03.05.1927
Efri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. (Einar Jónsson):

Jeg vil ekki láta þess ógetið, hv. þdm. til heiðurs, að sem frsm. fjvn. álít jeg, að umr. hafi hjá öllum, sem nokkuð mark er takandi á, farið mjög hóflega og vel fram. Þó að fundið væri að gerðum fjvn. í einstökum atriðum, þá er það ekki að undra, en hitt tel jeg mikilsvert og vil þakka fyrir það. Þótt misjafnlega væri mælt með brtt. einstakra þdm., hefir fjvn. ekki orðið fyrir álasi, svo að teljandi sje, frá þeim. Álas í minn garð hefir aðeins komið frá einum hv. þm., sem gjarn er til að senda óvingjarnleg skeyti til þeirra, sem honum eru ekki að skapi.

Hv. þm. (JJ) rjeðist á mig fyrir það, hvernig jeg hefði leyst af hendi starf mitt sem frsm. fjvn., og var það auðvelt að finna að því, en hitt var ekki nema eðlilegt, að einhver af 5 manna nefnd yrði fyrir valinu. Að það var jeg, sem fyrir því varð, var heldur ekki mín sök, og í rauninni var það nefndarinnar að finna að því, hvernig jeg framkvæmdi mitt starf, en ekki hv. 1. landsk. Að þessum hv. þm. þótti ræða mín of stutt er ekki nema eðlilegt, svo gjarnt sem honum er til að halda langar ræður — og margar. Það vita allir, að það er hann, sem tefur þingið mest í þessari hv. deild. En þar sem hv. 1. landsk. var að tala um það, að það hefði verið af neyð gert að velja mig fyrir frsm. fjvn., þá held jeg, að það hafi ekki síður verið neyð að kjósa hann fyrir 1. landsk. þm., og mjer er kunnugt um og get sannað, að meiri hl. þjóðarinnar sjer eftir því, að svo skyldi fara. En jeg hygg, að gremja hans til mín eigi rót sína að rekja til þess, að jeg er úr Rangárvallasýslu. Hann lætur hatur sitt til sýslunnar bitna á mjer, og jeg hygg, að jeg viti ástæðuna til þess, að honum er svo illa við alla Rangæinga. Ástæðan mun vera sú, að honum hefir á óhappaferðalagi austur þar verið tekið ver en hann ætlaðist til. Síðan kemst hv. 1. landsk. naumast lengra austur en að Þjórsá. Til samanburðar vil jeg benda honum á það, að Jörundur hundadagakonungur komst þó að Jökulsá, og var hann þó ekki vinsæll af Íslendingum. En hv. 1. landsk. er þeim mun óvinsælli, að hann kemst ekki nema að Þjórsá.

Alt þetta lætur hv. 1. landsk. bitna á mjer, og jeg var þess þó ekki valdur, að Rangæingar kváðu hann svo niður, að hann varð að setjast á móbing og fær ekki að koma austur aftur; jeg stóð hjá og hafðist ekki að.

Þegar hv. 1. landsk. er að reyna að gera lítið úr mjer, byrjar hann á tilraun minni til að koma upp kúabúi í Gunnarsholti og vill í því sambandi binda mig við beljuhala. En þegar hv. 1. landsk. bjó á Hriflu, var það annaðhvort, að hann skrifaði sjálfur greinar um hinn mikla fyrirmyndarbúskap, eða hann ljet nafna sinn gera það, og eitt af því, sem þessi mikli afkastamaður gerði, var það að gera áveitu úr Skjálfandafljóti á þorranum í 12° frosti! Ef á að gera lítið úr búskapnum á Rangárvöllum, þá er fróðlegt að athuga búskapinn á Hriflu, eins og hann var í höndum hv. 1. landsk.

Hv. 1. landsk. var að tala um, að það væri ekki gott að vera einn um að taka fje úr ríkissjóði. Mjer datt þá í hug, að honum væri mjög áríðandi að athuga, hver nær í meira fje frá einstökum mönnum en hann. — Hver fær jafnódýrt húsnæði, skólakenslu og ferðakostnað til annara landa? Þegar hv. 1. landsk. vitnar í það, að veita þurfi fje til sundlaugar til þess, að menn geti sparað sjer ferð til Nissa til þess að læra sund, þá datt mjer í hug, hver er sendur í útlönd, þegar friður þarf að vera í landinu, og látinn ferðast á annara kostnað. Þegar þessi hv. þingmaður fer að stagast á dygðum sínum og drengskap, get jeg ekki að því gert, að mjer koma í hug viðskifti hans við einn gamlan Rangæing, sem Brynki var kallaður. Það var á unglingsárum hv. þm., að Brynki hafði eitthvað fyrir sig að leggja, en hv. 1. landsk. ekki. Þeir reru þá báðir suður í Garði, og varð hann þá feginn að njóta góðvildar Brynka. Seinna breyttist þetta svo, að það varð Brynki, sem þurfti hjálpar við og leitaði til hv. 1. landsk., sem þá var kominn í góða stöðu. En þá ljet þessi háttvirti þm. sem hann þekti ekki gamlan velgerðarmann og fjelaga. Þetta kalla jeg hvorki drengskap nje dygð, og svona hefði þingmanni Rangæinga aldrei hugkvæmst að breyta við nágranna sína.

Þá var hv. þm. með illkvitnislegar dylgjur út af framsöguræðu minni í gær. Hann ætlaði að vera fyndinn og hagaði orðum sínum á þá leið, að það kæmi stundum fyrir, að menn væru illa fyrirkallaðir á mánudögum. Jeg get sagt hv. 1. landsk. það, að jeg er ekkert feiminn við að tala berum orðum um það, sem hann var að dylgja um. Jeg veit, að það hefir verið sagt um mig, að jeg væri drykkjumaður, og jeg skifti mjer ekki af því. Jeg hefi a. m. k. aldrei verið það á annara kostnað. En jeg skora á þennan hv. þm. að sanna, að jeg hafi verið drukkinn í gær, ef hann treystir sjer til.

Jeg get lýst því yfir, að jeg er ánægður með umræðurnar um fjárlagafrv. í heild sinni, og jeg er ekki reiður hv. 1. landsk. fyrir hans ummæli. Það er nú einu sinni siður hans að hnífla óvini sína, eftir því sem hann fær því við komið, og ekki ástæða til að kippa sjer upp við það. Jeg vona, að starf fjvn. verði fjárlögunum til góðs, og jeg vænti þess fastlega, að hv. deild fari að óskum hæstv. ráðh. (JÞ) um að fylgja tillögum nefndarinnar.