06.05.1927
Efri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

21. mál, fjárlög 1928

Frms. (Einar Jónsson):

Jafnvel þó að jeg hafi orðið þess var, að svo stórt „númer“ sem Alþýðublaðið er í áliti ýmsra manna — og jafnvel fáeinir, sem það „númer“ vilja gera stærst, — hallist á mig fyrir framsöguræðu mína við 2. umr. fjárlagafrv. og finni mjer helst til foráttu, hve stuttorður jeg hafi verið, þá læt jeg mjer slíkar aðfinningar í ljettu rúmi liggja og mun því halda sömu venju og áður, að forðast alla óþarfa mælgi og tilgangslaust orðablaður, en vera eins stuttorður og mjer er framast unt.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, tók frv. þeim breytingum við afgreiðslu 2. umr., að nú kemur það til 3. umr. með tekjuafgang, sem nemur 10630 krónum.

En þegar litið er á þær brtt., sem nú liggja fyrir og fjvn. á lítinn þátt í, en miða allar til hækkunar, nemur sú upphæð 23200 krónum. Frá þeirri upphæð dragast aðeins tvær lækkunartill. frá nefndinni, sem nemur til samans kr. 696.49, en það eru lögboðin eftirlaun og prestsekknastyrkur til Valgerðar Gísladóttur, sem nú hefir gifst í annað sinn og hefir því tapað rjetti sínum til eftirlauna. Þegar þessi lækkun er dregin frá, nema hækkunartill. kr. 22503.51, og eru það eingöngu brtt. hv. þdm. Ef maður nú hugsar sjer, að allar þessar hækkunartill. verði samþ., sem jeg ætla þó engu að spá um, mundi afleiðingin verða sú, að frv. færi með dálitlum tekjuhalla út úr deildinni. Þó er aðgætandi að draga má frá tekjuafgang þann, sem nú er á frv. og nemur eins og kunnugt er 10630 krónum. Mundi því tekjuhallinn verða, ef allar hækkunartill. yrðu samþ., kr. 11873.48.

Eftir því, sem fram kom við 2. umr., vænti jeg, að hv. deild haldi fast við þá stefnu, er hún tók þá, að afgreiða frv. tekjuhallalaust.

En af því að svo háttar til, að einstakir hv. þdm. bera fram þessar brtt., ætla jeg að spara mjer að minnast á þær, þangað til þeir hafa gert grein fyrir þeim. Þó geri jeg ráð fyrir, að fjvn. muni fæstum þeim fylgja, þegar til atkvæðagreiðslunnar kemur. Sömuleiðis sleppi jeg að sinni að minnast á þær brtt., sem nefndin hefir borið fram við 22. gr., enda mun samnefndarmaður minn, hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), gera nokkra grein fyrir XXV. brtt.

Þetta læt jeg mjer þá nægja að sinni, og kippi mjer ekki upp við það, þótt jeg fái að heyra á eftir, að jeg hafi verið stuttorður.