10.05.1927
Neðri deild: 71. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

21. mál, fjárlög 1928

Pjetur Þórðarson:

Jeg á brtt. á þskj. 545 undir VI. Jeg fer þar fram á, að lækkaður sje að nokkru styrkur til þriggja listamanna, og gangi þœr lækkunarupphæðir til styrks handa einum listamanni í viðbót, sem líkt stendur á fyrir. Hann hefir styrksins brýna þörf, og er eins líklegur til þess að hafa varanleg not af honum og verða listamaður í sinni grein eins og flestir hinna, sem hjer hafa komið til greina. Jeg tel enga þörf að rekja nánar, hvers vegna farið er fram á, að dreginn verði 1/6 af styrk til Önnu Borg og Haralds Björnssonar. Það er ekki vegna þess, að jeg álíti styrk til þeirra of ríflegan, en jeg tel rjettara að koma fleirum að, eins og t. d. þessum pilti, sem jeg vil koma inn í fjárlagafrv. með þennan styrk til þess að ljúka námi.

Við 2. og 3. umr. fjárlagafrv. hjer í deildinni gerði jeg grein fyrir því, hve mikil þörf Guðmundi Kristjánssyni er að geta lokið söngnámi, og ætla jeg ekki að ræða um það frekar. Aðeins vona jeg, að nú verði litið til þess með meiri sanngirni en þá var gert.

Það er auðvitað vegna þess, að jeg er á líkri skoðun og ýmsir aðrir hv. þm., að rjett sje að forðast sem mest viðbót við fjárveitingar eða að stofnað sje til nýrra fjárveitinga, nema dregið sje af annarsstaðar, að jeg hefi lagt til, að dregið verði af þessum þremur styrkþegum, sem í mínum till. eru nefndir.

Þá á jeg eina brtt. á sama þskj. undir XI, við 16. gr. 40, nýr liður: til þess að gera laxgenga fossana Glanna og Laxfoss í Norðurá í Mýrasýslu verði endurveitt eins og í fyrra alt að 1000 kr. Eftir að fjárlagafrv. var tilbúið út úr þessari hv. deild um daginn, fjekk jeg brjef frá oddvita þess hrepps, sem hjer á helst hlut að máli. Hann segir í því brjefi, að helst sje útlit fyrir, að fjárveitingin, sem nú er í gildandi fjárlögum, verði ekki notuð og sje því nauðsynlegt að fá endurveitingu. Jeg vona, að hv. deild verði ekki á móti því, þar sem þessi fjárveiting hefir engin áhrif á jöfnuð reikninganna, hvenær sem hún verður notuð. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta.

Jeg hafði ekki hugsað mjer að fara út í önnur atriði en þá smáliði, sem jeg er flm. að. Þó vil jeg segja nokkur orð út af ræðu hv. þm. Barð. Ekki af því, að hjá mjer sje svo rík hvöt til þess að segja meira en nauðsynlegt er, og það er heldur ekki af því, að jeg telji svo nauðsynlegt að gera athugasemdir um það, sem hann sagði, en mjer finst harla einkennileg og furðulega framborin hugmynd hans um, hvers vegna veita á fje til húsbyggingar á Hvanneyri. Mjer finst þetta, um nauðsyn fjárveitingarinnar, liggja alveg í augum uppi, sjerstaklega vegna þess, eða í sambandi við það, sem hæstv. atvrh. vjek að. Jörðin hefir tekið stórkostlegum umbótum og framförum alla tíð, meðan þessi skólastjóri hefir haft hana til umráða, þó einkum á síðari árum. Túnið hefir ekki aðeins verið bætt, heldur einnig aukið að miklum mun. Þegar jörðin er aukin að ræktuðu landi, þarf stærri heyhlöður og stærri og fleiri skepnuhús en áður. Þetta liggur alveg opið fyrir, að það er eðlilegt að auka þessar byggingar, jafnótt og með þarf. Svo er þetta opinber eign, hvers vegna á þá ekki að byggja þar í samræmi við aðrar framfarir og afurðaaukningu? (HK: Hvernig er með prestssetrin? — TrÞ: Er ekki verið að byggja yfir prestana? Jeg veit ekki betur). Jeg ætla að bíða þangað til hinir eru búnir. Já, hvernig er það á prestssetrunum. Það væri miklu rjettara að bæta skepnuhúsin þar en að láta þá hafa innstæðukúgildi. Það ætti að gilda sama um þær jarðir og skólasetrið á Hvanneyri. Jeg held, að ekki þurfi að vitna til neinnar annarar aðstöðu við slíka fjárveitingu en að jörðin sjálf þarf á stækkuðum og endurbættum húsum að halda. Læt jeg svo staðar numið.