10.05.1927
Neðri deild: 71. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

21. mál, fjárlög 1928

Jakob Möller:

Till. þær, sem jeg hefi borið fram við þessa umræðu, eru flestar ekkert annað en endurtekning á því, sem áður var samþ. hjer í hv. deild. Þó er 1. till., undir IX á þskj. 545, ný; en jeg hefi lýst yfir, að hún er tekin aftur. 2. till., undir X, fer fram á að hækka styrkinn til Íþróttasambands Íslands úr 1800 kr. upp í 4000 kr. í fjárlagafrv. er styrkur til ungmennafjelaga í svipuðu skyni, að mig minnir 4500 kr. Mjer finst ekki rjett að gera svo mikinn mun á þessum tveimur fjelögum. Jeg er að vísu ekki nákunnugur því, hvað ungmennafjelögin hafa afrekað, en jeg veit hitt, að þau fjelög, sem eru í sambandi við Í. S. Í., hafa unnið ákaflega mikið í þarfir íþrótta. Íþróttasambandið hefir gefið út kenslubækur um ýmsar íþróttir, sjerstaklega glímuna, sem það hefir unnið mikið að að efla og endurvekja, eins og aðrar íþróttir, þar á meðal sund. Það hefir og haldið íþróttanámsskeið árlega og sent íþróttamenn út um landið víðsvegar, til þess að halda íþróttasýningar og efla áhuga. — Alt þetta starf kostar mikið fje; og jeg tel því fje vel varið, sem fer til þess að styrkja þessa starfsemi, og vænti því, að hv. deild taki vel þessari till., a. m. k. sjái sjer fært að samþ. varatill.

Jeg nenni nú ekki að orðlengja þetta, því að jeg efa ekki, að mjer hafi þegar á þessum fáu mínútum tekist að sannfæra þá fáu menn, sem hjer eru inni.

Næsta till. er samskonar og samþ. var við 2. umr., að veita styrk til þess að kynnast nútímafyrirkomulagi og starfrækslu erlendra kaupþinga. Hefi jeg borið þessa till. þannig fram, að hún komi til atkv. á undan till. fjvn. um að fella tilsvarandi lið úr fjárlagafrv. Jeg geri ráð fyrir, að þeir hv. þm. fylgi þessari till., er samþ. samhljóða till. við 2. umr.; en hinsvegar mun jeg fyrir mitt leyti greiða atkv. móti till. fjvn.

Aðrar till., sem jeg flyt, fara fram á að hækka aftur smáfjárveitingar, sem samþ. voru hjer, en Ed. hafði lækkað. Það eru mjög lítilfjörlegar fjárhæðir. Hv. deildarmenn hafa sjálfsagt áttað sig á þeim, og hirði jeg því ekki að tala um þær.