10.05.1927
Neðri deild: 71. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Sigurðsson:

Jeg ætla að snúa mjer fyrst að þeim ummælum eða ásökunum, sem beint var í garð Hólaskóla. Það er eins og þessi skóli sje orðinn alveg sjerstakur ásteytingarsteinn vissra manna. Í fyrra bar hv. 1. landsk. (JJ) hann sjerstaklega saman við aðra skóla og sagði, að hann væri dýrari en flestir eða allir aðrir skólar. Nú lýsir hv. þm. Str. (TrÞ) því, hve aumlegt sje ástandið á Hólum, samanborið við Hvanneyri. Jeg ætla nú að leyfa mjer að gera lítið eitt rjettlátari samanburð en þann, sem hv. þm. Str. hafði fram að færa.

Hvernig er þá aðstaðan á Hvanneyri? Jörðin er einhver mesta uppgripa slægnajörð á landinu, og auk þess allmikil hlunnindajörð, og svo nálægt Reykjavík, að hún getur notið hins besta markaðs, sem til er á landinu, en þó nógu langt frá Reykjavík til að vera laus við ýmsa annmarka, sem af því leiða að liggja í grend við höfuðstaðinn. Árið 1907 er núverandi skólastjóra bygð jörðin sjálf með stóru búi fyrir hjer um bil 1000 kr. eftirgjald. Þetta eru kostakjör, enda er búskapur á Hvanneyri talinn einhver mesti uppgripabúskapur til fjáröflunar hjer á landi.

Um Hóla er það að segja, sem allir, er þekkja Hóla, vita, að jörðin er stór, sjerstaklega landmikil og erfið. Hún er hentug sauðajörð, það er að segja svipuð því, sem algengast er um jarðir hjer á landi, t. d. til dala, hefir stórt tún og ósljett, svo að ekki verður nema nokkur hluti þess sleginn með sláttuvjel, og engjarnar víðlendar, en mestpart þýfðar, og henni fylgja engin hlunnindi; um hagfeldan markað fyrir búsafurðir er heldur ekki að ræða í nágrenninu, sem hægt sje að notfæra sjer að ráði. Hún er sem sagt mannfrek og dýr í rekstri og auk þess var jörðin og búið bygt á þeim tíma, þegar alt var dýrast, í lok stríðsáranna. Þrátt fyrir þennan aðstöðumun hefir leigumálinn á Hólum með búi verið hjer um bil þrisvar sinnum hærri en á Hvanneyri. Þarf nú nokkurn að undra, þó að minna lægi eftir skólastjórann á Hólum en á Hvanneyri, og þó að ekki væri hægt að sýna beinlínis í verki, að þar sjeu eins miklar eða meiri framkvæmdir? Og þó hygg jeg, að núverandi skólastjóri á Hólum hafi árlega látið vinna engu færri jarðabótadagsverk en skólastjórinn á Hvanneyri. En Hólar hafa kannske ekki tekið eins vel við umbótunum. í samanburði hv. þm. Str. á því, hvað gert hefir verið á þessum 2 skólasetrum, kendi, eins og þegar hefir verið sýnt, svo mikillar ósanngirni eða fáfræði, að það er nærri fágætt.

Þá er eitt atriði, sem sjerstaklega lýtur að aðsókninni að skólunum. Allir vita, að búskapur á Hvanneyri hefir borið sig ágætlega, enda verið gert þar mikið af því, sem hægt er að gera með þægilegu móti til umbóta, enda jörðin legið óvenju vel við þeim umbótum. Afleiðingin er sú, að menn álíta, að þarna sje mjög mikið að læra, og skal jeg ekki neita því, enda þótt staðhættir sjeu þar nokkuð sjerstæðir, en þetta hefir skapað skólanum álit og aukna aðsókn.

Aftur á móti var alt gert, sem hægt var, til að draga skólann á Hólum niður. 1922 fór skólastjórinn fram á lítilsháttar tilhliðrun, þannig, að hann fengi styrk, sem Pjetur Jónsson hafði lofað honum. Þessu var neitað af eftirmanni hans (KIJ). Skólastjórinn hafði ráðist í að kaupa mikinn búsauka á dýrasta tíma og bygt á gefnum loforðum þáv. atvrh., og þegar hann sá, að stjórnin vildi ekkert gera til að styðja skólann, þrátt fyrir það, að hann galt nær þrefalda leigu á móts við skólastjóra Hvanneyrar, sagði hann í gremju sinni búinu lausu og ljet stjórnina um að útvega nýjan bústjóra. En þegar svo er komið, að maður kemur í bústjórastöðuna, sem engar skyldur hefir gagnvart skólanum, heldur hugsar aðeins um það eitt að reyna að hafa sem mest upp úr jörðinni, þarf enginn að vænta þess, að skólapiltar læri þar nokkrar nýjungar, er geti verið þeim til fyrirmyndar. Það má gott heita, ef það verður ekki það gagnstæða. Það er svo, þrátt fyrir alla bóklega kenslu í búskap, að almenningur leggur miklu meira upp úr því að sjá megi myndarlegan búskap, sem menn geti lært af, en fyrv. stjórn sá rækilega fyrir því, að svo yrði ekki á Hólum. Fyrir þessa handvömm, sem varð um eitt skeið, hefir aðsóknin að skólanum stórhrakað, en ekki vegna hins, að þar sje lakari kenslukröftum á að skipa en t. d. á Hvanneyri.

Jeg taldi skyldu mína sem kunnugs manns að gefa þessa skýringu. Jeg vil svo gera nokkra grein fyrir afstöðu minni hluta fjvn. til fjárlagafrv. og þess, hvernig á því stendur, að við erum í minni hluta. Það kom fram í ræðu hv. fyrra frsm. (ÞórJ), að honum þótti undarlegt, að við skyldum kljúfa nefndina. Líka gat hann þess, að það væri ekki venja, að fjvn. klofnaði, þó að nefndarmenn deildi eitthvað á, og það er alveg rjett. En þegar svo er komið, að við viljum í engu breyta frv., en fjórir nefndarmenn vilja gera stórar breytingar, þá getur ekki lengur verið um samvinnu að ræða. Aðstaða okkar í minni hlutanum er sem sje sú, að við viljum samþ. fjárlagafrv. óbreytt, eins og það kom frá hv. Ed. Eins og menn sjá, hefir það tekið allmiklum stakkaskiftum. Hjeðan fór það með ca. 330 þúsund króna tekjuhalla, en nú er það komið frá Ed. hjer um bil tekjuhallalaust. Þessi mikla breyting hefir þó ekki, eins og stundum á sjer stað, orðið með því að hækka tekjuliði fjárlagafrv., heldur að mestu leyti með því að færa niður útgjaldaliðina. Að sjálfsögðu verður það aldrei sársaukalaust, og jeg tel víst, að flestir þdm. eigi þar um sárt að binda. Yfirleitt hefir þó fjvn. Ed. sýnt svo mikla sanngirni í tillögum sínum gagnvart bæði fjvn. Nd. og Nd. í heild sinni, að við megum vel við una. Ýmsir útgjaldaliðir hafa lækkað, en örfáir eru feldir alveg niður og síst þeir, sem nokkurt kapp hefir verið um. Þó að minni hl. fjvn. sje ósamþykkur ýmsum tillögum hv. Ed. og játi, að sumt hefði þar getað betur farið, er frv. þó í höfuðatriðunum svo úr garði gert, að hann álítur, að ekki sje ráðlegt að fara að hrekja það á milli deilda og setja það í Sþ. Það, sem ræður afstöðu minni hlutans, er hvorki hlífð eða tillátssemi við hv. Ed., heldur hitt, að við teljum það heppilegustu leiðina til að skila frv. tekjuhallalausu að samþ. það nú óbreytt.

Á þinginu 1925 kom fjárlagafrv. frá hv. Ed. með um 730 þús. króna tekjuhalla. Það kom þá til orða í nefndinni að ganga að frv. óbreyttu eins og það kom, en það varð þó ekki, og frv. fór til einnar umr. í Nd. Afleiðingin varð sú, að tekjuhallinn hækkaði um 100 þús. krónur. Á síðasta þingi kom fjárlagafrv. frá Ed. með 275 þús. kr. tekjuhalla til Nd., og þó að fjvn. væri þá, eins og nú, alls ekki ánægð með ýmsa liði, sem komist höfðu inn í frv., þá var hún sjer þess þó meðvitandi, og það nokkuð af þeirri reynslu, er fjvn. fjekk á næsta þingi á undan, að hún myndi alls ekki hafa vald á fjárlagafrv., ef það yrði opnað hjer í Nd. Þá myndu koma inn margar tillögur, sem henni væru ennþá ógeðfeldari, en sem hún þó ekki gæti spornað við að yrðu samþyktar. Þess vegna lagði fjvn. til, að gengið væri að fjárlagafrv. eins og það kom frá hv. Ed., og fjekk hún því framgengt. Og jeg tel, að það sje enginn vafi á því, að það hafi verið heppilegasta ráðið, og að fjárlögin hefðu orðið ennþá ver útleikin, ef þau hefðu farið til einnar umr. í Nd. og svo í Sþ.

Nú er svo komið, að fjárlagafrv. er komið til okkar, tekjuhallalaust að kalla má. Mjer sýnist þess vegna enn þá meiri ástæða nú heldur en í fyrra, að gengið sje að frv. eins og það er.

Nú hefir hv. meiri hl. fjvn. að vísu lagt til, að ýmsar fjárveitingar verði lækkaðar, svo sem til brúagerða um 20 þús. krónur, til nýrra símalagninga um 10 þús. krónur og til landsspítalans, að liðurinn, 150 þús. kr., falli niður, og svo nokkrar fleiri. Um þessa einstöku liði ætla jeg ekki að fara að ræða neitt sjerstaklega, það munu nógir aðrir gera þá að umtalsefni.

Það er nú svo, hvað brúagerðirnar snertir, að það munu flestir sammála um, að það sje eitthvert mesta nauðsynjaverkið, sem unnið er á landi hjer, að brúa þær ár, sem eru hættulegar yfirferðar, manndrápsár, sem árlega hefta ferðir fjölda manna. Stjórnin lagði til, að til þessa væri varið 225 þús. kr. næsta ár. Ed. hefir fært þessa upphæð niður í 190 þús. kr., og nú leggur meiri hl. fjvn. til að færa þessa fjárveitingu niður í 170 þús. kr. Með öðrum orðum, ef þessi lækkun nær fram að ganga, þá er búið að sneiða alt að því 14, hluta af því fje, sem stjórnin ætlaði til brúagerða; og hvað ætlast meiri hl. til að komi í staðinn? Nokkrir skólastyrkir o. fl. þess kyns. Jeg legg því áherslu á, að þessi lækkunartillaga sje feld. Um aðrar lækkunartillögur er sama að segja. Það eru nauðsynlegar framkvæmdir og sumar samningsbundnar. Um nokkrar þeirra mætti þó segja, að það væri reynandi að lækka fjárveitingu til þeirra eitthvað, ef von væri til þess, að það yrði samþykt, en það eru sem sje ekki nokkrar líkur til, að niðurfellingar á stærstu upphæðunum verði samþyktar í þessari háttv. deild, ef marka má atkvgr. við fyrri umr., og enn minni líkur til, að þær yrðu samþ. í hv. Ed., þótt þær kynnu að ganga í gegn hjer, svo að jeg hygg, að hjer sje ekki til nokkurs barist.

Á hinn bóginn eru komnar fram hækkunartillögur, bæði frá hv. meiri hl. fjvn. og ýmsum þm., er nema um 60 þús. krónum. Er sumt af þessu gamlir kunningjar, bitlingar o. fl.,sem komust hjer í gegnum Nd., en voru svo feldir í hv. Ed. Það liggur nokkurn veginn í augum uppi, að ef farið er að opna fjárlagafrv., þá getur fjvn. ekki staðið á móti þeim straum, sem þarna veltur fram, heldur en við fyrri umr.

Jeg vænti þess vegna, að hv. deild geti orðið okkur minni hl. sammála um það, að hyggilegast sje að hafa þá aðferð að ganga að fjárlagafrv. óbreyttu, og vil jeg um leið minna á gamla málsháttinn, sem segir „betri er einn fugl í hendi en tíu á þaki“. Jeg hygg, að það muni sannast hjer sjerstaklega, að betra sje að hverfa að ráði minni hl. fjvn., og vera heldur viss um, að fjárlögin verði afgreidd tekjuhallalaus, með því að samþykkja frv. óbreytt, heldur en að hlaupa eftir tyllivonum um að bæta afgreiðslu þeirra, sem jeg er sannfærður um að verða aldrei annað en tálvonir.