06.05.1927
Efri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. (Einar Jónsson):

* Hv. flm. till. hafa nú talað svo skýrt fyrir þeim, að jeg sje enga ástæðu til þess að fara að minnast á þær hverja út af fyrir sig, enda er það svo, að sá, sem málið flytur, er því kunnugastur. Jeg ætla því ekki að fara neitt út í þessar till., hvorki af minni hálfu nje nefndarinnar. Það er nú svo, að það er í raun og veru óþarft að vera að gera grein fyrir atkv. sínu. Það er nóg að atkvgr. skeri úr.

Það eru hjer 2 till. frá nefndinni, sem jeg mintist ekki á áðan. Eru það hvorttveggja lánsheimildir og eiga við 22. gr. Önnur till. er um lán til Steinamanna. Það vildi svo til í vetur, að vatnsflóð og skriða hljóp á bæina og lagði tvö býli algerlega í auðn og eyðilagði um leið alt, sem þar var innanhúss. Skaðinn er metinn um 7800 kr. Mönnum þessum hefir verið hjálpað nokkuð með samskotum, og þó að skaðinn sje þeim ekki að öllu bættur, þá kom sú hjálp þó í góðar þarfir. Jeg hygg, að það hafi ekki verið hvað síst Reykvíkingar, sem áttu þakkir skilið fyrir að bregðast skjótt við, eins og svo oft áður hefir fram komið. Jeg hefi heyrt, að samskotin úr Reykjavík einni hafi verið um 3000 kr. Einnig var reynt að hlynna að þeim af samsýslungum þeirra. En þess ber nú að gæta, að það eru ekki þeir, sem sækja til þingsins um þennan styrk, heldur eigendur jarðanna, því að landsspjöll urðu þarna tilfinnanleg og heyin eyddust. Skaðinn á löndum jarðanna hefir verið metinn, og kom þá í ljós, að 200 hesta tún var alveg komið í auðn, og að engjastykki, sem gefið hefir af sjer um 250 hesta, liggur nú undir skriðu og er einnig gereyðilagt. Þá fyltust og matjurtagarðar 5 bænda af aur og grjóti, og verður að búa til nýja. Landeigendur sækja nú um þennan styrk meðfram af því, að þeir búast við, að hægt verði með nokkrum kostnaði að koma í veg fyrir, að skriður falli á tún og engjar, og hafa þeir fengið loforð um athugun frá Búnaðarfjelagi Íslands af verkfróðum manni. Nefndin taldi sjer þó ekki fært að veita styrk, vegna þess mikla bunka af styrkbeiðnum, sem legið hefir fyrir, en vildi heldur veita 3000 kr. lán í von um, að háttv. deild sýndi þá sanngirni að samþ. það.

Hin brtt., XXV, er um stærri lánsheimild. Jeg er ekki eins kunnugur þar, en jeg hygg þó, að það sje álíka mikil sanngirni, sem mælir með því, að veitt sje 120 þús. kr. lán til hafnarbóta á Siglufirði. Nefndin veit, að þessa er mikil nauðsyn, og leggur því til, að hv. deild sæi sjer fært að verða við þessu.

Við brtt. IV á þskj. 513 hefir nefndin lagt til, að komi ofurlítil viðaukatill. Þar var ákveðið, að 10 þús. kr. færu til símalagningar í Húnavatnssýslu.

Er farið fram á, að bætt verði við orðunum „alt að“, því að það hefir verið upplýst af landssímastjóra, að kostnaðurinn við þessa fyrirhuguðu símalínu kæmi ekki til að nema allri upphæðinni. Nefndinni þótti því rjett að slá þennan varnagla.

Brtt. V er aðeins orðabreyting. Nefndin fjekk fyrir skemstu að vita, að þessi „Hellisboði“ heitir rjettu lagi Helluboði, og þótti henni því rjett að lagfæra það. Þessi boði er út af Siglufirði, á hinni svokölluðu Siglufjarðareyri, og dregur nafn sitt af hellu.

Eins og jeg gat um áðan, álít jeg ekki þörf að fara að minnast á hinar einstöku brtt., sjerstaklega þar sem flm. þeirra hafa gert grein fyrir þeim. Nefndin er á móti ýmsum þeirra, á mörgum stöðum er hún skift, en á öðrum hefir hún óbundin atkv. En það kemur í ljós við atkvgr., hvernig því er háttað. (Forseti HSteins: Jeg vil vekja athygli hv. frsm. á því, að æskilegt væri, að hann skýrði frá afstöðu nefndarinnar til hinna einstöku brtt., hverrar fyrir sig). Ef þess er óskað, er velkomið að jeg geri það, en annars ætlaði jeg að reyna að stuðla að því, að þessu máli yrði lokið sem fyrst.

Jeg ætla þá að byrja á till. og tek þær eftir röð. Brtt. I er nefndin á einu máli um að vera á móti. Um II. brtt. hefir hún óbundin atkv. Um III. brtt. er nefndin skift, og voru þó fleiri, sem gáfu í skyn, að þeir væru á móti till. Jeg hefi áður minst á IV. og V. brtt., en þær eru báðar frá nefndinni. Nefndin er öll á móti VI. brtt. VII. brtt. er um aths. við stúdentagarðinn, og styður nefndin hana, VIII. brtt. er frá hv. þm. Vestm. (JJós) og er um styrk til Bjarna Sigurðssonar stúdents. Um hana hefir nefndin óbundin atkv. Háttv. þm. Vestm. tók þessa till. aftur við 2. umr., en ekki kunni jeg við umsögn hans um það, af hverju nefndin hefði ekki tekið hana upp. Hann fullyrti, að í þessu væri órjettlæti. Er það nokkuð sterkt að orði komist, því að það væri ef til vill hægt að finna marga, sem ættu eins mikinn rjett á að vera styrktir og þessi maður eða aðrir, sem þess hafa orðið aðnjótandi. Um b-lið þessarar till. hefir nefndin einnig óbundin atkv., líka um IX. till.

Nefndin er samþykk því, að X. brtt. nái fram að ganga, en það er nýr liður um styrk til þess að kaupa listaverk. Sama má segja um XI. brtt., sem er um að þetta skuli gert eftir till. þjóðminjavarðar. Annars fanst nefndinni rjettast að fela stjórninni þetta, en hún getur þá auðvitað farið eftir till. þjóðminjavarðar, en þarf samt ekki að vera bundin af þeim.

Um XII. brtt. hefir nefndin óbundin atkv. Um XIII. brtt., sem er í sambandi við þá XXIV., er það að segja, að ef fyrri liðurinn verður feldur, þá mun nefndin fylgja varatill. Annars er hún á móti XIII,a, en skift um hina. XIV. brtt. mun nefndin fylgja með þeirri viðbót, að þetta sje í viðurkenningarskyni í eitt skifti fyrir öll. Þetta kann nú að þykja ónóg, og þá er að koma með skriflega brtt., ef hæstv. forseti tekur hana gilda. (Forseti HSteins: Það eru komnar fram tvær aðrar, svo að jeg mun að sjálfsögðu gera það).

Um styrkinn til Einars Markans er nefndin óbundin. Annars þekki jeg ekkert þennan mann, en skal bæta því við í sambandi við till. hv. þm. Vestm. (JJós), að hjer má altaf bæta við, ef fullkomið samræmi á að vera í þessum styrkveitingum.

Nefndin er á móti XVII. brtt., sem er um það að hækka styrkinn til Sigurðar Skúlasonar. Um XVIII. brtt. frá hv. 2. landsk. (IHB), um styrk til Kvenrjettindafjelags Íslands, er nefndin óbundin, en fleiri eru þeir þó, sem fylgja till. XIX. og XX. brtt. hefi jeg minst á áður, en þær eru báðar frá nefndinni.

Nefndin er mótfallin XXI. brtt., sem er hækkun á eftirlaunum Hans Hannessonar pósts. Þau eru nú 300 kr., og er það í samræmi við það, sem aðrir póstar fá. Þá er nefndin líka mótfallin aths. við styrkinn til Einars Benediktssonar. Finst henni ekki rjett að fara. að hrófla neitt við því, sem samþ. hefir verið, og þóttist ganga hjer nógu langt, þó að hún mælti ekki með því, að farið væri að greiða sömu upphæð á yfirstandandi ári.

XXIII.–XXV. till. hefi jeg talað um áður. En XXVI. brtt. er um uppgjöf vaxta og greiðslufrest afborgana af dýrtíðarláni Innri-Akraneshrepps 1927 –1928. Nefndinni var gefin skýrsla um það, að þetta væri mjög sanngjörn krafa móts við það, sem sum önnur hreppsfjelög hafa fengið. Vonar nefndin því, að þessi till. verði samþ. (JBald: Hvað verður þetta mikið í peningum? Forsrh. JÞ: Lánið alt er 3000 kr.).

Vil jeg svo þakka hv. þdm., hve skýrt þeir hafa talað fyrir brtt., en með því hafa þeir tekið af mjer mikið ómak. Einnig er jeg þakklátur fyrir það, með hve mikilli spekt þetta mál hefir nú verið rætt. Jeg kunni þó ekki við orð hv. 5. landsk. (JBald). Hann vildi bera á meiri hl. deildarinnar, sem er Íhaldsflokkurinn, og nefndina hlutdrægni við niðurfærslur upphæðanna í fjárlagafrv. En þetta er ekki rjettmæt aðdróttun, því að nefndin fór alveg hlutfallslega rjett og óeigingjarnt að þessu, án tillits til flokka, enda var samkomulagið hið besta. Og að meiri hl. hafi ekki viljað sinna styrkbeiðnum frá andstæðingunum er langt frá því að vera rjett, því að hlutföllin voru svo vönduð, sem þess var kostur.

Brtt. á þskj. 516 komu svo skyndi lega, að jeg get ekkert um þær sagt, að minsta kosti ekki frá nefndinni. Hún mun sýna með atkv. sínu, hvernig hún tekur í þær. — Jeg sje svo ekki ástæðu til að tefja meira umr. og læt þetta nægja.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.