03.05.1927
Efri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

21. mál, fjárlög 1928

1200Jón Baldvinsson:

Háttv. frsm. (EJ) hefir nú svarað nokkuð fyrir hönd hv. nefndar og lýst afstöðu hennar til till. einstakra þm. og þá einnig til minna till. En um þær till., sem hv. frsm. ekkert mintist á, verð jeg að líta svo á, að nefndin hafi óbundin atkv. (EJ: Það kemur í ljós við atkvgr.). Já, það er rjett, það kemur í ljós við atkvgr., en það er nú vani að láta það koma fram fyrirfram, hvernig nefndin tekur hinum ýmsu till.

Jeg skildi ekki vel hugleiðingar hv. frsm. um, að ársreikningar ættu að grípa yfir tímabil það, sem fjárlögin mynda. Jeg veit ekki betur en svo sje. En hafi hann átt við það, að útgjöld ríkissjóðs fari eftir fjárlögum að öllu leyti, þá er það alger misskilningur. Áætlanir í fjárlögum eiga að fara eftir lögum, sem útgjalda krefjast, og eftir þeirri reynslu, sem fengin er, en lögin ekki eftir áætlunum fjárlaganna. Ef til dæmis styrkur samkvæmt jarðræktarlögunum er áætlaður í fjárlögum 200 þús. kr., en lögin heimta 400 þús. kr., þá verður ríkissjóður að borga þessar 400 þús. kr., hvað sem stendur í fjárlögum. En ef þessi sami liður væri áætlaður 600 þús. kr., en yrði ekki í reyndinni nema 300 þús. kr., þá greiddi ríkissjóður heldur ekki nema þær 300 þús. kr. Það er því alger misskilningur, að sama gildi um áætlunarútgjöld og persónustyrki svokallaða, eða þessháttar, sem greiðist í þeim upphæðum og tölum, sem settar eru í fjárlögin.

Jeg heyrði ekki um afstöðu nefndarinnar til Fjarðarheiðarvegarins, en jeg veit, að um það munu vera óbundin atkv. Enda veit jeg, að jeg á þar sterkan stuðningsmann í því efni, sem er hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), formaður hv. nefndar.

Jeg hefi ekki heyrt nein andmæli frá hæstv. forsrh. (JÞ) út af tillögu minni til Daníels Hjálmssonar. Jeg sje því ekki betur en að upplýsingar mínar hljóti að vera rjettar, og að hann eigi rjett á þessum litlu bótum.

Jeg vil þakka hv. fjvn. fyrir undirtektir hennar undir sumar brtt. mínar, t. d. styrkinn til Bjargeyjar Pálsdóttur. En mig langar til að leggja alveg sjerstaka áherslu á styrkinn til Sigurkarls Stefánssonar. Þessum manni er um að gera að ná prófi á næsta ári. Og það getur hann áreiðanlega, ef hann fær þá hjálp, sem jeg fer fram á að Alþingi veiti honum. Þessi stúdent er, svo sem jeg sagði í gær, fátækur, en mjög efnilegur og hefir hin bestu vottorð. Hann hefir nú gerst svo djarfur að mynda fjölskyldu, og gerir það fjárhag hans erfiðari, eins og skiljanlegt er. Jeg er ekki í vafa um, að þetta yrði einhver allra nauðsynlegasti stúdentastyrkurinn í fjárlögum.

Háttv. frsm. (EJ) talaði um styrk þann, er jeg fer fram á til Pálma Hannessonar, og sýndist mjer háttv. nefnd vera sæmilega eindregin á móti honum. Hv. frsm. fór annars um þetta þessháttar orðum, að jeg kemst ekki hjá að minnast nokkuð á það. Honum leist illa á að fá þennan mann til að „stikla á þúfunum“ og hjelt, að betra væri að ota að þeim einhverjum öðrum „pálma“. Þetta er einmitt galli margra bænda. Þeir átta sig ekki á því, að mannvitið geti orðið þeim til nokkurrar hjálpar. Þeir vilja ota járnpálmanum að þúfunum, en kasta frá sjer þessum Pálma, sem með þekkingu sinni og lærdómi gæti orðið þeim að þúsundföldu gagni. En þeir góðu menn mega reiða sig á, að meðan þeir neita samvinnu við mannvitið, standa þeir aldrei með pálmann í höndum í viðureign sinni við íslenskar þúfur. Það er mjög svo ómaklegt af hv. frsm. (EJ), er hann gerir gys að því, að framkvæmd sje vísindaleg rannsókn á þessum merkilegu yfirborðsmyndunum, enda þótt hann hafi sjálfur ekki víðsýni til að sjá annað en að þetta sje lítilfjörlegt og ómerkilegt. Það líður áreiðanlega ekki á löngu áður en menn sjá, hve nauðsynlegar þessar rannsóknir eru. Þær grípa svo inn í túnræktina, sem er ein aðalstoðin undir búskap Íslendinga. Ef rannsóknirnar gætu bætt eða aukið framkvæmdir um ræktun landsins, þótt ekki væri nema lítið, þá væri ekki lengi að endurgreiðast sá styrkur, sem hjer er farið fram á. Það er svo um flestar gagnlegar nýjungar og vísindalegar rannsóknir, að fyrst í stað ypta menn öxlum við þeim, einkum hinir þröngsýnni, íhaldsmennirnir.

Þá þarf jeg að síðustu aðeins að minnast á ummæli hv. frsm. um Byggingarfjelagið. Brtt. mín var um 40 þús. kr. aukinn styrk til fjelagsins, en jeg hefi nú lýst yfir, að hún komi ekki til atkvæða. En það er rangt hjá hv. frsm., að af hálfu jafnaðarmanna hafi ekki verið gerðar tilraunir til að lækka verð á húsnæði í Reykjavík. Hann verður að játa, að húsaleigan er einn erfiðasti útgjaldaliður, bæði Reykjavíkurbæjar og borgara hans, og jafnframt alls ríkisins. Í öllum sveitum landsins hljóta menn að gjalda hinnar gífurlegu húsaleigu hjer í bænum, því að hjer dvelur t. d. skólafólk o. fl. hvaðanæfa. Því er hin mesta nauðsyn á því, að húsaleigan lækki. Nú stendur hún fyrir þrifum sumpart þarflegum framkvæmdum og sumpart því, að framleiðslan komist í eðlilegra horf en enn er orðið. Við jafnaðarmenn höfum gert tilraunir til að lækka húsaleiguna, en þær hafa altaf verið drepnar af flokksbræðrum hv. þm. (EJ). Jeg skal játa, að þessar 5 þús. kr., sem nú eru í fjárlagafrv. til Byggingarfjelags Reykjavíkur og hv. fjvn. leggur til, að feldar sjeu niður, gera aldrei neitt til að hækka eða lækka húsaleigu í Reykjavík. En jeg álít þessa litlu upphæð rjettmæta viðurkenningu til fjelags, sem á dýrasta tíma ræðst í að byggja heilnæmar íbúðir handa fátæku fólki, sem hafði orðið að kúldrast í kjallaraholum og öðrum ljelegum hreysum. Það er líka viðurkent af flestu því fólki, sem þarna fjekk íbúðir, að afkoma þeirra og heilsufar er miklu betra en það var áður. Það er rjett hjá hv. frsm., að víxill, sem fjelagið hafði gefið út, var afsagður. En því hefir nú verið komið í lag og var áður en hlaupið var með það í Morgunblaðið. Mjer virðist ekki ósanngjarnt, að af tekjum ríkissjóðs renni eitthvað til að lækka húsaleiguna í Reykjavík, þar sem býr meira en fimti hver landsmaður, auk þess sem margir fleiri njóta góðs af, ef leigan lækkar. Jeg vil svo láta útrætt um þetta mál. Jeg beini því til hæstv. forseta, að jeg tek aftur brtt. XX á þskj. 472, en skora á hv. þdm. að fella brtt. hv. fjvn. um að nema burt styrkinn til Byggingarfjelagsins.