10.05.1927
Neðri deild: 71. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

21. mál, fjárlög 1928

Sigurjón Jónsson:

* Jeg hefi komið með eina litla brtt. á þskj. 545, V. Hún fer fram á að hækka styrkinn, sem kvenfjelagið „Ósk“ á Ísafirði hefir til að halda uppi húsmæðraskóla, um 800 kr., úr 4000 í 4800. Það var að vísu svo, þegar fjárlagafrv. kom aftur hingað frá hv. Ed., að okkur íhaldsmönnum kom saman um að reyna að sporna við, að frekari breytingar yrðu gerðar á því, enda þótt ýmsir, þar á meðal jeg, álitu sum handtök hv. Ed. hafa orðið nokkuð óheppileg. En þegar jeg sá, að margar brtt. voru fram komnar, án þess að þessi væri tekin þar með, þótti mjer rjett að bera hana fram, ef einhverjar breytingar kynnu að ná fram að ganga. Jeg þarf ekki að rifja upp atriði þessa máls. Þeim var lýst við 2. umr. hjer í hv. deild. Get jeg látið mjer nægja að segja frá því, að kvenfjelagið „Ósk“ fór fram á að fá 8000 kr. styrk hjá Alþingi til að halda uppi kvennafræðslu á Ísafirði. Eftir að jeg hafði átt tal um þetta við hv. fjvn., sem tók málinu liðlega, gekk hún inn á að bera fram till. um 5000 kr. til fjelagsins, og sætti jeg mig við það. Jeg hjelt, að þessum styrk væri nú vel borgið, þar sem hann var fram borinn af 7 manna nefnd óskiftri og samþyktur í þessari hv. deild með öllum þorra atkvæða. En sú hefir ekki orðið raunin á, því að hv. Ed. hefir þótt rjett að sníða af þessu eins og flestum öðrum fjárveitingum. Það, sem jeg á verst með að skilja í afstöðu hv. Ed., er það, að hún lækkar jafnt þær upphæðir, sem hjer eru fram bornar eftir einhuga till. fjvn. og samþyktar með yfirgnæfandi meiri hluta, eins og hinar, sem þessi hv. deild var mjög skift um og samþyktar voru með litlum atkvæðamun. — Þetta er ein af þeim brtt., sem sjálfsagt er að halda fram, ef ekki á að láta hv. Ed. alveg ráða fjárlögunum eða hinum endanlega frágangi þeirra að þessu sinni. — Þessa styrks er leitað af því, að annars yrði skólagangan fátækum námsmeyjum um megn. En inn á það atriði þarf jeg ekki að fara frekar að sinni. — Jeg hefði getað vænst þess, að hv. meiri hl. fjvn. tæki upp þessa till. eins og aðrar brtt. sínar um styrki til skóla. Þessa till. er alveg eins mikil, og jafnvel enn meiri, ástæða til að samþykkja eins og sumar till. hennar. Því að um suma þá liði, er hv. meiri hluti ber fram, voru mjög skiftar skoðanir í hv. deild á sínum tíma, en þessi liður var sámþyktur einróma.

Jeg get ekki stilt mig um að minnast líka á aðra brtt., frá hv. fjvn., sem jeg tel sjálfsagt að samþykt verði, ef nokkur breyting á að ná fram að ganga. Það er hækkunin á styrk til unglingafræðslu utan Reykjavíkur. Hv. fjvn. lagði til, er fjárlagafrv. var hjer í fyrra sinn, að þessi styrkur væri hækkaður um 7 þús. kr., og var sú brtt. samþykt í einu hljóði. Þetta snerti mig dálítið sem þm. Ísaf., því að bæði í nál. fjvn., í framsöguræðu hv. frsm. og ennfremur í ræðu háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) kom það skýrt fram, að þessi hækkun var gerð með tilliti til unglingaskólans á Ísafirði, sem að undanförnu hefir farið mjög varhluta af opinberum styrk. Og með tilliti til þessarar auknu fjárveitingar var það álitið afsakanlegt að svæfa frv. mitt um gagnfræðaskóla á Ísafirði. Þrátt fyrir þetta alt tók hv. fjvn. Ed. sig til og ljet sníða einmitt þessa upphæð af styrknum til unglingafræðslu. Nú vil jeg leyfa mjer að spyrja hæstv. kenslumálaráðherra (MG),hvort þessi lækkun eigi sjerstaklega að snerta unglingaskólann á Ísafirði, sem svo oft hefir verið nefndur í þessu sambandi. Auðvitað getur hæstv. ráðherra aðeins svarað fyrir sig persónulega, því að ekki er víst, að hann verði kenslumálaráðherra, þegar þessi styrkur kemur til útborgunar. Ef það væri álit hæstv. ráðherra og manna yfirleitt, að þessi lækkun ætti sjerstaklega að koma fram gagnvart Ísafirði, þá þykir mjer hv. Ed. hafa sýnt skólamálum þess kaupstaðar litla sanngirni.

Að gefnu tilefni vil jeg leyfa mjer að beina annari fyrirspurn til hæstv. atvrh. (MG). Hjer hefir komið fram brtt. frá hv. meiri hl. fjvn., um styrk til fjósbyggingar á Hvanneyri. Í umr. hafa komið fram þær upplýsingar, að búið á Hvanneyri er leigt núverandi skólahaldara gegn ákaflega lágu afgjaldi. Ennfremur kom það fram, að þörf er á fjósbyggingu vegna nautgripafjölgunar. Nú vil jeg spyrja hæstv. ráðh.: Er þessi nýi nautafjöldi eign ríkissjóðs, eða er hann eign skólahaldara? Þegar búið var leigt, hafa eflaust fylgt því svo og svo margir nautgripir. Ef þeir eru fleiri nú, eru öll líkindi til, að skólahaldarinn eigi það, sem umfram er. En mjer þætti undarlegt, ef ríkissjóður ætti að fara að byggja yfir þá nautgripi, sem skólahaldarinn á Hvanneyri sjálfur á.

Þá verð jeg að minnast fám orðum á brtt. á þskj. 336,111, frá hv. meiri hl. fjvn., um að fella niður fjárveitingu til hljóðdufls á Helluboða. Það tjóar sjálfsagt ekki að fara að þrefa um þetta nú. Það var dálítið gert við 2. og 3. umr. í þessari hv. deild. En mjer þykir það hart, eftir að hv. Ed. hefir sniðið 11 þús. kr. af vitamálunum, að þá kemur fjvn. þessarar háttv. deildar og heimtar, að fjárveiting til vita sje lækkuð enn um 10 þús. kr. Eins og fjárlagafrv. lítur nú út, eru áætlaðar 228 þús. kr. til vitamála, en jafnframt eru áætlaðar 300 þús. kr. tekjur af vitum. Nú er það að vísu svo, að vitakerfið skuldar ríkissjóði nokkurt fje, ef honum er ekki talin nein eign í vitunum. En meðan ekki er komið betra lag á vitamálin heldur en hjer er enn, álít jeg það með öllu óverjandi, að vitarnir sjeu ríkissjóði til stórtekna. Jeg vil algerlega taka undir það með hæstv. atvrh., sem hann hefir sagt í þessa átt, og þakka honum ummælin. Hvað sem öðrum till. um niðurfærslur á gjöldum ríkissjóðs líður, vona jeg, að þessi verði steindrepin.

Þá er annar liður, sem hv. meiri hl. fjvn. leggur til, að sje lækkaður um 5 þús. kr. Það er fjárveiting til markaðsleitar erlendis. Mjer finst það óneitanlega skjóta dálítið skökku við, þegar nefnd, sem sett er til að sjá um hag sjerstaks atvinnuvegar, kemur með till. um 20–30 þús. kr. fjárveitingu til að leita að markaði fyrir afurðir hans, að þá er á þetta ráðist af háttv. fjvn. hvað eftir annað, reynt að drepa það alveg eða a. m. k. að narta svo í það, að það komi ekki að hálfu gagni. — Þetta skýtur dálítið skökku við þær umræður, sem hjer urðu nýlega um eitt stærsta fjármál, sem fyrir Alþingi hefir legið og allir búast við, að nái fram að ganga á næstu þingum. Það var um árlega fjárveitingu til landbúnaðarins, sem svarar til 3 milj. kr. höfuðstóls. Þetta sætti engri sjerstakri mótspyrnu, en samt láta menn sjer sæma að berjast með hnúum og hnefum gegn fárra þúsunda fjárveitingu sjávarútveginum til hagsbóta.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.