrir að flytja svona peningana úr einum vasanum í annan, þar sem hin raunverulega útkoma breytist ekki neitt. Mjer skilst, að svipað gildi um fleiri till. frá nefndinni, t. d. þessa 5000 kr. lækkun til yfirskattanefnda. Þarna er aðeins um áætlunarupphæð að ræða og ekki ósennilegt, að það komi fram í landsreikningnum, að hún sje ekki of hátt áætluð. Líku máli gegnir um framlagið til hælisins í Kristnesi og gjöld vegna jarðræktarlaganna. Þetta eru alt áætlunarupphæðir og engar líkur til, að þessar tillögur nefndarinnar leiði til nokkurs sparnaðar á þessum liðum.

Jeg gæti komið fram með samskonar till. um að áætla ekki neitt, en það væri á móti allri reynslu. Hið sama er með frv. hæstv. stjórnar. Þar eru ekki settir inn liðir, sem munu reynast nauðsynlegir, og ef hæstv. stjórn hefði verið samviskusöm, þá hefði hún átt að setja þá inn. En þá hefði auðvitað tekjuhallinn orðið meiri. Það er nauðsynlegt, að útgjaldaliðir fjárlagafrv. sjeu svo rjettir, að þeir fái staðist, en meðferð sú, er frv. fjekk í hv. Nd., sýnir, að svo var ekki, og því hefir þeim verið breytt eins og þeir nú eru. Að jeg ekki tali um, að hæstv. stjórn gleymdi að gera ráð fyrir nokkur hundruð þúsund kr. tekjufrv., sem hún gerði ekki ráðstafanir til að kæmi fram. Á jeg þar við frv. um gengisviðaukann. Svo er hv. nefnd samt sem áður að klípa af áætlunarupphæðunum. Er það mjög vafasöm aðferð og getur verið stórhættuleg, ef dregið er svo mikið úr þeim, að virkilegar útborganir ríkissjóðs fari langt fram úr þeim. Jeg hefi talið mjer skylt að minnast á þessa liði, sem eiga að vera eins og til þess að prýða fjárlögin, þó að þeir bæti á engan hátt fjárhag ríkissjóðs.

Þá vil jeg minnast á till. hv. nefndar um að fella niður eftirgjöfina til Stokkseyrar, 10 þús. kr. Minnist jeg á þetta vegna þess, að svo stendur á, að ríkissjóður veitti þetta lán vegna sjerstaks óhapps, sem henti þetta kauptún. Og mjer er sagt, að stjórnin hafi þó gefið vilyrði fyrir því, að þetta yrði gefið eftir. Jeg heyri nú sagt, að hv. fjvn. hafi í huga að koma með till. um þetta undir öðrum lið. Jeg ætla mjer ekki að víta nefndina fyrir þetta, en jeg álít, að það hefði verið rjett að láta þetta standa á þessum stað, sem það stóð, til þess að það sæist glögt af fjárlögunum, hvað við fjeð hefir verið gert. Það er því aðeins form hv. nefndar, sem jeg er á móti.

Þá vildi jeg víkja að brtt. mínum við fjárlagafrv. Þær eru nokkuð margar, en þegar jeg sá, hve margar till. hv. fjvn. voru, sem taka þurfti til athugunar hvort eð var, þá rjeðist jeg í það að flytja þessar till., þó að jeg gengi að því vísu, að þær mundu ekki fá áheyrn. Mjer þykir samt hlýða að sýna það, að þær hafa við rök að styðjast.

Fyrsta brtt. mín er í þrennu lagi og fer fram á það, að fella niður skólagjöld þar, sem þau eru talin til tekna ríkissjóðs. Þetta er komið inn í fjárlögin fyrir nokkrum árum, en er ekkert annað en illþyrmisleg tilraun til þess að hindra það, að fátækir menn fái notið skólamentunar, því að ríkissjóð munar sáralítið um þessa fjárhæð, 150 kr. fyrir manninn, en fátækum mönnum er þetta mjög tilfinnanlegt gjald, þar sem þeir einnig þurfa að kosta sig langt frá heimilum sínum. Og allir vita, að það er dýrt að búa í kaupstöðum, auk þess sem nú er óvenjuleg kreppa í landinu. Því harðneskjulegra er þetta gjald, sem bolar fátækum mönnum frá því að geta stundað skólanám. Það er að vísu hægt nú að gefa fátækum og efnilegum nemendum eftir skólagjald, en það er á valdi skólastjórnarinnar, hverjir verða þess njótandi, og eins og ræður af líkum, þá verða þeir sárfáir. Jeg hefi heyrt sagt, að þessi eftirgjöf sje framkvæmd þannig, að öll skólagjöld sjeu krafin inn að haustinu og síðar ákvarðað, hverjum skuli gefið eftir skólagjaldið, og sje þeim þá greitt það til baka. En þessu fylgir það óhagræði, að fátækir menn hafa þurft, þrátt fyrir eftirgjöfina, að berjast við það að útvega sjer peninga fyrir gjaldinu, án þess þó að hafa nokkra vissu fyrir því, að þeir yrðu eftirgjafarinnar aðnjótandi. Í skólunum eru svo margir fátækir nemendur, að það verður aldrei nema örlítið brot, sem verður aðnjótandi þessa náðarbrauðs. Því álít jeg rjett að fella niður þessi skólagjöld, og I. og IX. brtt. lúta að því.

Jeg álít óþarft að tala meira fyrir þessari till. hjer. Samskonar till. hefir verið rædd í hv. Nd. Skilst mjer, að ekki sje hægt að finna nein rök fyrir því að halda þessum skólagjöldum. Hygg jeg, að aðeins sje um stífni að ræða hjá sumum þeim mönnum, sem vilja halda þeim, og að hjá öðrum sje þetta hugsað sem hemill til að hindra það, að landsmenn verði of mentaðir.

Þá vildi jeg minnast á brtt. mína um fjárframlag til akvegar yfir Fjarðarheiði. Þykist jeg þar eiga vísan stuðning hæstv. atvrh. (MG), því að það er af hans hvötum, sem jeg ber till. fram. Mjer þætti því vænt um, ef hann kæmi hingað í hv. deild. Snemma nú á þinginu var flutt till. um það að fela ríkisstjórninni að láta rannsaka vegarstæði yfir Fjarðarheiði. Kom þá fram í umr., að erfitt væri að bera fram till. um fjárveitingu til vegagerðarinnar fyr en mælt hefði verið fyrir veginum, en hæstv. atvrh. sagði, að mjer mundi alveg óhætt að bera fram till. um 50–100 þús. kr. fjárveitingu til þess að byrja með strax. Jeg hefi því með till. minni orðið við tilmælum hæstv. ráðh. og þykist því vita, að hann með meiri hluta sínum hjer í hv. deild muni styðja till. Býst jeg við, að þetta verði eina brtt. mín, sem fær meiri hluta hv. þdm. með sjer. En það er sýnishorn af yfirgangi stjórnarflokksins hjer í hv. deild, að þó að traust mitt til hæstv. atvrh. sje mikið í þessu máli, þá hefi jeg ekki þorað annað en að flytja varatill., 50 þús. kr., þó að jeg telji víst, að hæstv. ráðh. muni gera alt, sem hann getur, til þess að koma 100 þús. kr. fjárveitingunni í gegn. En jeg veit, að honum er ekki ofvaxið að fá samþyktar 50 þús. kr. Svo á jeg einnig vísan stuðning hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), því að ekkert er jafnmikið áhugamál kjördæmi hans eins og þessi vegur, og meðflokksmenn þeirra eru vísir til að veita þeim liðsinni sitt. Veit jeg þá ekki, hverjir geta verið á móti till.

Ef hæstv. forsrh. (JÞ) er nærstaddur, þá vildi jeg mjög gjarnan, að hann hlustaði á mál mitt, enda þótt atriði það, sem jeg ætla að minnast á, heyri ekki undir starfssvið hans, en það er um uppbót til Daníels verkstjóra Hjálmssonar. Daníel var lengi vegaverkstjóri hjá ríkissjóði, en var sviftur stöðunni eftir margra ára starf, þannig, að hann taldi sjer gert rangt til, og sendi hann því Alþingi erindi þess efnis, að sjer yrðu veittar bætur fyrir tjón það, sem hann hefði beðið við frávikninguna. Fór hann nú síðast fram á 20 þús. kr., og er sú upphæð miðuð við tímann, sem liðinn er síðan honum var vikið úr stöðunni, en það var 1913. Hafa þessi erindi frá honum legið fyrir þinginu undanfarin ár, ásamt meðfylgjandi plöggum. Er meðal annars í plöggum þessum mjög harðort skjal frá þáverandi landsverkfræðingi, Jóni Þorlákssyni, dags. 12. ág. 1913, þar sem hann er að verja sig út af því að hafa vikið Daníel frá starfanum. Þótt við fljótan yfirlestur þessa skjals virðist hafa verið margar ástæður til þess að víkja Daníel frá, þá verða menn eftir yfirlestur svars umsækjanda í miklum vafa um, hvort ástæðurnar hafi verið svo ríkar eins og Jón Þorláksson vill vera láta í brjefi sínu til stjórnarinnar. Hann telur manninn óhæfan til þess að hafa starfið á hendi, en tekur það aftur seinna í brjefinu, þar sem hann segir, að Daníel haldi mönnum vel að vinnu, og að verkin, sem hann skili, sjeu vel að vöxtum o. fl., sem mest er áríðandi fyrir verkstjóra. Maður, sem hefir þessa kosti, en ekki fleiri ókosti en teknir eru fram í brjefi landsverkfræðingsins, verður varla talinn óhæfur verkstjóri. Það má einnig sjá af skjölunum, að það er ekki alveg sannleikanum samkvæmt, sem Jón Þorláksson segir í brjefi sínu til stjórnarinnar, að hann hafi tekið Daníel fyrir þrábeiðni hans, því umsækjandi segir í svari sínu, að hann hafi aðeins einu sinni sótt um að mega halda starfinu áfram, og það verður ekki kallað þrábeiðni. Í brjefi umsækjandans er þess getið, að hann hafi ekki hlíft sjer við vinnuna, og að hann hafi orðið veikur af vosbúð við starf sitt í þjónustu landsins, og liggur ekkert fyrir, sem hrekur það. Getur vel verið, að landsverkfræðingurinn og verkstjórinn hafi ekki átt skap saman. Þeir hafi verið of stórbrotnir báðir. Og auk þess er það alkunna, að verkfræðingar vilja ekki taka leiðbeiningum leikmanna, enda þótt reynslan hafi sýnt, að þeir hafi rjett fyrir sjer. Mætti nefna ýms dýr dæmi því til sönnunar. Eru ýmsir vegir og brýr hjer á landi, sem bera merki þess, að betra hefði verið að fara eftir tillögum staðkunnugra manna um byggingu þeirra.

Jeg hefi borið fram till., sem þó er ekkert í námunda við það, sem Daníel fer fram á, sem sje 2 þús. kr. í stað 20 þús. kr., sem hann biður um, því jeg get ekki varist því, að mjer finst maður þessi hafa verið beittur órjetti. Hann hefir sýnt dugnað við starf sitt í mörg ár, og hann hefir ekki orðið sannur að sök um neitt það brot, er rjettlæti það, að hann var sviftur starfanum. Jeg ber till. meðfram fram til þess að fá að heyra frá hæstv. stjórn, hvaða ástæður hún hefir fram að færa fyrir því, að maður þessi fái ekki þessa upp bót, og hvort hann hafi maklega verið sviftur stöðunni.

Jeg hefi orðið nokkuð langorður um þetta atriði, en jeg hefi mátt til að skýra málið nokkuð ítarlega vegna hinna mörgu plagga, sem umsókninni fylgja.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á brtt. mína við 14. gr., B, II, e, um lokastyrk til Sigurkarls Stefánssonar. Maður þessi tók stúdentspróf úr stærðfræðideild mentaskólans 1923 með I. einkunn. Síðan hefir hann lesið stærðfræði við háskólann í Kaupmannahöfn og hefir þaðan ágæt meðmæli kennara sinna, auk þess sem hann hefir fengið vottorð frá dr. Ólafi Daníelssyni, er segir, að Sigurkarl sje einn af efnilegustu nemendum, sem hann hafi kynst. Tel jeg þau meðmæli mikils virði. Og því meiri þörf er honum á þessum styrk, þar sem hann hefir fyrir fjölskyldu að sjá og á því eðlilega við þröngan fjárhag að búa. Og mjer er kunnugt um það, að aðstandendur hans geta ekkert lagt honum af mörkum. Það hefir verið venja þingsins að veita stúdentum lokastyrk, og maður þessi væntir þess að geta lokið embættisprófi vorið 1928, ef hann fengi þennan styrk. Jeg hefi stungið upp á 1500 kr., en vegna hins ríkjandi sparnaðaranda hjer í hv. deild, þá hefi jeg borið fram varatill. um 1000 kr.

Þá er það XI. brtt. við 15. gr., um styrk til Bjargeyjar dóttur Páls Árnasonar lögregluþjóns. Hún hefir stundað hljómlistarnám í nokkur ár og er nú að fullkomna sig hjá frægum kennara í Noregi, Sverre Jordan.

Henni hefir ekki verið veittur neinn styrkur áður. Foreldrar hennar, sem hafa fyrir mjög mikilli ómegð að sjá, hafa hingað til hjálpað henni. Faðir hennar segir í umsókninni, að hann eigi 9 börn, og skiljanlega getur hann ekki lagt mikið til að hjálpa dóttur sinni. Jeg leyfi mjer því að stinga upp á, að þessari stúlku verði veittur 800 króna styrkur. Hún hefir ágæt meðmæli frá kennurum sínum utanlands og auk þess frá Páli Ísólfssyni hjer heima, en orð hans verða að gilda sem hæstarjettardómur um það, hvort hljómlistarnemendur hafi listgáfu eða ekki. Hann segir, að þessi stúlka sje gædd miklum músikgáfum og „framúrskarandi ástundunarsöm.“ í styrkbeiðninni er farið fram á 2500 krónur, en í till. minni er aðeins stungið upp á 800 krónum. Svo mjög tek jeg til greina í till. minni sparnaðarhvatningu hv. fjvn., að jeg tek ekki nema tæpan 1/3 af því, sem um er beðið, og er það þó ekki hátt.

Það hefir víst alveg farið fram hjá bændum þingsins, að ungur og efnilegur mentamaður, sem nú er kennari á Akureyri, hefir sótt um styrk til þess að rannsaka „eðli og uppruna þúfna og annara yfirborðsmyndana, algengra hjer á landi.“ Jeg býst við, að þetta erindi hafi farið algerlega fram hjá öllum þingbændum, því að annars er óhugsandi, að þetta málefni hefði ekkert verið nefnt og ekkert borið fram um það, þegar svo langt er liðið á þingtímann og fjárlagafrv. komið til 2. umr. hjer í hv. Ed. Það er því ekki annað mögulegt, en að algerlega hafi sjest yfir þetta erindi, því að annars myndu þeir hafa viljað hafa frumkvæði að því að stinga upp á einhverju í þessum tilgangi. En með því að ekkert kom frá hv. fjvn. um þetta, þá rjeðist jeg í það að gera till. um, að Pálma Hannessyni væri veittur 2500 króna styrkur til þeirra rannsókna, sem segir í XVII. brtt. á þskj. 472. Jeg þekki ofurlítið þennan mann, og ef menn kynnast honum og vita um þann áhuga, sem hann hefir, ekki einungis fyrir þeirri rannsókn, sem hjer er um að ræða, heldur líka rannsókn landsins yfirleitt, þá held jeg, að menn myndu verða fúsir til þess að veita honum nokkurn styrk. Jeg sje ekki, að annar maður sje nú líklegri til þess að taka þar við, sem Þorvaldur Thoroddsen hætti, heldur en einmitt þessi ungi mentamaður. Hann hefir mikla kosti til að bera, því að auk þess sem hann er góður vísindamaður, er hann mjög duglegur ferðamaður og vanur öllu ferðavolki í óbygðum og hefir sýnt í því hinn mesta dugnað og framtakssemi. Jeg skil því varla, að það líði á löngu þangað til, að í fjárlögunum verður tekin upp fjárveiting til jarðfræðirannsókna hjer, en jeg held, að það væri kannske rjettara að byrja á því, sem hann fer hjer fram á að rannsaka, og held jeg, að fyrir búnaðinn geti það haft sína þýðingu.

Jeg minnist þess, að þegar jeg var ungur drengur, þá voru áhrif frá Ólafsdalsskólanum byrjuð að koma vestur á land, þau áhrif, að stöku bændur voru byrjaðir að sljetta tún sín, rífa niður þúfurnar og gera þar sljett beð. Þetta mætti mjög misjöfnum dómum. Einstaka framkvæmdamenn sáu, að þetta var til mikils gagns, en margir vildu ekki líta við þessu, þóttust hafa góðar og gildar ástæður til þess að líta ekki við þúfnasljettum; það var sem sje það, að ef farið væri að rífa niður þúfnakollana og sljetta, þá myndi yfirborð túnsins verða svo miklu minna, þegar búið væri að taka þúfnakollana burt. En jeg vona, að slík hjátrú sje ekki hjá mönnum hjer á þingi, svo að þeir af þeim ástæðum verði á móti því að rannsaka eðli og uppruna þúfna. Mjer er sagt, að það sje ekki í nærri öllum löndum, að slík þúfnamyndun sem hjer eigi sjer stað, en það væri nógu fróðlegt að eiga til vísindalega rannsókn á því, hvernig slíkar myndanir verða; jeg gæti hugsað, að það væri nógu fróðlegt fyrir landbúnaðinn.

Það var einhver að segja það við mig, þegar þessi umsókn kom fram á þinginu fyrst, að það væri alment brosað að þessu meðal bænda, og maður, sem var trúaður á þetta, sagði, að þessi mentamaður hefði gert illa í því að nefna ekki þúfurnar latnesku heiti, til þess að gera þetta verk svolítið vísindalegt. — Umsóknin hefði kannske haft meira fylgi í þinginu, ef hann hefði að einhverju leyti orðað umsókn sína á latínu, eða að minsta kosti gefið þúfunum latnesk nöfn. En jeg þykist vita, að þessa þurfi nú ekki, og að þegar bent er á þetta, þá muni bændur í þessari hv. deild fúslega fallast á þetta og veita þessum unga og líklega manni styrk til þessara rannsókna, þann, sem hann fer fram á. Jeg spái því, að það verði ekki mörg ár áður en sá maður stendur fyrir jarðfræðirannsóknum hjer á landi, eins og jeg hefi drepið á áður.

Þá kem jeg að lið, sem er brtt. við 63. brtt. fjvn. á þskj. 449. Það er till. um að gera nokkuð annað úr tillögunni um Byggingarfjelag Reykjavíkur heldur en hv. nefnd vill vera láta. Nefndin leggur til, að þessu fjelagi verði ekki veittur neinn styrkur, heldur feldur niður sá styrkur, sem það hefir samkvæmt tillögu hv. Nd. Af því að þetta er orðið dálítið sjerstakt mál, öðruvísi en títt er um smávægilega þingstyrki, þá vil jeg að nokkru leyti rekja tildrögin að því, að fjelag það, er hjer um ræðir, var stofnað og tók til starfa. Það var stofnað árið 1919, á þeim árum, þegar langmest bar á húsnæðisvandræðum í Reykjavík. Þá var svo mikið húsnæðisleysi, að stórar fjölskyldur urðu að húka í svolítilli herbergiskytru, og allir urðu að láta sjer það lynda, sem þeir höfðu, því að ef þeir einhverra hluta vegna mistu húsnæði sitt, þá voru aðrir undir eins komnir í þeirra stað og engin tiltök að fá neitt í staðinn. Húsnæðisvandræðin hafa aldrei verið eins mikil og þá, þegar mest var „spekúlerað“ í síldinni og seðlaflóð Íslandsbanka flæddi yfir landið og einstakir menn og hið opinbera hafði talsvert miklu úr að spila, en þá var ekki sjeð fyrir þeirri lífsnauðsyn að sjá fólkinu fyrir sæmilegum íbúðum í kaupstöðunum. Stofnun fjelagsins var þá knúin fram af þörf nokkurra fátækra manna. Hugmyndin var ekki ný. Hún hefir verið framkvæmd erlendis á þann hátt, að nokkuð stór hluti verkamanna hefir slegið sjer saman og myndað fjelagsskap, og þessi fjelagsskapur hefir svo verið styrktur af bæjarfjelögum og ríkjunum að mjög miklu leyti, jafnvel 30–40% af byggingarkostnaðinum. Auk þessa styrks hafa þessi fjelög fengið mjög góð lán út á 1. og 2. veðrjett í byggingum sínum. Eftir þessum fyrirmyndum, sjerstaklega þýskum, var Byggingarfjelag Reykjavíkur stofnað. Menn voru þá stórhuga og litu svo á, að eftir því sem peningamagnið í landinu ykist, myndi hægt að ráðast í miklar byggingar, og allmargir meðal hinna fátækari manna gengu í þennan fjelagsskap. Það var safnað dálitlu hlutafje, en þó að nokkurt fje væri þá í umferð hjá landsmönnum, þá máttu þeir ekki missa af miklu til fyrirtækja, frá nauðsynjakaupum, svo að það fje, sem heimt var, var haft í 100 króna hlutum, og var því þannig til hagað, að hver maður, sem fjekk 2 herbergi og eldhús, lagði til 300 kr. í hlutum, 100 kr. fyrir herbergið. Dálítið af þessu fje var frá áhugasömum mönnum, sem töldu þessa aðferð heppilega til að byggja hús, og jeg vil geta þess, að bæjarstjórn Reykjavíkur, henni til maklegs lofs, tók vel undir það að veita fjelaginu nokkurn styrk. En að hún tók svo vel undir þetta mál þá, var af því, að borgarstjóra og bæjarfulltrúum var það vel ljóst, að húsnæðisvandræðin voru að verða óþolandi í bænum, þar sem heilum fjölskyldum með 6–8 mönnum var samanhrúgað í litlum herbergiskytrum; afleiðingarnar af þessu urðu líka oftast þær, að mikil veikindi urðu hjá þessu fólki. Og enginn veit, hve margir af þessum mönnum hafa orðið að leita til sveitarinnar, og hún varð að taka á sig útgjöld, sem sköpuðust af því, að fólkið hafði ekki nægilega loftgóðar íbúðir, sem það gat lifað heilsusamlegu lífi í. Bæjarstjórnin veitti fjelaginu þess vegna ríflegan styrk á fjárhagsáætlun sinni í nokkur ár, sem var alt að 10% af byggingarkostnaðinum, og fjelagið fjekk alt að 5% af byggingarkostnaðinum frá ríkinu. Hús þess kostuðu nokkuð á fjórða hundrað þúsund krónur; það voru upphaflega 36 íbúðir, en það voru líka íbúðir, sem ætlaðar voru mönnum. Það voru ekki íbúðir eins og þær, sem flestir verkamenn bjuggu þá í og verða enn að hafa; það voru bjartar og rúmgóðar íbúðir með öllum þeim þægindum, sem þá voru algeng í húsum. Steinhús þau, sem fjelagið reisti hjer austur í bænum, kostuðu liðlega 200000 krónur og timburhús, sem fjelagið bygði, rúmlega 100000 kr. Þetta var gert þegar dýrtíðin var sem mest, árin 1919–’21, og það gefur að skilja að sá byggingarkostnaður, sem þá var, var svo margfalt meiri en sá, sem nú er. Svo að þó að fjelagið hafi fengið 15% af byggingarkostnaði sínum, þá stendur það þó svo miklu ver að vígi heldur en þeir, sem nú eru að byggja, og auk þess var ráðist í þessar byggingar, þegar þörfin var mest, og þegar hvorki ríkisstjórn nje bæjarstjórn eða einstakir menn höfðu framkvæmd til að gera það. Jeg álít þess vegna, að þeir menn, sem lögðu sína smáu skildinga í það að koma upp þessum myndarlegu byggingum, þeir eigi það fullkomlega skilið, að þeim sje veittur sá styrkur, sem nú er farið fram á, sá styrkur, sem hv. Nd. sýndi þá sanngirni og þann skilning að samþykkja. Hið opinbera var alveg ófáanlegt til þess að hefjast handa. Það var fyrst og fremst af því, að sú stefna rjeði þá, eins og víst nú líka, að það sjeu einstaklingarnir, sem eigi að hafa framkvæmdirnar í öllu. En það sjest, að það verður stundum lítið úr einstaklingsframtakinu, og að minsta kosti varð ekki á þessum árum neitt úr því, að einstakir menn rjeðust í að byggja íbúðir handa húsnæðislausu fólki, og það var ekki einstaklingsframtakið, heldur samvinna og fjelagsskapur allmargra fátækra manna, sem rjeðist í að reisa þessar heilsusamlegu íbúðir, sem gátu tekið á móti 36 fjölskyldum. Þegar þessar byggingar voru reistar var renta af peningum nokkuð há, en síðar urðu vextir af peningalánum enn hærri. Varð það til þess að gera þeim alt miklu erfiðara, sem ráðist höfðu í slík fyrirtæki á þessum dýra tíma. Húsaleigan var ákveðin með það fyrir augum, að húsin gætu nokkurn veginn svarað vöxtum og afborgunum af lánum þeim, er á hvíldu, en eins og áður er sagt, hækkuðu vextir síðar að miklum mun, og jókst útgjaldabyrði fjelagsins um mörg þúsund krónur við það. En húsaleiguna var ekki unt að hækka vegna þess, að hún var fastákveðin með samningum milli leigjenda (sem flestir voru líka eigendur), og varð ekki breytt, meðan þeir stóðu í skilum.

Nú hefði alt gengið vel, ef tvent hefði ekki komið til, ef rentubyrðin hefði ekki aukist til stórra muna og atvinnuleysi haldist um margra ára skeið. Lán fjelagsins voru öll í víxlum í upphafi, og annar bankinn heimtaði, að veðdeildarlán yrði tekið og víxlarnir borgaðir niður með því. Þetta var og gert, en veðdeildarbrjefin seldust ekki nema fyrir 3/4, þannig, að sá, sem tók veðdeildarlán, fjekk ekki fyrir sitt 100 króna brjef nema 75 krónur, og jafnvel þó að veðdeildarlánin sjeu veitt til nokkuð langs tíma, þá verða þau með slíkum kjörum svo dýr, að vextir af þeim nálgast víxilvexti. Og þegar lántaka gegn 1. veðrjetti er svo óhagstæð, þá má geta nærri, hvaða kjör eru á lánum, sem veitt eru út á 2. veðrjett. Nú eru vextir af víxillánum í Íslandsbanka um 8% með framlengingarkostnaði og stimpilgjaldi; og þetta verður fjelagið að greiða af allháum víxli, sem er í þeim banka. Aftur eru vaxtakjörin á lánum Byggingarfjelagsins betri í Landsbankanum. Og það er aðallega vegna háu vaxtanna nú, sem fjelagið sækir um styrk. Rentubyrði fjelagsins árið 1925 var kr. 18630.20. Og skuldir fjelagsins eru á þriðja hundrað þúsund krónur. En atvinnuleysistímarnir 1921–1924 hnektu líka hag fjelagsins. Á þessum árum er meira eða minna af fólki, sem gengur atvinnulaust heil og hálf misserin, og þegar menn hafa ekkert að starfa, eiga menn líka erfitt með að borga. Menn geta ímyndað sjer, og jeg veit, að hv. þm. muni skilja það, að þegar fátækir verkamenn hafa mist sína atvinnu, þá líður ekki á löngu, þangað til þeir komast í þrot og verða að skulda hjá húseigandanum og hjá kaupmanninum, og ef þeir ekki hafa lánstraust, þá verða þeir að leita til sveitarfjelagsins. Verði menn fyrir veikindum fer á sömu leið.

Það hefir altaf viðgengist, að menn hafa skuldað húsaleiguna einhvern hluta úr vetri, þann tímann, sem menn hafa haft minst að gera. En útgjöldin eru þá oft og tíðum mikil fyrir fjölskylduna, því að útgjöldin eru þá enn meiri en að sumrinu til, svo sem kostnaður við ljós og hita. Nú gengur þetta oft vel hjá mörgum manni, sem skuldar yfir vetrarmánuðina, hvort sem það er húsaleiga, úttekt hjá kaupmanninum eða þá bankalán. Verkamaðurinn getur borgað þetta upp af sumarkaupi sínu, ef vel gengur. En nú getur komið fyrir, að einhver óhöpp beri að höndum, t. d. að sá, sem vinnur fyrir heimilinu, veikist, verður að borga mikið fje í kostnað við læknishjálp o. fl. Auk veikindakostnaðarins fer hann þá líka á mis við atvinnu, sem hann annars hefði notað til að framfleyta sjer og sínum á. En það er sama hvers vegna hann ekki getur borgað, hvort það er vegna veikinda eða vegna atvinnuskorts, skuldin er orðin til, og flestir skuldunautar munu þá vilja reyna að bíða þar til atvinnutíminn kemur, í von um, að eitthvað rætist úr og þeir fái eitthvað upp í skuld sína. En langmest af húsaleiguskuldum Byggingarfjelagsins hefir orðið til af þeim ástæðum, og á þann hátt, sem jeg hefi nú lýst. Þegar svo koma mörg atvinnuleysisár í röð, þá safna verkamenn miklum skuldum, og mikið af þeim skuldum tapast, því að atvinna þeirra gefur víst sjaldan meira en svo, að þeir á hverjum tíma aðeins geti fleytt fram fjölskyldum sínum. Og kemur þá til ákvarðana lánardrotna, hvað gera skuli. Nú eru flestir svo, að ef einhver skuldar, þá teygja þeir sig í lengstu lög til þess að ná inn fjenu, kannske með smáafborgunum á löngum tíma. Og sumt kemur inn, en sumt ekki. Veldur því þá oft annaðhvort atvinnubrestur eða heilsubilun, sem getur jafnvel orðið til þess, að menn þurfa að leita til sveitarsjóðs. Það er nú svo um verkafólkið, að ef það skuldar, þá getur það ekki borgað, nema atvinna sje góð. En ef sá eini möguleiki bregst, eða ef fólkið verður fyrir áföllum, þá eru litlar líkur fyrir því, að skuldin náist. Þá kemur þetta til greina. Og að því er snertir Byggingarfjelagið, átti stjórn þess að víkja hverjum manni úr íbúðinni, er ekki gat borgað mánaðarlega? Það var auðvitað hægt undir húsaleigulögunum að láta fógeta reka mennina út. Jeg efast þó um, að það sje jafnvel venja hjá einstökum mönnum, er hús eiga. Þeir munu vafalaust teygja sig langt í því að gefa gjaldfrest, í von um, að það geri leigjendunum auðveldara að komast fram úr því að jafna skuldina, og að þannig fengju þeir á endanum peninga sína borgaða. En þegar ár eftir ár koma slík ár sem þessi mörg undanfarin atvinnuleysisár, þá safnast mönnum skuldir, sem þeir geta ekki borgað upp að sumrinu, en næsta vetur safnast svo enn nýjar skuldir. En af hverju stafar þetta? Er það stjórn Byggingafjelagsins að kenna? Nei, það er þeim mönnum að kenna, sem binda togarana og koma þannig í veg fyrir, að menn geti unnið; því að frá sjávarútveginum stafar sú atvinna, sem hjer fæst í Reykjavík, að langmestu leyti. Þegar svo atvinnuleysi er sumar eftir sumar, þá er skiljanlegt, að það safnist fyrir skuldir hjá verkamönnum, og þá er líka hætt við, að þeir, sem hjá þeim eiga, tapi, er fátækari hluti fólksins verður að leita til sveitarsjóðs til þess að geta lifað. En eins og kunnugt er, borga sveitarsjóðir ekki áfallnar skuldir þeirra manna, sem þeir taka við. Árin 1922 –'23 og 1925 og síðastliðið ár söfnuðust skuldir við Byggingarfjelagið, sem eru þó ekki meiri en það, að þær nema um 6% tapi af húsaleigu fjelagsins. Nú vil jeg segja háttv. fjvn.- mönnum það, að verkamenn geta ekki, eins og t. d. háttv. þm. Seyðf. (JóhJóh), farið í ríkissjóðinn og látið hann borga fyrir sig húsaleiguna, eða eins og háttv. 2. landsk. (IHB), sem í hvert skifti, er kvennaskólann vantar peninga, getur komið til ríkissjóðs eða til þingsins og sagt: Getið þið nú ekki veitt okkur 2 þús. kr. í viðbót? o. s. frv. Og við segjum auðvitað jú undir eins. Enda er það líka sjálfsagt. Þó er skólinn „privat“-stofnun. En jeg skal gjarnan bæta því við, að jeg hefði ekkert á móti því, að kvennaskólinn væri ríkisskóli, en ekki „privat“-stofnun. En verkamenn geta ekki gengið í ríkissjóðinn og heimtað að fá húsaleigu sína greidda þaðan. (IHB: En kvennaskólinn hefir ekki verið kröfuharður!). Nei, nei, en þegar hann vantar peninga, þá kemur hann bara til þingsins, og það er svo elskulegt að veita honum altaf styrk, alveg eins og ríkissjóður borgar hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) til þess að renta sitt eigið hús. En þetta geta nú verkamennirnir ekki gert. Þeir eiga ekki aðgang að svo góðum viðskiftavinum sem ríkissjóður er. Og þó að sveitin taki við þeim og greiði húsaleigu þeirra, þá greiðir hún þó ekki hinar gömlu skuldir.

En svo að jeg víki aftur að Byggingarfjelaginu, þá er ekki nóg með það, að till. er fram komin um að fella niður fjárveitinguna til þess, heldur virðast líka hafa verið pantaðar illgjarnar árásargreinar á fjelagið og stjórn þess. Jeg vil nú skjóta því til háttv. nefndarmanna, hvort þeim hafi ekki í nefndinni verið bent á greinar þær, er út komu í blaði því, er jeg gerði mig áðan sekan í að nefna hjer, en mun gæta þess, að jeg komist ekki í þingvíti fyrir aftur, einmitt þá daga, er nefndin var að taka ákvörðun um Byggingarfjelagið. Þetta blað hefir gert mjög óvingjarnlega árás á Byggingarfjelagið og stjórn þess og jafnvel brugðið henni um fjárdrátt. En það er nú í máli. Jeg vona, að þessar greinar hafi ekki verið pantaðar og það til þess eins, að hvorki bæjarsjóður nje ríkissjóður veittu fjelaginu styrk. Jeg vona líka, að árásargreinar og aðdróttanir blaðsins, sem jeg ekki nefni, sjeu ekki skrifaðar í skjóli dómsvaldsins, þó að annar ritstjóri blaðsins hafi nú sagt við mig: „Jeg skal ekki verða sektaður“, sem getur ekki þýtt annað en það, að hann sje búinn að tryggja sjer, að hann verði ekki dæmdur, og sje búinn að fá vitneskju um það hjá hlutaðeigandi dómara, að hann mundi verða sýknaður, hvað sem fram kæmi. Slíkt fullyrða menn ekki, nema þeir sjeu alveg vissir. — Jeg hefi nú vikið að þessu máli af því, að mjer hefir fundist háttv. þdm. leggja fullmikið upp úr árásargreinum þeim á fjelagið, er út hafa komið nú undanfarið. Það virðist hafa verið stuðlað að því með útkomu sumra þessara greina, að þær kæmu einmitt út á þeim tíma, er hv. fjvn. fjallaði um fjárlagafrv. Mjer þótti vænt um, að háttv. Nd. stóð af sjer þessar árásargreinar og tók styrkinn upp í fjárlagafrv., og jeg vona, að hann verði einnig látinn halda sjer hjer í þessari hv. deild, enda þótt nefndin hafi lagt til, að hann yrði feldur niður. En styrkur þessi er fullkomlega rjettmætur, því að ásakanirnar eru ekki á neinum rökum bygðar. Á reikningum fjelagsins sjest auðvitað, að útistandandi skuldir eru miklar. Þær voru um áramótin ca. 10 þús. kr., en þess ber að gæta, að þann tíma er einmitt erfiðast um allar greiðslur. Venjulega er minst útistandandi af skuldum seinni hluta sumars, því að þá eru allir, sem geta, búnir að borga upp. — Ef litið er á það, hve mikið fje er lagt til byggingarfjelaga erlendis, þá getur maður undrast það, að ekki skuli vera greiddur hjer hærri styrkur til samskonar framkv. Eftir því, sem jeg kemst næst, er styrkveitingin til byggingarfjelaga í Danmörku svo mikil, að það svaraði því, að hjer væru veittar um 70–80 þús. kr. til Byggingarfjelags Reykjavíkur. En það er helmingi hærri upphæð en því hefir verið veitt hingað til. Fyrir þá sök hefi jeg nú komið fram með till. um 40 þús. kr. styrk til fjelagsins, enda lækki það líka húsaleiguna. Ef skuldir þess lækka nú um 40 þús. kr., þá svarar það til, að vaxtaútgjöld lækki um nálega 3 þús. kr. hjá fjelaginu. Fái nú fjelagið þessar 40 þús. kr. og lækki húsaleiguna um 10%, þá helst það nokkurn veginn í hendur, ef ársleigan er nálægt 30 þús. kr. á ári. Jeg ætla nú samt að gera ráð fyrir, að svo geti farið, að jeg ef til vill taki þessa tillögu aftur, því að jeg þykist vita, eftir þeim sparnaðarhug, sem hjer ríkir, að hv. þdm. muni ekki vilja samþ. hana.

Þá á jeg hjer eina till. eftir, sem jeg vildi minnast á. Hún er um það, að veitt verði fje úr ríkissjóði til atvinnubóta, ef atvinnubrestur verður. Jeg álít, að þetta eigi að standa í hverjum fjárlögum. Ef atvinnan stöðvast, þá leiðir af því atvinnuleysi fyrir verkafólkið, eins og jeg hefi lýst í sambandi við Byggingarfjelagið. En jeg held, að jeg megi fullyrða, að hæstv. forsrh. (JÞ) hafi nýlega látið þá skoðun í ljós, að á slíkum tímum ætti ríkissjóður að halda uppi framkvæmdum. Jeg vil nú með till. minni koma því svo fyrir, að stjórninni sje heimilt að gera þetta, ef á þarf að halda, og einnig að veita lán til bæjar- og sveitarfjelaga í sama skyni. Síðastliðinn vetur var veitt fje til atvinnubóta, en það var bæði lítið og aðeins á einum stað, sem sje hjer í Reykjavík. Stjórnin á að halda uppi framkvæmdum eftir slíkt atvinnuleysisár sem var hjer 1926. Það á helst að byrja á haustin áður en klaki er kominn í jörð, því að þessi vinna er oftast undirbúningur undir byggingar, vegagerð o. fl. Segjum, að byrjað væri í september og haldið áfram eins lengi og hægt væri með nokkrum árangri að stunda slíka vinnu. En það er miklu verra að byrja t. d. í desember eða janúar og vinna þegar kaldast er og stystur dagur, og þegar minst verður úr verki.

Áður en jeg sest niður vil jeg víkja ofurlítið að einni brtt. hv. nefndar. Það er 6. brtt. og er um það að fella niður aths. við styrkinn til Jóns Kristjánssonar, en þó á styrkurinn að haldast. Þess ber að gæta, að niðurfelling á vöxtum og afborgunum af láni þessa manns svarar til þess, að honum hafi verið veittur lítill styrkur í nokkur ár til „klinikinnar“. En viðurkenningin felst í því, að háttv. Nd. veitti styrkinn og hv. fjvn. í Ed. felst á hann, en vill aðeins hafa hann minni. Annars ætti að láta aths. standa og skoða þetta bara sem styrk frá fyrri árum.

Jeg man nú ekki, hvort það var fleira, sem jeg þurfti að gera að umtalsefni nú. En jeg á þá altaf eina ræðu til góða, ef andæft verður hastarlega ræðu minni og jeg þarf að tala aftur. Þó get jeg ekki stilt mig um að finna að því, að tveir hv. þm. (BK og JKr) hafa farið að narta í Þórberg Þórðarson og vilja nú taka af honum þær 200 kr., sem hv. Nd. setti inn. Það var nú ætlunin, að hann hjeldi þessum 1200 króna styrk, en stjórnin lækkaði hann um 200 kr. En hv. Nd. leiðrjetti það. En nú koma þessir tveir hv. þm. fram á vígvöllinn og vilja skera niður þessa smáupphæð. Mjer finst þetta satt að segja óþarfa nart. Þeir gátu með fult eins góðri samvisku komið fram með fjárveitingu til þess manns, sem þeir vilja nú styrkja til svipaðrar starfsemi, þó að þeir færu ekki að draga fje af Þórbergi. Það er líka enn síður ástæða til þessa, þar sem honum hefir verið vikið úr atvinnu fyrir að búa til snildarverk, sem er landi voru til hins mesta sóma, snildarverk, sem er sígilt og hefir víðfrægt svo marga íhaldsmenn, að þeir munu lengi lifa í því meistaralega riti. Ætti þeim því heldur að vera kappsmál að styðja Þórberg og styrkja til ritstarfa. Jeg sje, að hjer er nýr maður kominn inn í deildina, hv. þm. Barð. (HK), sem orðið hefir þess heiðurs aðnjótandi hjá þessum ritsnillingi að vera gerður ódauðlegur í riti hans.

Jeg læt nú hjer staðar numið. Jeg hefi orðið að vera nokkuð langorður um Byggingarfjelagið, af því að gerðar hafa verið á það látlausar árásir til þess að spilla fyrir því, að það fengi styrk. Jeg skal geta þess, að styrkur þessi er eiginlega ekki annað en endurgreiðsla, vegna þess að 5 þús. kr. hafa staðið á fjárlögum, en ekki komið til úthlutunar, heldur fallið niður, ekki af því, að fjelagið væri ekki verðugt styrksins, heldur vegna þess, að íhaldið í bæjarstjórn hefir notað meiri hluta sinn þar til þess að varna þess, að fjelagið fengi styrk. En það hefir verið sett að skilyrði fyrir ríkissjóðsstyrknum, að styrkur kæmi á móti frá bæjarstjórn Reykjavíkur. En þar eru nokkrir ofstækisfullir menn, sem geta ekki augunum litið neitt fyrirtæki, sem hefir á sjer sósíalistiskt eða samvinnusnið, þá ætla þeir alveg að sleppa sjer. Úr þeirri átt er komin sú ófrægingaralda, er leitt getur til þess, að þeir sporgöngumenn Íhaldsins, er níðgreinarnar hafa skrifað, verði dæmdir í sektir og fangelsi, ef rjetturinn á að ske, fyrir illyrði sín og árásir á Byggingarfjelagið.