02.05.1927
Efri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

21. mál, fjárlög 1928

Einar Árnason:

Jeg á hjer brtt. þess efnis að veita Freymóði Jóhannssyni 1500 kr. styrk til utanfarar til þess að fullkomna sig í leiktjaldagerð. Hann sótti til þingsins í fyrra um styrk í sama skyni, en fjekk þá ekki áheyrn. Gerði jeg tilraun í hv. Ed. til þess að fá styrk handa honum og flutti till. um það, en hún var feld. Það kann að vera eðlilegt, að sú till. náði ekki samþykki þá, vegna þess að þessi maður var þá til þess að gera lítið þektur hjer syðra, þótt hann væri töluvert orðinn kunnur nyrðra.

En nú á síðastliðnu ári —, það mun hafa verið í haust, — þá hjelt hann sýningu í Reykjavík á málverkum sínum. Eftir því, sem jeg veit best, mun þessi sýning hafa vakið talsverða eftirtekt. Voru þeir margir, sem leist vel á þennan listamann.

Það má segja, að hann hafi lagt á margt gerva hönd: stundað húsamálningar og unnið fyrir sjer með því, málað andlitsmyndir og landslagsmyndir og nú síðustu 8 árin lagt mikla vinnu í að mála leiktjöld fyrir leikfjelagið á Akureyri.

Er það álit þeirra, sem vit hafa á og um geta dæmt, að hvergi hjer á landi hafi sjest eins góð leiktjöld og á Akureyri þessi ár. Háttv. þm., — margir að minsta kosti, — hafa átt kost á að sjá eitt leiktjald, sem hann hefir málað. Það var baktjaldið í „Munkunum á Möðruvöllum“, er það leikrit var leikið hjer í Reykjavík í vetur. Hefi jeg heyrt marga dómbæra menn ljúka lofsorði á þetta leiktjald og telja það bera vott um óvenju góða hæfileika málarans í þessa átt.

Um það bil, er hann sýndi hjer myndir sínar, átti hann tal við marga hv. þm., sem búsettir eru hjer í bænum, og eftir því, sem hann sagði mjer, þá vænti hann stuðnings þeirra. Freymóður er kvæntur fjölskyldumaður, sem á fyrir þungu heimili að sjá, og er því ekki nema eðlilegt, að hann hafi ekki efni á að kosta sig í útlöndum til þess að fullkomna sig í leiktjaldamálun, sem hann hefir mikla hneigð til og álíta má, að þörf sje á að koma í betra horf hjer á landi en nú er, ef leiklistin á að taka framförum, og sjerstaklega ef þjóðleikhúsið kemst upp, sem álíta má, að ekki verði langt að bíða. Er það eingöngu af löngun hans til þess að fullkomna sig í list sinni, að hann hefir lagt í kostnað um efni fram til þess að ferðast um helstu lönd Evrópu, þar á meðal suður til Ítalíu, til þess að kynnast þar ýmsu, er að list hans lýtur. Jeg hefi verið kunnugur manni þessum í langan tíma, og það leyndi sjer ekki, hversu mikið hann hefir lært í list sinni á þessu ferðalagi sínu, enda sjást nú víða í húsum málverk eftir hann. Jeg get fullyrt það, að hann er mesti reglu- og dugnaðarmaður og áhugasamur eftir því. Er óhætt að treysta því, að peningum þeim, sem hann fengi í þessu skyni, yrði vel varið. Auk þessa fylgja umsókn hans meðmæli góðra manna, þar á meðal formanns Leikfjelags Akureyrar, Indriða rithöfundar Einarssonar, sem er kunnur að áhuga fyrir íslenskri leiklist, og Haralds Björnssonar, sem er í Kaupmannahöfn nú og hefir lagt þar stund á leiklistarnám. Þessir menn hafa haft tækifæri til þess að kynna sjer hæfileika mannsins á þessu sviði listarinnar, leiktjaldamáluninni, og þeir veita honum eindregið meðmæli sín. Hann fer í umsókn sinni fram á 3000 þús. kr., en jeg hefi ekki treyst mjer til þess að fara fram á meira en 1500 kr.

Jeg orðlengi þetta svo ekki frekar, en vona, að hv. deild vilji veita honum þetta, svo að hann geti náð þeim þroska í list sinni, sem hann óskar, og verði ekki fyrir vonbrigðum eins og í fyrra.