10.05.1927
Neðri deild: 71. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

21. mál, fjárlög 1928

Hákon Kristófersson:

* Jeg get tekið undir með hv. þm. Ísaf. (SigurjJ), að innan Íhaldsflokksins hefir verið rætt um að koma ekki með brtt. við fjárlagafrv. að þessu sinni. En þar sem margar brtt. eru samt sem áður komnar fram, þá hefi jeg leyft mjer að bera fram eina örlitla brtt. á þskj. 550, undir VIII, tillögu, sem vitanlega hefir enga þýðingu gagnvart ríkissjóði. Það er smávægileg hækkun til Guðmundar Björnssonar, gamals barnakennara. Jeg hefi áður mælt með þessum gamla heiðursmanni á áttræðisaldri, því að jeg bar áður fram svipaða brtt., svo að jeg finn ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta nú. En fari svo, að till. til hækkunar eða lækkunar verði alls ekki samþ., tek jeg þessa till. vitanlega aftur, er jeg sje, að svo við horfir.

Það hafa komið fram ýmsar óánægjuraddir hjer í hv. deild út af meðferð hv. Ed. á fjárlagafrv.; og að málavöxtum athuguðum verð jeg að segja, að það er ekki óeðlilegt. Afleiðingarnar af þessari óánægju má vitanlega glegst sjá í till., sem fram eru komnar á þskj. 536, frá meiri hl. fjvn., sem hefir ekki fallist á gerðir hv. Ed. Ætla jeg engan dóm á það að leggja, hvor hafi þar rjettara fyrir sjer. En þegar jeg lít yfir brtt. meiri hl. fjvn., þá sakna jeg þess, að hún hefir ekki sjeð sjer fært að færa í samt lag þá upphæð, sem Nd. hafði ákveðið til sjúkraskýla og læknabústaða. Hv. Ed. hefir klipið af þessari upphæð, eins og mörgum öðrum.

Þar sem jeg á dálítinn hlut að máli sem þingmaður Barðstrendinga, þá hefði mátt vænta brtt. frá mjer til þess að kippa þessu í samt lag. Að jeg ekki gerði það kemur til af ýmsum ástæðum, þar á meðal af því, að jeg býst ekki við, að niðurfærslunni sje stefnt að neinu sjerstöku hjeraði. Til þess álít jeg hv. fjvn. hafa skort heimild, nema því aðeins að hún hefði að baki sjer álit heilbrigðisstjórnarinnar um það, að eitt væri rjettarminna en annað af þeim hjeruðum, sem eiga að njóta þessarar upphæðar. Þess vegna býst jeg við, að þegar til úthlutunar þessa fjár kemur, þá verði heilbrigðisstjórnin höfð með í ráðum, en ekki sje nú slegið föstu, að niðurfærslunni sje beint að sjerstökum hjeruðum. Vera má, að síðan fjárlagafrv. var til umræðu hjer í hv. deild, hafi það upplýst, að einhver af þeim hjeruðum, þar sem slíka byggingu skyldi reisa, hafi horfið frá því í bili fyrir einhverjar ástæður, og er þá ekkert um þetta að segja.

Það hefir nú risið nokkur ágreiningur um till. meiri hl. fjvn. hjer, um að fella niður tillagið til byggingar landsspítalans. Mig furðar satt að segja, ef hv. þingmönnum hefir ekki verið kunnugt um þau samningsdrög, — eða hvað annars á að kalla það, — sem voru fyrir þessu máli. Mjer var þetta fullkunnugt, og jeg sagði á þeim tíma, þegar verið var að smeygja þessu máli inn, að svo gæti brátt farið, að fjárhagur okkar yrði það þröngur, að þetta gæti orðið allerfiður baggi. En jeg lít svo á, að þegar búið er að segja „A“ í þessu máli, þá verði sóma þingsins vegna að segja „B“. Jeg er samþykkur hæstv. forsrh. hvað þetta snertir. Úr því, sem komið er, held jeg, að varla sje hægt að snúa aftur.

Það er ekki af því, að jeg vilji bera háttv. fjvn. brigslyrðum, þótt jeg segi, að það sjest fljótlega á hækkunartill. hv. meiri hl. á þskj. 536, að „kennir hver sín“. Jeg verð að segja, að hv. meiri hl. hefir verið betur ljóst það, sem lá honum dálítið nær, heldur en það, sem við kemur öðrum hv. þingmönnum. Skal jeg benda á meðal annars, að hv. fjvn. mintist í dag á styrk til hafnarbóta í Ólafsvík og taldi hann mjög í ósamræmi við aðrar slíkar styrkveitingar, sökum þess að ekkert fje kæmi annarsstaðar frá. Jeg verð nú að líta dálítið öðrum augum á þetta. Þetta er sem sagt ekkert annað en fyrirtæki, sem á að miða til þess að styðja velgengni þessa bygðarlags, alveg eins og aðrar stórkostlegar ríkisframkvæmdir til umbóta. Það má til dæmis nefna meiri háttar brýr, sem gerðar eru í þeim tilgangi að vernda líf og annað öryggi landsmanna. Lítum á vegina. Víða kemur ekki neinn styrkur frá hlutaðeigandi sýslufjelögum. Svo er það heldur ekki rjett hjá hv. frsm., að ekkert fje hafi komið frá þessu viðkomandi bygðarlagi til þessa mannvirkis, því að þessi fátæki hreppur hefir lagt fram rúmar 23 þús. kr. Þetta sýnist ekki lítil fjárhæð, þegar um ekki stærra bygðarlag er að ræða.

Jeg vil benda á það í þessu sambandi, að jörðin Ólafsvík mun vera eign ríkisins. Hverjum stæði það nú nær heldur en einmitt þessum landsdrotni, — ef svo má að orði komast, — að sjá um það, að íbúar þessa bygðarlags, sem aðallega lifa á sjónum, fái sæmilegar lendingarbætur, er gætu komið í veg fyrir mörg slys, sem vitanlega hafa oft komið þarna fyrir?

Getur maður með nokkrum rjetti borið saman slíkar hafnarbætur í Ólafsvík og fjósbyggingu á Hvanneyri, sem jeg býst við, að sje verið að byggja yfir gripi viðkomandi bónda sjálfs? En til þessarar byggingar er varið allmyndarlegri fjárhæð úr ríkissjóði. Jeg spyr: Hvernig getur nokkur maður, sem vill standa á rjettlætisins grundvelli, verið með því að leggja 11500 krónur til slíkrar fjósbyggingar, en lagt á móti tiltölulega lítilli upphæð til þess að vernda líf og limi sjómanna? — Þetta kemur áreiðanlega ekki af neinum illvilja hjá hv. frsm., heldur af því, að hann þekkir lítið, hvað það er að vera sjómaður. Jeg þekki dálítið til þess munar að koma að lendingu, sem maður veit, að er nokkurn veginn trygg, og koma að lendingarleysu. Jeg get frómt úr flokki talað um þessi efni, fremur kannske en flestir þeirra, sem hjer eru innan veggja.

En svo er annað ótalið í þessu máli. Það eru til lög um hafnargerð í Ólafsvík, mig minnir frá 1919, þar sem ákveðið er fyrirkomulag á byggingu hafnarinnar. Er þar svo að orði kveðið, að verkið skuli gert fyrir framlag frá hreppnum og ríkinu, en auk þess er ríkissjóði skylt að standa í ábyrgð fyrir því, sem hreppurinn á að leggja fram. Jeg fæ nú ekki skilið, að það sje neitt sæmilegra fyrir hið háa Alþingi að koma hreppsfjelagi þessu, sem er fátækt, í stórkostlegar skuldir, þar sem vitanlegt er, að það hlýtur að koma til ríkissjóðs að greiða ábyrgðina.

Það er þegar fengin góð reynsla um traustleika þess hluta þessa mannvirkis, sem þegar er búið að gera, að það hefir staðist eitthvert allra mesta hafrót, sem núlifandi menn þekkja. Það stendur alveg óhaggað.

Jeg vildi segja þessi orð sökum þess, að mjer hefir ætíð frá því fyrsta, er jeg kom á þing, verið ant um, að þingið gerði skyldu sína gagnvart þessum mönnum, sem eiga við þau lífsskilyrði að búa að þurfa að sækja lífsuppeldi sitt og sinna með því að hætta sjer sjálfum. Og svo fremi að þingið hafi skyldu til að sýna umbun gagnvart landsins börnum, þá er það á þessu sviði og í öðru lagi í heilbrigðismálunum.

Jeg ætla ekki að fara inn á neinn samanburð á skólabúinu á Hólum og á Hvanneyri; og jeg vil enga andúð sýna þeim ágæta manni, sem er vel metinn og vel kunnur að mörgu leyti, skólastjóranum á Hvanneyri, þótt jeg segi, að þegar litið er á þær stóru fjárhæðir, sem nú eru látnar þangað frá ríkisins hálfu, þá muni hægt að fullyrða, að margir væru góðir bændur á landi hjer, ef þeir hefðu haft slíkum peningum úr að spila til þess að bæta jarðir sínar. Og jeg get ekki talið það neitt sjerstaklega lofsvert, þótt mikið hafi verið þarna unnið og jörðin hafi tekið miklum umbótum í höndum áhugamanns. — Þótt jeg að vísu telji sjálfsagt að styrkja slík fyrirtæki, þá segir það sig sjálft, að slíkum fjárveitingum verður að vera í hóf stilt. En það tel jeg ekki í hóf stilt að verja tugum þúsunda til fjósbyggingar, sjerstaklega yfir þá gripi, sem ríkinu koma í sjálfu sjer ekkert við. Jeg verð að segja, að í öllu falli þarf nauðsynlega að taka slíkar byggingar út, til þess að vita, hvort í þeim liggi sú fjárhæð, sem ríkið hefir af hendi látið. — Þegar maður lítur til þess, að jarðabót á þessari jörð má koma upp í jarðarafgjaldið, þá verð jeg að segja, að ágóðinn er mikið sæmilegur. Ætli aðrir vildu gefa eftir afgjald, þótt ábúandi gerði jarðabætur, sem gæfu þeim sama ábúanda að lokum margfaldan arð? Slíkt getur maður sagt, að falli ekki í skaut nema einstöku manna, sem eru svo lánsamir á lífsleiðinni að vera bornir á gullstólum. — Annars tel jeg sjálfsagt, að þjóðfjelagið gæti sóma síns um að styrkja ekki neitt lúsarlega slík myndarbú sem þetta skólasetur. En þá eiga þau líka að vera fullkomin fyrirmyndarbú, og er sjálfsagt að gera hinar fylstu kröfur til þeirra.

Það er nýtt mál, að skólapiltar geri átroðning. Það getur reyndar verið rjett, sem hæstv. atvrh. (MG) benti til, og sýnir það að vísu mikið höfðinglyndi hjá skólastjóra, ef hann gefur þeim meira og minna af sínu uppihaldi þar. En jeg þekki þó það til búskapar, að jeg veit, að það er ekki óþægilegt að hafa unga menn til ígripa við ýmis verk, sem fyrir koma á heimili. Og til þess eru menn auðvitað á þessum skóla, að þeir venjist verklegu starfi svo, að þeir verði að nýtari mönnum, þegar þeir koma aftur út í sveitir landsins.

Jeg verð að segja, að það er ilt að skólinn á Hólum skuli vera kominn í það ástand og þann vesaldóm, sem hv. frsm. lýsti, en hv. 2. þm. Skagf. lýsti ástæðunum til, að svo er. Þó hefir búið verið í höndum þess manns, sem hv. frsm. mun ekki telja með verstubændum þessa lands, en er hann vjek þaðan fyrir skemstu, skilaði hann sumu í hinu mesta ólagi.

Um síðustu brtt. hv. meiri hl. á þskj. 536 er ekki annað að segja en það, að þar skín út hinn góði og göfugi tilgangur nefndarinnar, að hjálpa þessu hreppsfjelagi. En það þarf að vera samræmi í svona hlutum. Jeg bar fram till. sama efnis, en fyrir annað kjördæmi, og minnir mig ekki betur en að sá sami hv. meiri hluti snerist öndverður gegn henni. En þetta kjördæmi hafði fulltrúa í hv. fjvn., og honum hefir tekist betur að sannfæra meðnefndarmenn sína en mjer tókst að sannfæra hv. deild.

Jeg held jeg láti svo úttalað að sinni, og vona jeg, að það, sem jeg hefi hjer mælt, hafi ekki gefið tilefni til andsvara, því að orð mín voru öll rjett og þeim í hóf stilt, og tel jeg ólíklegt, að nokkur vilji verða til þess að slá sannleikann niður.

Ræðuhandr. óyfirlesið.