03.05.1927
Efri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

21. mál, fjárlög 1928

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg mundi ekki hafa kvatt mjer hljóðs í þetta sinn, hefði jeg ekki verið nauðbeygð til að svara hv. 1. landsk. (JJ). Hann var að vanda með persónulegar árásir í minn garð, sem jeg er neydd til að svara að einhverju leyti, því að jeg vil þó ennþá sýna honum þá kurteisi að telja hann svara verðan, enda þótt jeg álíti tímanum betur varið á annan hátt en til að elta ólar við hann.

Þessi hv. þm. taldi í ræðu sinni í gær, að jeg væri völd að þeim 4 brtt. fjvn., sem ganga í þá átt að draga úr styrk til húsmæðrafræðslu. Á hann þar við till. nefndarinnar, sem snerta Blönduósskólann, húsmæðraskólann á Ísafirði, Laugaskólann og hinn væntanlega Staðarfellsskóla. Allar þessar niðurfærslur taldi hv. þm. mjer að kenna. Það er nú ekkert nýtt, þó að hv. 1. landsk. liggi á því lúalagi að rægja mig og níða. bæði í ræðu og riti, seint og snemma. Því, sem hann hefir ritað um mig, hefi jeg ekki nent að eltast við að svara, en brigslyrðum hans í þinginu hefi jeg aldrei látið ósvarað. Þessi hv. þm. veit það vel, aðeins ef hann vill vita það, að það er langt frá því, að jeg hafi borið eða beri kala til þessara skóla; það er honum kunnugt frá samstarfi okkar í mentamálanefnd þessarar hv. deildar nú á undanförnum þingum. Það, sem okkur hefir greint á um, er það, að jeg vil koma föstu skipulagi á húsmæðrafræðsluna, en hann vill flana eitthvað út í loftið skipulagslaust. Þessu hefi jeg haldið fram og held fram enn, því að mjer er illa við að sýnast og látast vera alt annað en jeg er. Jeg hefi enga loddarahæfileika. (JJ: Það er jeg nú ekki viss um). Að halda því einu fram, sem maður telur rjett og satt, er enginn loddaraskapur.

Fyrir fáum dögum var samþ. hjer í deildinni þál. um að skora á stjórnina að taka húsmæðrafræðsluna til nákvæmrar yfirvegunar, og þegar um þetta var rætt í nefndinni, var ekki langt frá hv. 1. landsk. að standa með okkur, en tilhneigingin til þess að látast og sýnast rjeði yfir honum í það skifti sem endranær, og þess vegna skarst hann úr leik og kom fram sem sjerstakur nefndarhluti. Annars mun reynslan skera úr því, hvort okkar hefir haft hollari áhrif á húsmæðrafræðslumálin í landinu.

Þá bar hann mjer á brýn, að jeg hefði drepið húsmæðraskólann á Austurlandi. Þetta er vitanlega fjarri öllum sanni, og jeg er hissa á, að hann skuli vera svo fífldjarfur að bera þetta fram í deildinni. Jeg mælti þvert á móti með till. um aukinn styrk til frú Sigrúnar Blöndal, svo að hún gæti þegar hafið húsmæðrafræðslu í Mjóanesi, enda þótt í smáum stíl sje. — Sömuleiðis bar hann mjer á brýn, að jeg hefði ráðið því í nefndinni að koma með till. um það, að Laugaskólinn fengi ekki þær 11 þús. kr., sem hv. Nd. var búin að samþykkja. Jeg átti vitanlega minn þátt í því, að till. þessi kom fram, eins og aðrir nefndarmenn, og tek jeg því á mig minn hluta af ábyrgðinni.

Jeg get nú ekki látið hjá líða að minna þennan hv. skjaldsvein húsmæðrafræðslunnar á það, að hann hefir gleymt því, að til eru lög frá 1917, sem kveða skýrt á um það, að stofna skuli húsmæðraskóla í grend við Akureyri. Um þetta segir í nál. á þskj. 465: „Með lögum nr. 37 1917 er ákveðið að stofna húsmæðraskóla í grend við Akureyri með 40 heimavistum og kenslustofum fyrir alt að 50 nemendur, auk íbúðar forstöðukonu og þjónustufólks o. fl. Þegar efni og annað, sem með þarf til skólans, verður fáanlegt með viðunanlegum kjörum, skal ríkissjóður leggja fram 2/3 af stofnkostnaði og skólinn rekinn á ríkisins kostnað.“

Jeg býst nú við, að bæði Norðlendingar og fleiri þekki þessi lög og telji þau eiga svo mikinn rjett á sjer, að tekið sje tillit til þeirra, þegar rætt er um skipun húsmæðrafræðslunnar á Norðurlandi. Að það hefir dregist svona lengi, að lög þessi hafi komið til framkvæmda, er af mörgum ástæðum, sem jeg veit, að háttv. deildarmönnum munu kunnar. Þegar nú eyfirskar konur frjettu það, að alveg átti að gera þær afskiftar í þessu máli og fara átti að veita fje til húsmæðradeildar við Laugaskólann, þá fóru þær að athuga málið og sendu símskeyti til Alþingis, þar sem þær skora á þing og stjórn að veita fje til byggingar húsmæðraskóla Norðurlands. Skeyti þetta vil jeg lesa upp, með leyfi hæstv. forseta: „Konur á Akureyri skora á stjórn og yfirstandandi Alþingi að veita í fjárlögum 1928 70 þús. kr. til byggingar húsmæðraskóla Norðurlands, samkvæmt lögum nr. 37 26. okt. 1917, þar sem fyrir hendi eru 35 þús. kr. á Akureyri og í Eyjafjarðarsýslu. — Húsmæðraskólanefndin.“

Þetta símskeyti hefir Alþingi borist frá eyfirskum konum. Jeg treysti mjer ekki til að halda því fram, að þessi hreyfing sje sprottin af öfund til þingeyskra kvenna, eins og haft hefir verið við orð hjer í hv. deild af hv. 1. landsk. þvert á móti tel jeg það fullkomlega eðlilegt, að þær hreyfi máli þessu, þegar svo er komið sem nú. — Nei, jeg sje ekki annað fært en taka tillit til þessara laga, úr því að ekki er búið að nema þau úr gildi, sem ekki virðist heldur sjáanlegt, að gert verði á næstunni, eftir þeim byr, sem húsmæðrafræðslan virðist hafa yfirleitt. Og úr því að einstakir menn telja sjer ekki sæmandi að brigða gefin loforð, þá ætti Alþingi ekki að ganga á undan og gefa fordæmi í því að brigða loforð sín.

Þá vildi jeg lítilsháttar minna á eitt atriði, það er húsmæðradeild kvennaskólans hjer. Hún hefir starfað í 18 ár og haft 422 námsstúlkur víðsvegar að af landinu. En þó hefi jeg aldrei heyrt, að þessi háttv. húsmæðrafræðslufrömuður hafi á nokkurn hátt lagt henni liðsyrði, hvorki í ræðu nje riti. Kemur það dálítið undarlega heim við þann mikla áhuga, sem hann telur sig hafa á húsmæðrafræðslu yfirleitt.

Nei, jeg er því miður hrædd um, að ást hans á málinu sje ekki eins einlæg eins og hann lætur í veðri vaka, því að væri svo, myndi framkoma hans vera alt önnur.

Þá var háttv. 1. landsk. með hótanir við mig. En þær skelfa mig ekkert. Jeg hræðist engar hótanir og get staðið við alt, sem jeg hefi sagt og gert í þessu máli, fyr og síðar, en getur hv. 1. landsk. það?