10.05.1927
Neðri deild: 71. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1572 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

21. mál, fjárlög 1928

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg þarf aðeins að segja fáein orð út af ræðu hv. 1. þm. Árn. (MT), sjerstaklega út af því, sem hann vjek að framlaginu til Hólaskóla og Hvanneyrarskóla. Hann vildi láta líta svo út, sem órjettmætur munur væri á fjárframlaginu til þessara skóla. Hann gleymir því, að á næsta ári eru veittar 7000 kr. til miðstöðvarhitunar á Hvanneyri, og gerir það meira en að vega á móti þeirri hækkun á styrknum til Hólaskóla, sem hjer er farið fram á. Ástæðan til þess að fje þetta er veitt til Hólaskóla er sú, að peningshúsin þar eru fallin, svo að óhjákvæmilegt er að reisa þau aftur. Þá var líka á síðasta þingi samþykt að auka búið á Hólum, og eru því húsin einnig of lítil. Það er þetta, sem verið er að gera við fje það, sem veitt er til óvissra gjalda Hólaskóla.

Tilmæli um fjárframlag til fjósbyggingar á Hvanneyri komu ekki fyr en stjórnin hafði samið fjárlagafrv. sitt, eins og hv. þm. Str. (TrÞ) er kunnugt um. Jeg held, að skólastjórinn þar vilji ekki láta taka þetta fram yfir miðstöðina, því að hann hefir skýrt mjer frá því, að eldhætta væri þar mikil, meðan ekki væri komin þar miðstöðvarhitun. Jeg verð því að halda því fast fram, að halda beri í þessar fjárveitingar til skólanna, sem gert er ráð fyrir í frv., og þó að annar sje í mínu kjördæmi, þá eru þeir mjer báðir jafnkærir.

Um Hvanneyrarfjósið er það að segja, að ástæðan til þess, að þar þarf að byggja, er meðfram hin mikla fjölgun nautpenings, sem þar hefir átt sjer stað síðan núverandi skólastjóri tók við.

Jeg ætla þá að víkja nokkrum orðum að till. meiri hl. fjvn. um að skera niður framlög til brúa, vega- og símalagninga. Jeg verð að segja, að það er þegar búið að skera svo mikið af fje því, sem til brúa á að fara, að ekki má með nokkru móti meira að því gera. Það er fátt, sem landsmönnum kemur ver en að fá ekki brúaðar ár, sem eru miklir farartálmar. Og þó að við leggjum fram fje það, sem gert er ráð fyrir í frv., þá er það þó ekki meira en svo, að minna má það ekki vera.

Um símana er svipað að segja. Það verður erfitt fyrir stjórnina 1928 að segja fyrir um það, hvaða síma eigi að skera niður af þeim, sem áætlað er að leggja samkvæmt stjfrv. Það mun varla verði mikil ánægja hjá þeim hjeruðum, sem fyrir þeim niðurskurði verða.

Það er nú búið að taka mest af því fje, sem ætlað var til vita. Þegar við athugum vitagjöldin, þá er fljótt hægt að sjá það, að það er ekki nærri alt það fje, sem fer til vitamálanna aftur. Tilgangurinn með þessum vitagjöldum var þó ekki sá, að þau yrðu tekjugrein fyrir ríkissjóð, heldur átti að verja þeim til byggingar og rekstrar vitanna.

Þá sagði hv. 1. þm. Árn., að ríkissjóði væri ekki skylt að leggja fram fje til landsspítalans, þó að fyrir liggi samningur um það, sem samþyktur hefir verið af Alþingi, lesinn upp í þinginu og er nú að finna í Alþt., auk þess sem vitnað er til hans í fjárlögunum fyrir 1926.

Þegar hv. þm. (MT) segir, að mest af því fje, sem til spítalans fari, lendi hjá útlendingum, þá er það ekki rjett, því að meiri hlutinn af því fje fer í verkalaun hjer. Húsið er nú komið undir það, og það, sem nú þarf að gera, eru slík verk, sem taka langan tíma og eru því vinnulaunafrek, en það er að sljetta húsið að utan og innan. Þarf til þess lítið sement en mikið verk. Læt jeg svo staðar numið, enda lofaði jeg hæstv. forseta að vera stuttorður.