10.05.1927
Neðri deild: 71. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

21. mál, fjárlög 1928

1249Þorleifur Jónsson:

Jeg hafði hugsað mjer, að jeg mundi ekki þurfa að taka til máls að þessu sinni. Bæði er nú það, að jeg á enga brtt. sjerstaklega, og eins hitt, að hv. frsm. meiri hl. fjvn. (TrÞ) hefir staðið svo vel fyrir sínu máli, að við það hefi jeg engu að bæta.

En vegna þess, að hæstv. forsrh. (JÞ) beindi því til mín, að jeg grenslaðist eftir því hjá Framsóknarflokknum, hvort hann vildi ekki fallast á frv. óbreytt, eins og það kom frá hv. Ed., þá er því til að svara, að Framsóknarflokkurinn vill að sjálfsögðu gera sitt til þess, að gætt verði alls sparnaðar, svo að sem minstur tekjuhalli verði í fjárlögunum.

En þar sem meiri hl. fjvn. ber fram allverulegar þækkunartill., sem hann telur að miði að því að búa fjárlögin betur úr garði, þá sjer flokkurinn ekki ástæðu til annars en að fylgja því, enda er það í samræmi við það, sem áður er sagt.

En fari svo við atkvgr., að fyrstu aðallækkunartill. nefndarinnar falli, þá mun hún, eins og hv. frsm. lýsti yfir, taka hinar brtt. aftur.

Með þessu vona jeg að hafa lýst því fyrir hönd Framsóknarflokksins, að hann vill fyrir sitt leyti stuðla að góðri og heppilegri afgreiðslu fjárlaganna, enda þótt hann sjái ekki ástæðu til, að svo stöddu, að ganga að frv. óbreyttu, eins og það kom frá hv. Ed.

Eins og háttv. frsm. tók fram, þá hefir vakað fyrir þeim nefndarhlutanum, sem honum fylgir, og okkur Framsóknarmönnum að búa fjárlögin sem best úr garði. Við erum hræddir um, ef kreppan heldur áfram, að þá standist ekki sú áætlun, sem gerð hefir verið, og tekjurnar reynist minni, þegar til á að taka.

Þess ber líka að gæta, að í hv. Ed. tók frv. miklum breytingum, ekki aðeins með lækkun ýmissa gjaldaliða, heldur voru þar eftir till. hv. fjvn. feldir með öllu niður margir liðir, sem samþ. voru hjer með miklum atkvæðamun. Og þessi niðurskurður var gerður án þess, að hv. fjvn. Ed. leitaði á nokkurn hátt álits fjvn. þessarar hv. deildar.

Við meirihlutamennirnir í fjvn. höfum reynt að lagfæra þetta, án þess þó að fara út í það ítrasta eða ráðast á þær till., sem upp í frv. voru teknar í hv. Ed.

Aðalágreiningsefnið, sem verið hefir í dag, er það, hvort fresta eigi byggingu landsspítalans eða ekki. Það reynist nú allajafnan svo, að spurning er um, hvað spara megi og hvað ekki. Jeg held, að fjvn. hafi litið svo á framan af þingi, að ef um sparnað væri að ræða á einstökum liðum stjfrv., þá mundi mega höggva eitthvað í þennan lið. En þegar síðar kom í ljós, að hæstv. stjórn hafði gert samninga um, að landsspítalinn skyldi kominn upp fyrir hátíðahöldin 1930, þá leit minni hl. svo á, að við þá samninga yrði að standa, og því mundi ekki fært að spara á þessum lið. En þegar svo er komið, að búið er að skera og klípa af nauðsynlegum fjárveitingum til brúa, vega, síma og samgangna á sjó, þá er ekki nema eðlilegt, þó að dregið sje að einhverju leyti úr þessari miklu húsbyggingu, sem að vísu er nauðsynleg, en ætti þó að þola dálitla bið, þegar alt annað verður að spara vegna fjárhagskreppu þeirrar, sem yfir vofir. Enda eru dæmi þess, að mörg nauðsynleg bygging hefir orðið að bíða, þó að lengur væri, t. d. eins og Kleppur. Hinsvegar skal jeg fúslega játa, að mjög væri það gleðilegt fyrir okkur, ef þessari þörfu og nauðsynlegu byggingu væri lokið 1930, en úr því að ekki verður hjá því komist að fresta mörgum öðrum nauðsynlegum framkvæmdum um ótiltekinn tíma, verðum við að sætta okkur við, þó að bygging spítalans dragist eitthvað ofurlítið.

Í raun og veru er það ekkert nýmæli, þó að fjárlagafrv. sje eitthvað breytt við eina umr. í hv. Nd. Hitt mætti fremur segja, að sje einsdæmi, að það sje samþ. óbreytt, eins og það kemur frá hv. Ed. Jeg held, að það hafi ekki komið fyrir nema einu sinni núna síðustu 10 árin, og það var í fyrra. Og áður held jeg, að það hafi ekki komið fyrir á áratugum. Annars er ekki nema sjálfsagt að fallast á fjárlagafrv. við eina umr., í hvorri deildinni sem er, ef auðsær hagur er að því, hvað útkomu fjárlaganna snertir, og enginn ágreiningur um frv. milli deilda.

Nú hefir komið fram, að mikill ágreiningur er milli beggja deilda um afgreiðslu frv. Hv. frsm. fyrri kaflans (ÞórJ) sýndi með góðum rökum, hvernig hv. Ed. hefði virt að vettugi till. þessarar hv. deildar, og hv. frsm. samgmn. (KIJ) lýsti einnig með skýrum dráttum, hve lítið hv. Ed. hefði farið eftir því, sem hjer var samþykt eftir till. þeirrar nefndar, og með atbeina fjvn.

Þær brtt., sem báðar þessar nefndir bera nú fram, eru gerðar með það fyrir augum að bæta frv. og færa það í betra horf, svo að tekjuafgangur verði, en þó borgið ýmsum framkvæmdum, sem lögð var áhersla á að ekki biðu, þegar frv. var hjer til meðferðar áður.