06.05.1927
Efri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

21. mál, fjárlög 1928

Magnús Kristjánsson:

Það var út af brtt. hæstv. forsrh. á þskj. 516, að mig langaði til að segja nokkur orð.

Það virðist svo, sem hæstv. ráðherra tefli á tæpasta vaðið, þegar hann ber fram brtt., sem mikill vafi er á, að megi koma fram samkvæmt þingsköpum. Jeg geri ráð fyrir, að honum þyki mikils um vert sparnaðinn, þar sem hann sækir það svo fast að reyna að murka lífið úr jafnlítilfjörlegri sárabót til þessa manns, sem þessi styrkur er. Jeg lýsti við 2. umr. ástæðunum fyrir því, að þetta ástand hefir skapast með þennan mann, og þó að hæstv. ráðherra hafi nú lesið hjer upp langa skýrslu um vanrækslu hans, þá er alveg það sama um þetta að segja, að maðurinn hefir hreint og beint verið ofsóttur.

Það er hægt að semja skýrslur fyrir þá, sem vald hafa til þess, en jeg vil segja það, að þessi skýrsla er ekki annað en framhald þeirrar ofsóknar, sem maðurinn hefir orðið fyrir, einmitt vegna þess, að hann hefir hvað eftir annað reynt að bjarga landinu frá vandræðum, sem stafa af uppþotum við símann. Einu sinni eða jafnvel oftar hefir staðið til að gera allsherjarverkfall við landssímann, en mikið fyrir hans tilstilli tókst að afstýra því. Það virðist því mörgum undarlegt, að launin skuli vera fyrst og fremst þau, að honum er kastað út á gaddinn með fjölskyldu sína, og auk þess bornar á hann sakir, sem í sjálfu sjer eru vítaverðar, en jeg hygg hinsvegar, að því hafi verið slept að færa fram málsbætur, sem komið geta til greina. Það er þetta sorglega ástand með þessa stóru ríkisstofnun, að yfirmennirnir hafa ekki haft vald á sínum starfsmönnum og látið kúgast, ef einhverjir uppivöðsluseggir hafa haft hótanir í frammi.

Jeg verð að segja það, að þetta er sorglegt ástand, og enn sorglegra verður það, þegar landsstjórnin fetar í fótspor símastjórans —, það var ekki sú stjórn, sem nú situr, — og gugnar, en starfsmennirnir taka ráðin í sínar hendur. — Svo eru starfsmennirnir teknir trúanlegir, og aðalvitnin gegn þessum manni eru þessir óróaseggir.

Vegna þess, að því hefir verið haldið fram, að þessi maður væri lítt fær í starfi sínu, ætla jeg, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hjer upp vottorð frá samstarfsmönnum hans. Þau eru ekki frá starfsmönnum í Reykjavík, heldur annarsstaðar frá, og þarf ekki að tortryggja þau. Það hefir verið látið í veðri vaka, að Eggert væri lítt starfhæfur. Hjer er yfirlýsing frá tveimur merkum starfsmönnum við landssímann:

„Að gefnu tilefni lýsum vjer undirritaðir því hjer með yfir, að herra Eggert Stefánsson hafi verið einn af færustu símriturum landssímans, þann tíma, sem hann starfaði þar. — Reykjavík, 9. apríl 1927. — Friðbjörn Aðalsteinsson, loftskeytastöðvarstjóri. Magnús Thorberg.“

Svo er hjer annað vottorð, sem ekki kveður eins sterkt að orði, frá símastjóranum á Ísafirði:

„Samkvæmt beiðni vottast, að Eggert Stefánsson var í sinni símritaratíð samviskusamur með línuprófanir og góður morsemaður. — Björn Magnússon, símastjóri.“

Jeg álít þessi vottorð nægileg til þess að hrinda þeirri ásökun, að maðurinn hafi ekki verið fær til starfsins. En eftir að jeg hefi heyrt hið langa syndaregistur þulið af hæstv. ráðh., get jeg ekki að því gert, að mjer finst það nokkuð undarlegt, að þrátt fyrir allar yfirsjónir mannsins hefir landssímastjóri sjeð sjer fært að veita honum stöðu við landssímann, sem nú er álitin einhver besta staðan þar. Virðist það benda á, að hann hafi ekki álitið Eggert óalandi og óferjandi, eins og hæstv. ráðherra virðist álíta hann. Það sýnir, að maðurinn hefir verið álitinn starfinu vaxinn og haft fullan rjett til að halda stöðunni, þegar hann var búinn að fá veitingu fyrir henni, þótt hann fyrir þrábeiðni ljeti svifta sig starfinu, eftir að hafa fengið loforð um, að hann yrði ekki fyrir halla, en er svo svikinn um alt saman. Síðan kemur hæstv. forsrh. með syndaregistur hans og mótmælir þeirri óhæfu, að manni þessum sje bætt að litlu leyti það tjón, sem honum hefir verið bakað.

Jeg vil skjóta því hjer inn í, að jeg hygg, að hæstv. ráðh. hafi áður verið svo mannlega sinnaður, að hann hafi í viðtali við þennan mann eða einhvern honum nákominn lýst því, að hann mundi ekki verða meinsmaður þess, að hann fengi einhverjar bætur, ef það kæmi fyrir þingið. En nú finst mjer þetta horfa nokkuð öðruvísi við.

Eins og jeg gat um í byrjun, ætla jeg að varast að endurtaka það, sem jeg hefi áður sagt, en jeg sje nú, að hæstv. ráðherra hefir gert sig líklegan til að andmæla því, sem jeg nú hefi haldið fram, og vænti jeg þá, að mjer gefist tækifæri til að taka aftur til máls, ef þörf krefur.

Hæstv. ráðherra sagði, að jeg hefði látið mitt góða hjarta hlaupa með mig í gönur. En svo var ekki. Jeg flutti till. þessa vegna þess, að jeg er málinu kunnugur, og jeg taldi það mjög ranglátt, ef maðurinn fengi ekki einhverja uppbót, og auðvitað helst á þann hátt, að hann fengi eitthvað að starfa við símann með sæmilegum launakjörum. Þetta er aðeins þrautaúrræði að fara fram á þennan styrk, og jeg álít enn sem fyr, að hann væri hans vel verðugur.