03.05.1927
Efri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

21. mál, fjárlög 1928

Jónas Jónsson:

Út af ræðu hv. 2. landsk. (IHB) þarf jeg ekki að leiðrjetta annað en það, að hv. þm. lítur svo á, að hv. þm. Ak. (BL) hafi sýnt nægan áhuga fyrir húsmæðraskólamáli Akureyringa með því að hreyfa því við 3. umr. fjárlagafrv., án þess að leita til fjvn. En öll Nd. veit, að við þessu máli hefði ekki verið hreyft, ef nábúar hv. þm. (BL) hefðu ekki gert ráðstafanir til að færa út verklega kenslu við sinn skóla. Úr því að hv. þm. Ak. (BL) vildi ekki leysa málið með því að fá 35 þús. króna styrk án þess að reyna að drepa hitt málið um leið, er afstaða hans greinilega sönnuð.

Það er ekki rjett að leggjast á garðinn þar, sem hann er lægstur, svo að jeg skal fara vægilega með hv. frsm. (EJ). Jeg lít á hann alveg sömu augum og aðrir landsmenn. Það liggur ekkert eftir hann hjer á þinginu, og um álit Rangæinga á honum, sem hafa tvisvar felt hann við kosningar, er nokkurn veginn kunnugt. Jeg læt mjer í ljettu rúmi liggja, þó að hann efist um, að jeg greiði þakklætisskuldir mínar. En jeg get fullvissað hann um, að þegar hann er búinn að greiða skuldir sínar við Ingólf á Stokkseyri, þá verð jeg búinn að greiða allar mínar þakklætisskuldir.

Hv. þm. mintist á óeirðir hjá Rangæingum. En slíkt er algengt á skrílfundum og ekkert merkilegt. Jeg veit ekki annað en hv. þm. (EJ) hafi sjálfur hegðað sjer sæmilega á Hvolsfundinum nafntogaða, en þarna voru nokkrir ölvaðir menn, sem ljetu illa. Það gerði mjer ekkert til, því að skrílskapur bitnar jafnan á þeim, sem hann fremja. Þessi minni hluti, sem ljet ófriðlega, sýndi bara, að þarna er dálítið af ljelegu fólki, og það er skiljanlegt samræmi milli þess og hins, að hv. þm. (EJ) er illa að sjer og ófær til þingstarfa.

Þegar hv. þm. fór að tala um, að jeg hefði stundað jarðabætur á koti fyrir norðan í 12 gráða frosti, þá þykir mjer líklegt, að hann hafi eitthvað blandað því saman við 12 gráða meðal, sem hann kann að hafa notað við ófrjóseminni í eigin höfði, þegar hann var að búa sig undir framsöguræðu sína. Mjer þótti gaman, að hv. frsm. skyldi ná í skækilinn í stærsta málinu, sem hjer hefir verið talað um í dag. En þó að honum takist í bili að hindra, að mönnnum gefist kostur á að stunda íþróttir, þá mun það mál lifa löngu eftir að þingseta þessa hv. þm. er gleymd.