06.05.1927
Efri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg á eina brtt. á þskj. 516. Hún er ekki til hækkunar, heldur að fjárveiting, sem samþ. var við 2. umr. um eftirlaun Eggerts Stefánssonar, í 18. gr., falli burtu. Það er að vísu kominn upp dálítill ágreiningur í þinginu um, hvort heimilt sje að bera fram við síðari umræðu máls brtt. um að fella niður það, sem komið er inn við fyrri umr. málsins. Um þetta liggja fyrir tveir forsetaúrskurðir, en hvor á sinn veg. í þingsköpum er ekkert á móti því að fella niður lið, er samþyktur hefir verið. Þó hefi jeg jafnframt borið fram varatill., sem jeg tek aftur, nema því aðeins, að forseti úrskurði, að hinni till. verði vísað frá.

Varatill. er á þá leið, að þetta skoðist ekki sem eftirlaun, heldur styrkur veittur í eitt skifti fyrir öll. Háttv. 4. landsk. var þessari fjárveitingu meðmæltur, og gerði jeg það af hlífð við hann og hlutaðeigandi mann að gefa ekki skýrslu um embættisfærslu þessa manns.

Jeg vil leyfa mjer að taka það fram, að þessi Eggert Stefánsson á ekkert skylt við söngvara með þessu nafni. Þessi Eggert er símritari. Jeg skal nú birta hjer skýrslu, er sýnir, að það er ekki vansalaust að láta hann komast inn í 18. gr. fjárlaganna með einhver þau hæstu eftirlaun í þeirri grein.

Eggert lærði símritun á landssímastöðinni á Akureyri veturinn 1906–1907, en gekk aldrei undir próf. Var settur símritari á Akureyri 20. maí 1907 og skipaður símritari við sömu stöð 1. janúar 1908. — Sumarið 1909 var hann um stundarsakir settur símritari í Reykjavík. Samsumars vikið frá starfi sínu sökum óreglu og vanrækslu; var meðal annars riðinn við sendingu tveggja falsskeyta til blaðanna „Austra“ á Seyðisfirði og „Norðurlands“ á Akureyri. 1911 var Eggert tekinn aftur til reynslu um þriggja mánaða tíma við stöðina á Siglufirði, en að reynslutímanum loknum þótti ekki fært að veita honum aftur starf við landssímann. — 1. maí 1912 enn tekinn til reynslu við landssímastöðina á Seyðisfirði. Í lok júlímánaðar vikið frá sökum drykkjuskapar í vikutíma, án launa, en bætti lítt ráð sitt, og eftir að hafa falsað nafn stöðvarstjórans undir símskeyti, var honum enn einu sinni vikið burtu úr stöðunni 1. október s. á.

Í júlí 1915 tekinn til reynslu í fjórða sinn, þá við landssímastöðina í Reykjavík, og um haustið skipaður símritari aftur á Akureyri.

Í þetta sinn, og raunar í öll hin skiftin líka, mun það hafa verið sett sem skilyrði frá landssímans hálfu, að hann bragðaði ekki áfengi, því maðurinn hefir altaf verið drykkfeldur og kann sjer ekki hóf. En hann mun samt altaf hafa drukkið meira og minna, þó að ekki hafi beinlínis verið yfir því kært til landssímastjóra. Þess ber þó að geta, að hann mun hafa verið í bindindi einu sinni í 6–7 mánuði samfleytt.

1922 átti að reyna að hjálpa Eggerti við, með því að veita honum stöðvarstjórastöðuna á Borðeyri, en eins og kunnugt er, mótmæltu flestir starfsmenn landssímans mjög eindregið þeirri ráðstöfun, að manni með hans fortíð að baki sjer yrði veitt eitt af bestu embættum landssímans og tekinn fram yfir hæfa og duglega starfsmenn. Veitingin var svo afturkölluð og Eggert var kyr á Akureyri.

Haustið 1923 var Eggert Stefánsson um stundarsakir settur stöðvarstjóri á Akureyri, en þá keyrði vanrækslan og óreglan svo úr hófi fram, að þáverandi landssímastjóri sá sjer ekki annað fært en að leggja til, að honum yrði vikið burtu úr þjónustu landssímans fyrir fult og alt, og það var gert í aprílmánuði 1924.

Við þetta þarf jeg ekki miklu að bæta. En mjer finst, að hv. 4. landsk. (MK) hafi látið sitt góða hjarta fara með sig of langt, með því að flytja mál þessa manns. Það er alls ekki viðunanlegt að láta þá, sem starfað hafa lengi og af alúð í þjónustu landssímans og lifa við mjög lítil eftirlaun, sjá, að embættisræksla eins og þessi, sem hjer hefir verið lýst, sje verðlaunuð með miklu hærri eftirlaunum en menn verða að sætta sig við eftir langa og trúa þjónustu. Og þó að jeg álíti ekki rjett að áreita starfsmenn hins opinbera með sjerstakri löggjöf gegn persónulegum breiskleika, svo sem áfengishneigð, þá má þó ekki loka augunum fyrir ítrekuðum brotum á þessu sviði og veita viðurkenningu fyrir. Jeg er sem sagt þeirrar skoðunar, að þessi liður eigi alls ekki að standa í fjárlögum, og að hið opinbera eigi ekki og megi ekki veita slíka viðurkenningu með eftirlaunum, þegar slíkir málavextir eru. Jeg ber þessa till. fram vegna þess, að eftir þeirri afgreiðslu, sem fjárlagafrv. hefir fengið hjer í þessari hv. deild, get jeg búist við, að hv. Nd. samþykki það óbreytt eins og það kemur hjeðan, ef það verður ekki skemt við þessa umr. Og því þótti mjer óhjákvæmilegt að bera mína brtt. og rökstuðninguna fyrir henni fram hjer í þessari háttv. deild.