02.05.1927
Efri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

21. mál, fjárlög 1928

Björn Kristjánsson:

Jeg er svo heppinn, að jeg á enga brtt. sjálfur að þessu sinni. Samt þarf jeg að segja fáein orð út af tillögu hv. fjvn. á þskj. 449, 4. lið. Jeg kemst ekki hjá því að mótmæla þessari till. hv. nefndar, þar sem hún fer fram á, að styrkurinn til Kjósarlæknisins sje færður úr 1500 kr. niður í 550 kr. Svo er styrkur þessi til orðinn, að hjeraðslæknirinn, sem þar á að þjóna, getur ekki ferðast þangað, af ástæðum, sem hv. deild eru kunnar. Þessi hreppur og tveir hreppar aðrir hafa því verið hjeraðslæknislausir, síðan læknisembættið í Kjósinni var lagt niður. Byrjað var á því að veita sjerstaklega þessum hreppi dálitlar sárabætur fyrir missi læknisins, með því að veita Kjósarhreppi 300 kr. árlegan styrk til að leita læknis í Reykjavík eða Hafnarfirði. En reynslan sýndi, að enginn læknir í Reykjavík vildi skuldbinda sig til að fara inn í Kjós, þegar á lá, fyrir þennan litla styrk. Það gengu oft dagar í að fá lækni þangað, og það jafnvel þó að líf manns lægi við. Auk þess voru ferðir þeirra afardýrar, miklu dýrari en gerist meðal hjeraðslækna. Hv. Ed. fjelst því á það fyrir nokkrum árum að hækka þennan styrk upp í 1500 kr. Sú upphæð var ákveðin eftir að búið var að ganga á milli læknanna hjer í Reykjavík og spyrja þá, fyrir hvaða borgun minst þeir vildu annast læknisstörf í upphreppunum í Kjósarsýslu með venjulegum læknataxta. Allra lægsta borgunin var 1500 kr. Menn höfðu reyndar ekki miklar vonir um að geta fengið lækni fyrir þetta, þó að það tækist. Ól. heitinn Gunnarsson læknir tók að sjer þennan starfa og hjelt honum, þangað til hann dó í haust. En í haust eða vetur var starfinn veittur Daníel lækni Fjeldsted, sem þá var búinn að setja sig niður sem „praktiserandi“ lækni í Hafnarfirði. En sett var upp við hann, að hann flyttist til Reykjavíkur. Nauðsynin á því var bæði sú, að þá var læknirinn nær, og ekki síður hitt, að hjer má ná í lækni að nóttu, en ekki í Hafnarfirði. Það eru því ekki lítil vonbrigði fyrir þennan mann, ef upphæðin verður færð niður, og í rauninni er þetta freklegt gabb við hann.

Hjer liggja fyrir alveg sjerstakar ástæður, sem hvergi munu eiga sinn líka, sem sje þær, að hjeraðslæknirinn getur ekki þjónað þessum hreppum, enda eru þær ástæður áður viðurkendar af Alþingi. Kostnaðarspursmálið fyrir þá, sem leita eiga læknis, er afarmikið. Í fyrsta lagi eru taxtar lækna hærri hjer en taxtar hjeraðslækna, og auk þess er flutningskostnaðurinn fram og aftur margfaldur.

Hrepparnir hafa samið við núverandi lækni að fara með mjólkurbílnum, sem gengur daglega upp að Esju, þegar ekki er um bráða sjúkdóma að ræða. Far með þessum bíl kostar aðeins 4 krónur fram og aftur. En ef hreppsbúar verða að taka einhvern lækni á þeim tíma, sem þeir eru viðlátnir, þá kostar bílferðin fram og aftur 40 krónur. Svona er mikið í húfi fyrir íbúa þessara hreppa.

Og ekki nóg með þetta. Það kom oft fyrir hjer áður, að menn drógu að sækja lækni kostnaðarins vegna, þangað til sjúklingurinn var kominn í dauðann. Jeg man eftir tveim bændum á einum bæ, sem svona stóð á fyrir, og þeir dóu báðir. Það eru því eindregin tilmæli mín við hv. fjvn., að hún láti ekki atkvgr. um þessa till. fara fram nú, heldur fresti því til 3. umr., og hafi þá tal af viðkomandi lækni, sem jeg hefi því miður ekki haft tækifæri til að ná í. Vilji læknirinn fallast á að þjóna upphreppum Kjósarsýslu með þeim kjörum, sem hv. nefnd leggur til, þá mundi jeg geta sætt mig við tillöguna, en annars ekki.

Þá ætla jeg að minnast ofurlítið á brtt., sem samgmn. flytur á þskj. 472, VII, við 13. gr. C, 2, um að færa styrkinn til flóabáta úr 109300 kr. niður í 100000 kr. í nál. hv. fjvn. á þskj. 467 sjest, á hverju þetta er bygt. Hún telur ógerning, eins og útlitið er nú, að hækka styrkinn eða bæta nýjum við og vill fresta því, að minsta kosti um eitt ár. Að öðru leyti ætlar hún stjórninni að skifta styrknum milli flóabátanna eins og að undanförnu, eða því sem næst.

Jeg er meðflm. ásamt hv. 6. landsk. (JKr) að tveim till. á þskj. 472, XIV og XV. Fyrri till. er þess efnis að lækka styrkinn til Þórbergs Þórðarsonar úr 1200 kr. niður í 1000 kr. Með tilliti til hinnar till., sem fer fram á styrk handa öðrum manni til samskonar starfa, höfum við viljað lækka þessa fjárveitingu. Háttv. 5. landsk. (JBald) fann að þessu, mjög vægilega þó, og taldi þessum orðasafnara, Þórbergi Þórðarsyni, svo mikið til gildis, að hann ætti meira en skilið að halda þeim styrk, sem hann hefði haft. Ennfremur mintist háttv. þm. á verk, sem maður þessi ritaði fyrir nokkrum árum, og kallaði það sígilt. Já, sínum augum lítur hver á silfrið. Jeg segi fyrir mig, að ef jeg væri einvaldur í þessu landi, mundi jeg hafa strikað þessa fjárveitingu alveg út, því að mjer finst það eiginlega vera til skammar að styrkja slíkan höfund. En sem sagt er það með tilliti til hinnar tillögunnar, að við berum þessa fram, og eins vegna þess, að krónan hefir hækkað svo mikið nú á síðustu tímum, að lækkunin er í fullu samræmi við það.

Seinni tillagan er þess efnis, að Guðmundi Davíðssyni á Hraunum verði veittur 600 kr. styrkur til að safna orðum úr alþýðumáli og orðtaka bækur, enda verði safnið eign ríkisins. Við teljum, að gott sje og nauðsynlegt, að orðasöfnun fari fram á fleiri stöðum en einum og af fleiri mönnum en einum. Og þegar um er að ræða jafnheiðarlegan, duglegan og greindan mann eins og Guðmund Davíðsson, vænti jeg, að hv. þd. geti verið þessu meðmælt.

Það er ekki venja mín að skifta mjer mikið af till. annara þingmanna. Þó er ein till. hjer, sem jeg verð að minnast á. Það er till. á þskj. 472, XII,2, við 15. gr., 20, þess efnis, að liðurinn falli niður. Þessi tillaga er frá hv. 1. landsk. (JJ), sem síðan vill setja 1000 kr. inn í 18. gr. til sama manns, Jóhannesar Lynge Jóhannssonar. Eins og mönnum er kunnugt, var Jóhannesi veittur þessi starfi fyrir mörgum árum, enda sagði hann af sjer prestsskap þess vegna. Hann hjelt sig einskis í missa, og er undarlegt að fara nú að fella þennan lið niður, vitandi, að Jóhannes Lynge er enn sístarfandi og í fullu fjöri og þarf því ekki eftirlauna við. Það væri auðvitað gott að fá þau, þegar þess þarf með, en tíminn er ekki enn kominn. Jeg verð því að mæla í móti þessu og skoða það sem brot á samningi Alþingis við þennan mann.