03.05.1927
Efri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

21. mál, fjárlög 1928

Magnús Kristjánsson:

Mjer virtust ummæli hæstv. atvrh. (MG) bygð á misskilningi, þegar hann talaði um styrkinn, sem hv. Nd. samþykti til markaðsleitar erlendis. Hann hjelt því fram, að hv. fjvn. þessarar deildar hefði látið í ljós þá skoðun með brtt. sinni, að með henni væri því slegið föstu, að þessi fjárveiting ætti ekki að skiftast eftir þeim hlutföllum, sem hv. Nd. hefir ákveðið, heldur væri það algerlega á valdi stjórnarinnar, hvernig henni væri varið. Jeg lít svo á, að þetta sje alger misskilningur. Þessi skoðun hefir hvorki komið fram í ummælum hv. frsm. nje í nál., svo að jeg veit ekki, á hverju hún er bygð. Jeg verð að álíta, að það sje vilji hv. Nd. að greiða bæði fyrir síldar- og fisksölunni, eins og fram kom í till. sjálfri og umræðunum, og jeg veit ekki til, að neitt hafi komið fram í þessari deild, sem sýni, að hv. fjvn. vilji kollvarpa gerðum hv. Nd. í þessu máli. Jeg vil leggja nokkra áherslu á þetta, ekki síst af því, að hv. þm. Vestm. (JJós) ljet ótvírætt í ljós, að engum blöðum væri um það að fletta, að þessi styrkveiting væri eingöngu ætluð til markaðsleitar í Suður-Ameríku. Jeg vil algerlega mótmæla þessu, og jeg álít, að skoðun hv. Nd. sje bygð á þeirri nauðsyn, að báðar þessar atvinnugreinir njóti nokkurs af þeim lítilfjörlega styrk, sem þingið hefir ákveðið að veita til markaðsleitar. Mjer finst því víkja nokkuð undarlega við, hvernig altaf er verið að klípa utan af þessu. Þetta var í fyrstu frambærilegur styrkur, en nú finst mjer orðin lítil von um, að hann geti komið að tilætluðum notum. Jeg tek þetta fram af því, að annaðhvort hefi jeg misskilið hæstv. atvrh. (MG), eða þá að hann hefir skift um skoðun frá því, að jeg talaði við hann fyr á þinginu. Þá virtist mjer hann hafa nokkurn skilning á því, að greiða þyrfti fyrir síldarsölunni, en sú fyrirgreiðsla verður ennþá brýnni af því, að ekki eru látin koma til framkvæmda lögin um síldarsöluna, sem samþ. voru á síðasta þingi. Jeg vil beina því mjög alvarlega til hv. fjvn. og allra hv. deildarmanna, að jeg álít, að miklu betur færi á því, að þessi till. nefndarinnar næði ekki fram að ganga, því að af henni gæti ekkert gott leitt. Mjer er kunnugt um, að þeir menn, sem berjast ár eftir ár við að framleiða þessa vöru og hafa orðið að taka á sig gífurlega byrði, þar sem síldartollurinn er, líta svo á, að vægustu kröfur, sem hægt sje að gera til þingsins, sjeu þær, að eitthvað sje gert til að greiða fyrir sölu síldarinnar. Jeg veit, að mikil óánægja ríkir út af þessum háa tolli, og hún kynni að magnast svo, að einhverjir örðugleikar gætu af risið. Það þýðir ekki að fara um þetta fleiri orðum, og jeg vona, að tillaga nefndarinnar verði ekki samþykt. En ef svo óheppilega tekst til, þá treysti jeg hv. Nd. til að kippa þessu í samt lag. Jeg álít, þegar um svona mikilvægt atriði er að ræða, að ekki sje rjett að brýna fyrir þinginu, að hin eina sanna nauðsyn sje í því fólgin, að fjárlagafrv. þurfi ekki að hrekjast milli deilda. Það getur jafnvel oft komið fyrir, að ýms atriði sje heppilegast að útkljá í Sþ.

Þá skal jeg víkja fáum orðum að 25. brtt. á þskj. 472, sem nokkuð var um rætt í gær. Mjer virtist hæstv. atvrh. (MG) taka upp þykkju út af því, sem jeg mintist á ómannúðlega meðferð á þessum símamanni. En það er misskilningur, að nokkru álasi hafi verið beint til hæstv. atvrh. (MG) út af þessu máli. Þar er um alt aðra menn að ræða, og þóttist jeg lýsa því nægilega skýrt. Hlutaðeigandi símamanni hefir aldrei komið til hugar, að hæstv. atvrh. ætti sök á þeirri meðferð, sem hann varð fyrir. í varnarskjali sínu segir hann: „Það skal játað, að brjef þetta er þannig vaxið, að það virðist vera nægilega sterkur grundvöllur undir slíkri stjórnarráðstöfun. Ráðherrann hefir því að mínu áliti aðeins gert það, sem honum bar að gera, eins og málið lá fyrir og eins og það var fyrir honum flutt.“

Jeg vona, að hjer þurfi ekki frekari vitna við. Eins og þessi orð bera greinilega með sjer, er hjer ekki um neina ákæru að ræða á hendur stjórnarinnar.

Jeg vænti þess fastlega, að þar sem það er fullkomlega sannað, að þessi maður hafi orðið fyrir ofsóknum af mönnum, sem tóku völdin í sínar hendur og báru ofurliði sjálfan landssímastjórann, að þessi hv. deild sýni þá sanngirni að samþykkja till. mína. Undirmenn símans sýnast hafa haft þarna svo mikil völd, að þeir gátu ekki einasta beygt landssímastjórann, sem þá að vísu var farinn að kenna þess sjúkleika, sem dró hann til dauða, heldur líka ráðherrann (KIJ), svo að hann fer bónarveg að Eggert Stefánssyni um að afsala sjer þeirri stöðu, sem búið var að veita honum, með loforði um, að hann skyldi fá aðra stöðu jafngóða, svo að hann biði ekki af skiftunum fjárhagslegt tjón. En efndirnar urðu þannig, að með rógi og illmælum var honum bolað úr þeirri stöðu líka.

Skal jeg svo ekki orðlengja þetta frekar, en hvernig sem fer um till. mína verð jeg að segja það, að þó að í öllum tilfellum sje sárgrætilegt, að menn sjeu beittir ranglæti, er enn verra að þola slíkt af hálfu hins opinbera en einstaklinga á milli. Þó að það verði ekki hrakið, að þessi maður sje að einhverju leyti breyskur og eigi við ástríður að stríða, þá er hitt eins víst, að ekki er sannað annað en að hann hafi altaf gegnt starfi sínu mjög vel. Og í heilt ár, eftir að hann hafði fengið loforð fyrir hinni nýju margumræddu stöðu, hjelt hann sjer alveg frá vínnautn. Þó að slæmt sje, að sekur maður komist undan hegningu, er þó enn verra, að saklausum sje hegnt, eins og hjer á sjer stað.