11.05.1927
Neðri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

21. mál, fjárlög 1928

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg þekki háttv. þm. Str. (TrÞ) svo vel, að honum hefir ekki þótt vænt um það, sem jeg sagði síðast um landsspítalabygginguna, og því til frekari árjettingar vil jeg enn á ný rifja upp gang málsins frá 1925. Þá á þinginu var samþykt þál. um byggingu landsspítalans, og þar á eftir var samningur þessi gerður, sem fjárlagafrumvarpinu var svo breytt í samræmi við í efri deild. Og eins og jeg benti þessum háttv. þm. á, þá bar honum sem fjvn.manni að athuga þann samning, sem vitnað var til í fjárlagafrv. Ef hann hefir ekki gert þetta, hefir hann vanrækt skyldu sína, og ætti hann síst að vera að halda því á loft sjálfur.

Nú vill háttv. þm. (TrÞ) fá felda burtu fjárveitinguna til landsspítalans, til þess að geta sett aftur inn ýmsar aðrar fjárveitingar, sem hann veit, að hægt er að komast af án. En hv. þm. dettur ekki í hug, að hægt sje að komast af án þessara fjárveitinga, og þetta er það sem skilur, en ekki annað.

Jeg hlustaði ekki á, hvað hæstv. forsrh. (JÞ) sagði hjer í gær, en jeg vil aðeins segja það, að þótt hv. þm. Str. vilji halda því fram, að það væri rangt að vilja ráða yfir fjárveitingu í fjárlögum fyrir 1928 — (TrÞ: Það sagði jeg alls ekki). Nú, þá hætti jeg hreint að skilja þetta alt saman. (TrÞ: Jeg var að bera saman framkomu hv. Ed. og þessarar hv. deildar!). Þá er um alls engan ágreining að ræða, og hv. þm. hefir verið að hæla stjórninni, og vil jeg þá taka undir með honum og segja, að stjórnin hafi farið alveg rjett að.