03.05.1927
Efri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Baldvinsson:

Jeg ætla, að hv. frsm. fjvn. (EJ) hafi ekki vikið neitt að XXVI. brtt. á þskj. 472, en jeg hefi átt tal við hann síðan og komist að þeirri niðurstöðu, að nefndin er á móti því, að brtt. sje samþykt. Jeg skildi það svo, að hann liti svo á, — og svo hafi verið litið á á fyrri þingum, — að ef atvinnubrestur yrði í einhverju sjávarþorpi, þá bæri ríkissjóði skylda til þess að hlaupa undir bagga á hentugasta hátt á hverjum. tíma.

Jeg þykist nú vita, að brtt. muni falla, úr því að svona stór nefnd legst á móti henni. Og þess vegna ætla jeg ekki að leggja till. undir öxi nefndarinnar, en tek hana aftur með þessum formála.

Þá ætla jeg að minnast á tvær brtt., sem skotist hafa fram hjá mjer áður. Það er þá fyrst 44. brtt. á þskj. 449, um að lækka utanfararstyrk til Friðfinns Guðjónssonar leikara um 500 kr. Hv. Nd. samþykti að veita honum 2500 kr. styrk til þess að kynnast leiklist erlendis. Þessi maður er kunnur að því, að hann er einhver besti krafturinn í Leikfjelagi Reykjavíkur. Hann hefir nú leikið í 30 ár og aldrei fengið neina viðurkenningu fyrir. Og mjer finst, að þótt honum verði veittar 2500 kr., þá sje það ekki neitt í ósamræmi við aðra styrki í fjárlögunum, og mjer finst, að allir ættu að vera sammála um það, að hann sje vel að þessum styrk kominn fyrir marga skemtistund, sem hann hefir veitt mönnum.

Þá er 56. brtt. á sama þskj., um hafnarbætur í Ólafsvík. Í sambandi við það vil jeg geta um eitt þorp hjer nærlendis, — það er Akranes, — sem fjekk lán úr fiskveiðasjóði til hafnarbóta hjá sjer. Hefir þetta gefist svo vel, að nú geta sjómenn þar verið heima alla vertíðina og þurfa ekki eins og áður að leita til annara verstöðva. Hefir gróðinn af þessu skift tugum þúsunda fyrir þorpið, eigi aðeins vegna þess, hve mikill kostnaður sparast við það að þurfa ekki að taka sig upp og flytja í aðra verstöð, heldur vegna þess, hvað vinna hefir verið þar meiri, hvað aflinn hefir nýst betur, og hve mörg önnur fríðindi fylgja þessu, svo sem það, að nú geta þorpsbúar sjálfir notað allan fiskúrgang til ræktunar hjá sjer. Þetta er alt hafnarbótunum að þakka.

Þá vil jeg víkja máli mínu til hæstv. forsrh. (JÞ). Hann var að ávíta hv. 1. landsk. (JJ) fyrir þau ummæli, sem hann hafði haft um fólk í einni sýslu. Jeg heyrði ekki þau ummæli, en það má vera, að þau hafi verið ógætileg. En í ræðu hæstv. forsrh. komu fram niðrandi ummæli um kaupstaðarbúa, því að hann var að tala um skrílfundi hjer í Reykjavík. Það vita nú allir, að hjer er enginn skríll, og það sat síst á hæstv. forsrh. að vera að álasa hv. 1. landsk., en gera sig jafnframt sek.an um hið sama, sem hann var að ávíta fyrir.