06.05.1927
Efri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

21. mál, fjárlög 1928

Jóhann Jósefsson:

Af því að hv. frsm. (EJ) virtist misskilja það, sem jeg sagði um Bjarna Sigurðsson stúdent, þá verð jeg að segja nokkur orð til þess að leiðrjetta það. Jeg var ekki að átelja nefndina fyrir að hafa sýnt ósanngirni, en jeg benti á, að þessi maður hefði orðið útundan við úthlutun stúdentastyrksins. En í því felst engin ásökun til fjvn. Ed., eins og mjer fanst háttv. frsm. taka það. Það var, eins og jeg sagði áðan, gengið fram hjá þessum manni og hann misrjetti beittur, þar eð manni af öðrum árgangi og þar að auki með lægri einkunn var veittur styrkurinn. Jeg vona, að háttv. þm. taki þessa leiðrjettingu mína til greina, því að það var fjarri mjer að vera að ásaka nefndina. Mjer fanst nauðsynlegt að gefa þessar upplýsingar til þess að fyrirbyggja misskilning, enda vildi jeg síst, að þessi fátæki en efnilegi maður liði neitt við það.