11.05.1927
Neðri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Guðnason:

Jeg þarf ekki að segja nema örfá orð, því að þessar tvær brtt., sem jeg ber fram, eru hv. þm. kunnar frá fyrri umr. fjárlagafrv. Styrkveitingin til húsmæðraskólans á Staðarfelli náði þá samþykki í þessari háttv. deild, en er eitt af því, sem hv. Ed. hefir lækkað. Jeg vænti þess, að sama verði látið ganga yfir þessa till. og aðrar, sem fram eru komnar í þá átt að hækka styrki til húsmæðrafræðslu, sem hv. Ed. hefir ýmist lækkað eða felt niður.

Hin brtt. er um námsstyrk til Sigurkarls Stefánssonar, sem ekki náði samþykki við fyrri umræður. Um þennan styrk vil jeg aðeins segja það, að þar sem þingið hefir nú samþ. styrki til allmargra námsmanna, væri mikið ranglæti, ef þessi yrði feldur. Þó að jeg geri ráð fyrir, að hinir, sem styrk hafa hlotið, muni vera vel gefnir menn, þá hygg jeg, að þessi piltur muni vera í fremstu röð íslenskra námsmanna, sem nú stunda nám erlendis. Hann hefir lokið stúdentsprófi hjer heima og miðprófi í stærðfræði við háskólann í Kaupmannahöfn með hæstu 1. einkunn, en vegna fátæktar mun hann varla geta lokið námi, nema hann fái til þess nokkurn styrk.