03.05.1927
Efri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. (Einar Jónsson):

* Jeg get endurtekið það, sem jeg sagði í síðustu ræðu minni um brtt. nefndarinnar. Það hafa í rauninni ekki komið nein þau mótmæli gegn þeim, sem jeg þarf að andmæla, fyr en nú hjá hv. 5. landsk. (JBald). Honum þótti það ósanngjarnt að lækka styrkinn til Friðfinns Guðjónssonar. Frá mínu sjónarmiði er það ekki forsvaranlegt að veita meira fje en fjvn. gerir ráð fyrir til leikfjelaga og leikara, og skattleggja þá um leið sveitafólk og sjófarendur, sem aldrei sjá leikið. Að rjettu lagi ættu Reykvíkingar að leggja fram alla styrki til leikara, því að það eru þeir, sem helst njóta listar þeirra.

Hv. 5. landsk. mintist sanngjarnlega á það, hverja þýðingu hafnarbætur hafa, og tók þar Akranes til dæmis. Maður þekkir nú það, að þannig getur farið, þegar heppnin er með. En um hafnarbæturnar í Ólafsvík er það að segja, að hv. þm. Snæf. (HSteins) hefir upplýst það, að þótt verkið sje unnið smám saman, þá hefir ekkert haggast af því, sem gert hefir verið, og þess vegna er hægt að fullgera það mannvirki smátt og smátt. En það má eflaust færa rök fyrir því, að ekki veiti af þeirri upphæð, sem hv. Nd. samþykti, og jeg er sjálfur með því, að styrkurinn verði ekki lækkaður úr því, sem Nd. ákvað.

Það situr ekki á mjer að fara að bera hönd fyrir höfuð hæstv. forsrh. (JÞ), því að hann er manna best fær um það sjálfur. En vegna þess að ummæli hv. 1. landsk. náðu til Rangárvallasýslu, þá ætla jeg nú að biðja samherja hans og fóstbróður, hv. 5. landsk., að hlaupa yfir til hans og spyrja hann að því, hvort ekki finnist skríll í Rangárvallasýslu. Jeg hefi að minsta kosti engan frið fyrir ásökunum frá hv. 1. landsk. um það, og hann hefir líka skrifað ótæpt um það í blöð, að í Rangárvallasýslu sje voðalega bjálfalegur lýður.

Af því að hv. 1. landsk. (JJ) hafði ónotaleg orð um mig, þá vildi jeg beina til hans nokkrum orðum. Hann sagði, að ekkert markvert lægi eftir mig frá öllum þeim árum, sem jeg hefði átt sæti á Alþingi. En það er til Alþingisályktun fyrir því, að ekkert liggi eftir hv. 1. landsk. á þingi, er til bóta horfi, nema síður sje. Mjer var það ekki grunlaust, þegar jeg kom á þing, að hv. þm. (JJ) mundi minnast einhverjum orðum á kaupfjelagið „Ingólf“ á Stokkseyri í sambandi við mig, en mig grunaði líka, að þar myndi hann ekki hafa í fullu trje við mig. Jeg var formaður í kaupfjelaginu „Ingólfi“, en orsökin til þess, að það varð gjaldþrota, var sú, að jeg og aðrir menn í kaupfjelaginu lögðumst á móti því, að fjelagið gengi í Samband íslenskra samvinnufjelaga, og forðuðum því frá því að verða, eins og kaupfjelag Rauðasands, til óþurftar landsmönnum. En jeg vildi, úr því að hv. þm. (JJ) var svo óskammfeilinn að minnast á kaupfjelagið „Ingólf“ við mig, aðeins minna hann á, að hann var einn af forgangsmönnum og stofnendum kaupfjelags í Reykjavík, en smaug út úr því, þegar komið var í óefni fyrir fjelaginu, og skaut sjer undan þeirri sjálfsögðu siðferðilegu skyldu og lagaskyldu að greiða sinn hluta af skuld fjelagsins, sem honum bar sem fjelagsmanni. Þó að því hv. þm. hafi verið með dylgjur til mín um kaupfjelagið „Ingólf“, þá skal jeg láta hann vita það, að jeg skulda ekki neitt. Og til þess að sýna og sanna hv. þm. (JJ) þetta, þá skal jeg sækja til hans lækni og greiða læknishjálpina sjálfur.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.