06.05.1927
Efri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

21. mál, fjárlög 1928

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg á hjer litla brtt. á þskj. 513, undir XVIII. lið, sem jeg vil fara nokkrum orðum um, enda sú eina brtt., sem jeg á. Það hefir legið fyrir báðum deildum erindi frá Kvenrjettindafjelagi Íslands um 500 kr. árlegan styrk. Fjvn. hefir ekki treyst sjer til þess að sinna þessari styrkbeiðni, þótt hún sje fyllilega sambærileg við styrk, sem veittur hefir verið í fjárlögum undanfarin ár til ýmissa fjelaga, sem líkt hefir verið ástatt fyrir.

Fjelag þetta var stofnað 26. janúar 1907, og hefir það starfað öll þessi ár, sem síðan eru liðin, bæði út á við og inn á við. Það heitir Kvenrjettindafjelag Íslands. Út af nafninu hefi jeg ýmsa heyrt segja, að slíks fjelags væri ekki lengur þörf, þar eð konur hefðu nú öðlast jafnrjetti. Þessu vil jeg svara þannig, að ef það hefir átt erindi til þjóðarinnar áður, þá á það ekki síður erindi til hennar nú, því að það er engu minni vandi að gæta fengins fjár en afla þess. Fengnum rjettindum fylgir skylda, og skyldurnar verða svo best leystar af hendi, að einstaklingarnir þekki þær. Fjelagið hefir frá fyrstu byrjun reynt að hafa áhrif á konur víðsvegar á landinu, svo að þær fengju aukna þekkingu á jafnrjetti kvenna. Það hefir reynt, af litlum efnum, en miklum áhuga, að búa konurnar undir það að verða góðir og nýtir þjóðfjelagsborgarar. Enginn getur gengið til verks án þekkingar, og þessari þekkingu hefir fjelagið reynt að miðla eftir bestu getu. Þá hefir fjelagið á seinni árum, eftir að það hefir ekki þurft að berjast lengur fyrir jafnrjetti kvenna, haldið ýms námsskeið. Má þar til nefna matreiðslunámsskeið, svo og fyrirlestra almenns og fræðandi efnis, sem það hefir látið halda. Ennfremur hefir það gengist fyrir fundahöldum, þegar kjósa hefir átt til þings og bæjarstjórnar, boðað til fyrsta kvennafundarins hjer 1924 og beitt sjer fyrir fundinum á Akureyri síðastliðið sumar. Báðir þessir fundir höfðu mikil og vekjandi áhrif á fundarkonur og sýndu þeim, hve mikils styrkur þeirra má sín, ef þær taka höndum saman. Það væri heldur ekki sæmandi konum, ef þær ljetu sjer lynda að ganga að kjörborðinu; nei, það á að vera metnaður hverrar konu að verða sem bestur borgari.

Hjer er farið fram á lítinn styrk til þess að útbreiða þessa starfsemi fjelagsins, og finst mjer sá styrkur sjálfsagður. Það eru mjer því mikil vonbrigði að heyra, að hann sje óþarfur, því að það er langt frá, að svo sje. Jeg vænti þess, þótt svo stutt sje yfir sögu farið, að hv. þingdeildarmenn ljái styrkbeiðni þessari lið sitt og samþykki þennan 500 kr. styrk.

Mjer láðist að geta eins í sambandi við nauðsyn þessa styrks. Nú eru miklar hömlur lagðar á hlutaveltur, og þær munu alls ekki leyfðar. Aðrar skemtanir eru ekki arðvænlegar til þess að afla fjár, enda þarf að borga af þeim skemtanaskatt. Fjelögum er því gert ómögulegt að afla sjer annara tekna en ársgjalda fjelaga, sem er mjög lágt; mun vera tvær krónur í þessu fjelagi. Jeg vona því, að styrkbeiðni þessi fái þann byr, sem sæmandi er Alþingi Íslendinga árið 1927, þegar konur hafa haft kosningarrjett í 12 ár og eru búnar að sýna lit á því, að þær eru þess albúnar að taka á sig þær skyldur, sem rjettindunum fylgja.

Jeg varð of sein með aðra brtt. og spyr því hæstv. forseta, hvort hún verði tekin gild, ef hún er borin fram skriflega. Mun jeg þá mæla með henni.

Kristín Jónasdóttir ljósmóðir í Seltjarnarneshreppi hefir sent stutt erindi, þar sem hún skýrir frá ástæðum sínum. Hún hefir gegnt ljósmóðurstörfum síðan 1903, þar til fyrir þrem árum, að hún misti heilsuna. Í Landakotsspítala hefir hún legið sárþjáð í tvö ár, en síðastliðið ár fór hún utan með tilstyrk nokkurra vina sinna til þess að leita sjer heilsubótar, og kom aftur án þess að hafa fengið nokkurn verulegan bata. Erindi hennar er stutt, og skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa það upp. Það hljóðar svo:

„Jeg undirrituð leyfi mjer hjer með að sækja um styrk til hins háa Alþingis alt að kr. 1500,00 árlega. Jeg hefi haft á hendi ljósmóðurstarfann í Seltjarnarneshreppi síðan 1903 og þangað til nú, en fyrir ca. 3 árum hefir heilsa mín bilað svo, að jeg get varla gegnt starfi þessu lengur. 11 fyrstu árin voru laun mín kr. 50,00 á ári, hækkuðu þau þá um kr. 10,00 á ári og hjeldust þannig þar til 1920, að þau hækkuðu ofurlítið meira. Lýsir heilsuleysi mitt sjer nú tilfinnanlegast í því, að jeg hefi næstum að öllu leyti tapað sjóninni, og hefi jeg bæði hjer á landi og erlendis reynt að fá bót við vanheilsu minni, en alt árangurslaust. Veit jeg, að allir hljóta að skilja, að ástæður mínar eru hinar þungbærustu, þar sem laun mín hafa ekki verið slík undanfarin ár, að af þeim hafi verið hægt að leggja neitt til hliðar, er nú megi grípa til, er heilsan er þrotin. — Leyfi jeg mjer að láta hjer með fylgja umsögn stjettarsystra minna um ástæður mínar, en landlæknir og hjeraðslæknir í Reykjavík munu votta á umsókn þessari, að rjett er hermt frá kjörum mínum. — Reykjavík, 25. febrúar 1927. — Virðingarfylst. — Kristín Jónasdóttir.“

Vottorð hjeraðslæknis er svo hljóðandi:

„Jeg votta hjer með, að það, sem ljósmóðir Kristín Jónasdóttir segir frá sjúkdómi sínum, er rjett, og ennfremur, að hún stundaði starf sitt með alúð og samviskusemi. — Reykjavík, 25. febr. 1927. — Jón Hj. Sigurðsson.“ Landlæknir skrifar:

„Samdóma og samþykkur hjeraðslækninum. — Reykjavík, 25. febrúar 1927. — G. Björnson.“

Þetta erindi talar sjálft fáum ljósum orðum um ástandið.

Það er um konu, sem á engan að, en hefir búið við lítil laun, og á nú engan annan kost en segja sig til sveitar.

Þótt hún hafi gegnt ljósmóðurstörfum svo lengi í Seltjarnarneshreppi, mun hún ekki geta vænst mikils styrks þaðan. Að hún hefir getað staðist kostnað þriggja ára veikinda án sveitarstyrks er meira en jeg get skilið, en jeg býst við, að til þess hafi hún notið styrks frá vinum sínum. Starfssystur hennar skrifa líka með styrkbeiðni hennar, og skal jeg með leyfi hæstv. forseta lesa það upp:

„Við undirritaðar vonum, að hið háa Alþingi sjái sjer fært að verða við bón Kristínar Jónasdóttur ljósm., sem á við hin erfiðustu kjör að búa, bæði hvað heilsu og efnahag snertir. — Reykjavík, 25. febr. 1927. — Í stjórn Ljósmæðrafjelags Íslands. — Þuríður Bárðardóttir, f.m. Þórdís J. Carlquist, ritari. Sigríður Sigfúsdóttir, gjaldkeri.“

Ennfremur fylgja ummæli frá Kjartani Ólafssyni augnlækni, þar sem hann segir, að hún geti aldrei vænst þess að fá fulla sjón, en nú hafi hún tæplega hálfa sjón. Þótt mjer hafi ef til vill ekki tekist að bregða upp ljósri mynd af þeim, sem engan eiga að, engin efni og engan annan kost eiga en að fara á sveitina, þá vona jeg, að hjer sjeu svo margir góðir og sanngjarnir menn, að þeir samþykki þessa brtt. mína, sem verður við 12. gr. 13, og að þessi styrkur verði tekinn upp. Það væri ekki til of mikils mælst, þótt þessi litli styrkur væri veittur og að litlu leyti ljett á sjúkrabyrði þessarar konu og þeim áhyggjum, er á henni hafa hvílt um langt skeið.