03.05.1927
Efri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

21. mál, fjárlög 1928

Magnús Kristjánsson:

Jeg verð fyrst að víkja að ræðu hæstv. atvrh. (MG) og verð að segja, að jeg fjekk ekki betur skilið ummæli hans í gær en að frá fjvn. lægi fyrir bending um það, að styrkinn til markaðsleitar ætti ekki að nota á yfirstandandi ári. En úr því að hæstv. atvrh. hefir nú lýst yfir því, að ummæli hans beri ekki að skilja á þann veg, þá get jeg vel unað við það. Jeg býst þá sem sje við, að hann sje sömu skoðunar og áður um það, að brýn nauðsyn sje á því að gera eitthvað í þessa átt nú þegar á þessu ári. Og jeg veit fyrir víst, að hæstv. atvrh. (MG) hefir svo mikinn skilning á atvinnuhögum þjóðarinnar, að hann veit, að brýn nauðsyn er á að gera þessar tilraunir sem allra fyrst, og að það geti meira að segja orðið til þess að auka mikið beinar tekjur ríkissjóðs á þessu ári.

Hv. frsm. fjvn. hefir ekki á neinn hátt látið í ljós, að ekki mætti nota styrk þennan í ár, og í nál. stendur ekkert um það. Ef ekkert verður úr framkvæmdum á þessu ári, þá er það ekki öðru að kenna en viljaleysi hæstv. stjórnar.

Það getur náttúrlega valdið óþægindum, að hv. fjvn. hefir klipið 2000 kr. af styrknum, en það ætti þó ekki að snerta markaðsleit fyrir síld, því að jeg vona, að til hennar verði varið þessum 10 þús. kr. En það væri best, að nefndin tæki aftur brtt. sína, eða að hún yrði feld, því að 2000 kr. hafa ekki þau áhrif á fjárhag ríkissjóðs, að neinu verulegu nemi.

Það er staðreynd, að á nálega öllum mannfundum að undanförnu hefir venjulega aðaláherslan verið lögð á það, ekki aðeins af þingmannaefnum og stjórnmálamönnum, heldur öllum hinum víðsýnustu mönnum, að það, sem umfram alt beri að leggja stund á, sje að styðja atvinnuvegina. Nú er einmitt tækifæri til þess að auka framleiðsluna og gera hana verðmætari, að auka og efla atvinnuvegina og koma afurðum þeirra sem víðast. En ef ekki á að framkvæma neitt í þá átt, þá er alt, sem um það hefir verið skrafað utan þings og innan, aðeins innantóm orð. En jeg vona nú samt, að svo sje ekki, og að þingið meira að segja sjái, að það er of langt gengið að vera að klípa af þessari fjárveitingu.

Það er krafa mikils fjölda þingmanna, að þegar í ár sje hafist handa um markaðsleit og ekki varið til þess minna fje en hv. Nd. ákvað. Við höfum ekki ráð á því að bíða eitt árið enn, — allra helst vegna þess, hvað útlitið er ískyggilegt, — með það að láta komast í framkvæmd þau ráð, sem líklegust eru til bjargar fyrir stærstu atvinnuvegi vora.