11.05.1927
Neðri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

21. mál, fjárlög 1928

Benedikt Sveinsson:

Jeg er riðinn við fáeinar brtt. við þessa umr., en áður en jeg vík að þeim vil jeg minnast lítið eitt á meðferð háttv. Ed. á frv. Hún hefir fengið eigi alllítið lof fyrir „lagfæringar“ sínar á frv., einkum frá blöðunum, og það hefir verið látið heita svo, að hún hafi komið vitinu fyrir þingið í þessu efni. Sama hrós fjekk hún í fyrra. Jeg get þó ekki fallist á, að hv. Ed. eigi einskært lof skilið fyrir allar till. sínar, því að þótt hún hafi tekið þá stefnu að færa niður gjöldin, virðist mjer nokkuð á skorta, að þar sje alstaðar gætt fullrar sanngirni eða farin heppilegasta leið. Það er enginn galdur að færa niður gjaldaliðina á þann hátt að taka upphæðir af handahófi og lækka fjárveitingar t. d. til vegagerða, brúa, sjúkrahúsa o. s. frv. Þetta var líka gert í fyrra og fært sem ástæða, að líkur væru fyrir nokkurri lœkkun á ýmsu, sem til framkvæmdanna þyrfti. En alt annað kom á daginn. Það má búast við, að enn fari á sömu leið, áætlanirnar reynist of lágar, þegar til á að taka, en hinsvegar kemur sjer illa fyrir menn að vera í óvissu um, hvað fram eigi að ganga af því, sem fyrirhugað er og til hefir verið ætlast, að framkvæmt yrði. Jeg vildi minnast á þetta í sambandi við styrkinn til sjúkrahúsa, sem efri deild hefir fært niður alveg út í bláinn, án þess að nokkur grein sje gerð fyrir því nokkursstaðar, hvar niður eigi að koma, og það hefir víst hv. Ed. ekki sjálf gert sjer grein fyrir. — En svo er mál með vexti, að í Þistilfjarðarhjeraði var ráðist í að reisa sjúkraskýli og læknisbústað með fyrirheiti um 14 kostnaðar úr ríkissjóði. Var þetta mest gert að hvötum landlæknis og með hans ráði. Var búist við, að allur kostnaður yrði 12 þús. kr., og fjekk hjeraðið greiddar 3 þús. kr. úr ríkissjóði. En vegna dýrtíðarinnar fór kostnaðurinn langt fram úr áætlun og varð yfir 40 þús. kr. Hjeraðið hefir aldrei fengið neina rjetting þessa máls, aðeins þessar 3000 kr., eða um 1/14 af kostnaðinum. En nú er venjan orðin sú, að hjeruðin fái til þessara framkvæmda 1/3 kostnaðar. Því hefir nú verið farið fram á, að hjeraðið fengi eftirgjöf á 7000 króna láni úr viðlagasjóði, svo að alls væru veittar úr ríkissjóði 10 þús. kr., eða tæpur 1/4 hluti kostnaðar. Landlæknir hefir gefið þessu eindregin meðmæli sín, og hv. fjvn. þessarar deildar tók málið að sjer og færði þessar 7000 kr. til tekna í 5. gr. fjárlagafrv., og þar stendur talan óhreyfð. En í hv. Ed. var styrkur til sjúkrahúsa færður niður, án þess að sjeð verði, hvar sú niðurfærsla á fram að koma. Mjer þykir ólíklegt, að Ed. sje svo ósanngjörn að ætlast til, að lækkunin komi fram á þessu hjeraði, sem hefir borið svo skarðan hlut frá borði að fá eðeins 1/14 af kostnaðinum. Slíka sakargift ber jeg alls ekki á hv. Ed. En jeg tek þetta fram hjer til þess að koma í veg fyrir misskilning síðar. Þessi eftirgjöf liggur við traust akkeri, þar sem styrkurinn til sjúkrahúsa var hækkaður um 7000 krónur, en sama upphæð látin koma til tekna í 5. gr., sem rjett var, og stendur þar sem örugt vitni um eftirgjöfina. Nú sje jeg, að hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) hefir borið fram till. um að fella niður þessa greiðslu í 5. gr. þykir mjer það grálega gert, ef svo á að skiljast, að hann hafi tekið sinnaskiftum í málinu. Heiti jeg á deildina að vera samtaka um að fella þessa till. hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), og ef hún gerir það, sem jeg treysti fullkomlega, þá skoða jeg það sem nýja yfirlýsingu þess, að eftirgjöfin eigi fram að ganga. Læt jeg svo úttalað um þetta atriði.

Það hefir komið fram mikill áhugi á þessu þingi í þá átt að stofna og styrkja húsmæðraskóla í landinu. Tillögunni um stofnun húsmæðraskóla á Laugum hefi jeg fylgt og mun fylgja. Einnig kom fram till. frá hv. þm. Ak. (BL) um framlag til húsmæðraskóla í Eyjafirði samkv. eldri lögum, og greiddi jeg þeirri till. sömuleiðis atkvæði. Menn munu sammála um, að nauðsynlegt sje, að húsmæður geti aflað sjer sem mestrar þekkingar á starfi sínu. En þar sem víst er, að húsmæðraskóli verður ekki reistur í Eyjafirði að svo stöddu, og undir högg er að sækja um Laugaskólann, hefi jeg borið fram till. um, að Guðrúnu Björnsdóttur skuli veittur styrkur til húsmæðrakenslu á heimili hennar, Knarrarbergi, sem er nýbýli í Kaupangslandi í Eyjafirði. Guðrún er alþekt dugnaðarkona, hefir lært erlendis og staðið fyrir bæði Blönduósskólanum og Gróðrarstöðinni á Akureyri. Gerir hún ráð fyrir, að húsmæðrakensla gæti staðið þarna yfir 10 mánuði ársins. Jeg býst við, að þetta verði vinsælt mál og viðurkent verði, að með þessu sje þó stigið dálítið spor til þess að efla þá gagnlegu fræðslu, sem svo mikill áhugi er fyrir í Norðurlandi.

Þá hefi jeg borið fram aftur till. um uppbót til Friðriks Jónssonar pósts. Nd. hafði samþ. 3000 kr. styrk, en Ed. feldi hann niður. Til samkomulags hefi jeg fært upphæðina niður í 2000 krónur og vænti, að deildinni hafi ekki snúist svo hugur, að hún felli þá till. Jeg hefi heyrt vitnað í brjef póstmeistara gegn þessu máli, en eins og jeg hefi bent á, er harla lítið á því að græða, því að hann tekur fram, að hann „þekki ekkert til þessa máls“. Þegar því er svo greinilega yfir lýst, virðist farið í geitahús að leita ullar að sækja lærdóm um þetta efni til hans. Það er gefið í skyn í brjefi póstmeistara, að maðurinn muni ekki geta verið mjög efnalítill, þar sem hann hafi ráð á að koma hvað eftir annað hingað til Reykjavíkur. En Friðrik er nú sextugur að aldri og hefir komið alls þrisvar sinnum á æfinni hingað til Reykjavíkur. Hann hefir meðfram a. m. k. komið til þess að leita sjer lækninga og dvalið hjá systur sinni, sem er búsett hjer í bænum, svo að þetta sannar ekki, að hann sje vel stæður. Að öðru leyti er ekkert á þessu brjefi póstmeistara að græða.

Þá ber jeg fram brtt. um að Páll Þorkelsson fái 1500 kr. í stað 800. Hann er hniginn að aldri, en hefir stundað ýmisleg vísindi alla æfi. Hann varð fyrstur manna til að greiða fyrir frönskunámi hjer og hefir samið bæði franska samtalsbók og orðabók, og fleiri vísindarit hefir hann í smíðum. Hann er því vel að þessum styrk kominn á gamalsaldri, þegar hann getur ekki lengur rekið atvinnu sína sem áður, en hefir löngun til að ganga til fulls frá fræðiritum þeim, er hann hefir með höndum.

Hjer eru ýmsar lækkunartill., sem jeg hlýt að verða á móti, þar á meðal niðurfelling styrks til stúdentagarðs. Landsmenn hafa mikinn hug á því að koma þessari stofnun á fót, sem glögglega kemur fram í því, að fátæk hjeruð hafa lagt fram 5000 kr. hvert um sig til þess að koma stofnuninni upp. Stúdentar hafa og gengið mjög drengilega fram um fjársöfnun og annan undirbúning. Nú, þegar safnað hefir verið miklu fje, væri það óhagsýni að láta það liggja ónotað, en hinsvegar mesta nauðsyn á, að þessi stofnun komist sem fyrst á fót og geti orðið að tilætluðu gagni.

Þá eru hjer ýmsir smástyrkir, sem jeg vildi mæla með, þar á meðal styrkurinn til Færeyjafjelagsins. Þessi fjárveiting munar ríkissjóð engu, en henni á að verja til þess að afla ísl. bókum markaðs í Færeyjum. Ef það tekst, getur það orðið nokkur styrkur ísl. bóksölum og rithöfundum, og styrkir auk þess þjóðernisbaráttu Færeyinga.

Jeg skal ekki kasta neinum hnútum til hv. efri deildar fyrir meðferð hennar á frv. En hinsvegar tel jeg það óþarfa kurteisi að taka því tveim höndum eins og það kemur þaðan, án þess að lagfæra það, sem betur þykir mega fara.