11.05.1927
Neðri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (1266)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hæstv. atvrh. hefir svarað svo skýrt og skorinort því, sem sagt var um landsspítalann, að jeg þarf svo sem engu þar við að bæta.

Hv. þm. Str. sagði, að því hefði ekki verið mótmælt, að það þyrfti að leggja fram 450 þús. krónur hvort árið 1929 og 1930. Þetta er rjett, jeg mótmælti því ekki, en staðfesti það ekki heldur. Svo hnýtti hv. þm. því aftan við ræðu sína, að áætlunin hefði hækkað um 750 þús. kr. á nokkrum árum. Þetta er rangt hjá hv. þm. Eftir því sem hv. þm. hefir gefið upp fyrir árin 1929 og 1930, getur fjárframlagið skoðast 1550 þús. krónur, en það hefir aldrei verið búist við því, að landsspítalinn, sem nú er verið að byggja, fengist fyrir 800 þús. krónur. Það var gengið út frá því, að byggingin myndi kosta 1200 þús. krónur. (TrÞ: 800 þús. kr. var sagt hjá okkur í nefndinni). Það hefir aldrei verið sagt um þessa byggingu. Ef það hefir verið sagt í nefndinni, þá hlýtur að hafa verið miðað við annað hús en það, sem varð ofan á að byggja.

Það er nú búið að leggja það svo greinilega fram, að landsstjórnin er bundin þessum samningi, og að hún hefir gert hann eftir hvötum Alþingis, með vitund og samþykki Alþingis eftir á, svo að það er ómögulegt annað en að standa við hann, og er sjálfsagt að standa við hann.

Hv. þm. sagði, að stjórnin mundi verða að standa þjóðinni reikningsskap á því, hvort hún ætlaði að standa við gerða samninga. Jeg held, að það verði ljett fyrir stjórnina, en jeg hygg, að það verði erfiðara fyrir hv. þm. (TrÞ) að standa kjósendum sínum reikningsskap á því, þegar hann hefir setið í fjvn. þriggja þinga í röð, en ekki vitað fyr en nú, að til er ákveðinn samningur, sem þó hefir verið vísað til um fjárveitingar í fjárlögum, bæði fyrir árið 1926 og 1927; og þess vegna hefir annaðhvort legið fyrir fjvn. þessara þinga samningurinn sjálfur, eða þá full vitneskja um að hann væri til, en hv. þm. Str. hefir ekki rækt sitt starf betur en svo, að hann veit ekkert um, að samningurinn sje til, fyr en nú á þriðja þinginu. Jeg held, að hv. þm., sem talar hjer fyrir hönd meiri hl. fjvn., ætti ekki að tala mjög digurt um, að sá hv. meiri hl. sje sjerlega vel fær um að hafa vit fyrir fjármálastjórn landsins. Jeg held, að hv. þm. (TrÞ) ætti að hafa vit á að reyna að læra að hafa betra handbragð á því verki, sem hann er sjálfur settur til.

Út af þeirri deilu, sem orðið hefir um fjárhúsið á Hólum, þarf jeg ekki að segja margt, því að hv. þm. hefir nú snúið frá öllu því, sem hann sagði um það mál í fyrstu. En hv. þm. byrjaði á því að víta það, að auglýst hefði verið útboð á fjárhúsum á Hólum, sem engin fjárveiting væri fyrir, og þá benti jeg hv. þm. á þann lið, sem ætlaður er til óvissra útgjalda á Hólum, og þó að svo sje farið fram á framhald af þessum styrk, þá gefur það hv. þm. ekki tilefni til að rjúka upp, eins og hann hefir nú gert. En ástæða er sú, að hv. þm. vildi ekki veita eftirtekt liðnum í fyrra, og rýkur þess vegna upp.

Um afgreiðslu fjárlagafrv. er það að segja, að þessi till. um burtfellingu á 150 þús. krónum til landsspítalans er þannig, að hún hefir ekki í för með sjer neina lækkun á útgjöldum ríkissjóðs árið 1928, því að það er ekkert annað en að taka ekki upp í fjárlögin upphæð, sem þó verður að borga hvort sem er. Og þó að fram komi við það tekjuafgangur að nafninu til, þá er náttúrlega enginn fjárhagslegur vinningur við það, þegar vitanlegt er, að slept hefir verið útgjaldapósti, sem verður að greiða alt að einu.

Jeg hefi vikið að því áður, að landsspítalabyggingin verður ekki stöðvuð með niðurfellingu þessa gjaldaliðs. Það verður að gera alt aðrar ráðstafanir til þess, ef það á að verða.

Hv. þm. Str. fór upp í hæðirnar í lok ræðu sinnar og sagði, að það mundi vera einsdæmi í stjórnmálasögunni, að stjórnin stæði á móti því, að fjárlögin fengju bætta afgreiðslu, og svo hjelt hv. þm. áfram með nokkrum líkum ummælum. En jeg verð nú að segja, að það eru að vísu lofsverð sinnaskifti, sem fram eru komin hjá hv. þm. Str. og hv. meiri hl. fjvn., þegar nú er svo komið, að þeir eru farnir að keppa við okkur íhaldsmenn um það að reyna að láta fjárlögin fá sómasamlega afgreiðslu; en jeg er hræddur um, að trúin á þennan góða vilja þeirra minki nokkuð, þegar hv. þm. notar tækifærið til að hella sjer yfir stjórnina fyrir það, að hún vill ekki sætta sig við, að færð sjeu niður fastákveðin og samningsbundin útgjöld. Þetta finst hv. þm. (TrÞ) vera ódæði og álasar stjórninni mjög fyrir. en jeg held, að það sje óþarfi fyrir hv. þm. (TrÞ), og vil jeg nú gera dálitla grein fyrir aðstöðu stjórnarinnar alment.

Þegar einhver stjórn er að undirbúa fjárlagafrv., þá á hún tvenns úrkosti; annaðhvort getur hún sjálf gert ráðstafanir um notkun allra tekna, eins og henni sýnist rjettast að verja þeim, eða þá að hún getur skilað frv. með einhverjum verulegum tekjuafgangi, sem þinginu er þá ætlað að ákveða um, hversu verja skuli. Nú verð jeg að segja það, að meðferð þingsins á fjárlögunum undanfarin ár hefir ekki verið þannig, að hún lokkaði á nokkurn hátt til að afhenda þinginu nema sem allra minstan tekjuafgang til umráða. Það hefir komið hjer inn á síðustu stundu æði mikill fjöldi af einstökum fjárveitingum, sem mikill meiri hluti þjóðarinnar álítur að megi spara og sjeu óþarfar. Jeg fyrir mitt leyti hefi ekki viljað fara þá leið að áætla svo lágar upphæðir til verklegra framkvæmda, að það yrðu afgangs einhverjar verulegar upphæðir handa þinginu til að ráðstafa, því að jeg var fullviss um, að þá mundi verða of mikil freisting til að veita fje til ýmislegs óþarfa. Jeg áleit þess vegna rjettara að stinga upp á fjárveitingum til verklegra framkvæmda, svo að ekki væri eftir nema sem svaraði 100 þús. kr., sem þá mætti nota til ýmislegs, sem óhjákvæmilega kemur fram síðar og naumast verður komist hjá að veita til. Nú er liðinn nokkur tími frá því að frv. var samið, og svo má benda á það, að ýmsir hv. þm. hafa gert sjer það að venju að koma með ýms áhugamál kjördæma sinna beina leið inn í þingið, án þess að snúa sjer til stjórnarinnar. Af þessu leiðir svo, að það koma fram ótal nýjar óskir, sumt alveg nýjar framkvæmdir, en sumt óskir um viðbótarstyrki við það, sem stjórnin hefir stungið upp á og hún þá gjarnan vill verða við. Þingið hefir oft aukið við fjárlögin á þennan hátt til nauðsynlegra framkvæmda. Jeg verð sjerstaklega að halda því fram, að á þinginu 1926 hafi starfsemi þingsins á þessu sviði ekki verið nægilega varkár, því að það lítur helst út fyrir, að þingið hafi talið það verk sitt að hlaða ofan á þau útgjöld, sem stjórnin hafði stungið upp á. En það verður auðvitað að vera hitt, að þingið telji það sitt verk að framkvæma þannig lagaðar lagfæringar á framkvæmdum og áætlunum stjórnarinnar, sem verða í samræmi við borgunargetu ríkissjóðs. — Þessu verður að halda áfram, og jeg hefi í hv. Ed. farið fram á, að sú deild tæki fjárlagafrv. til endurskoðunar á þá leið, að útgjaldaliðir væru færðir í námunda við það, sem þeir voru í stjfrv., og jeg taldi það alveg sjálfsagða skyldu mína að leggja til, að fjárveitingar stjfrv. væru færðar niður jöfnum höndum, til þess að ná rjettingu í frv.

Jeg get sagt hæstv. þm. Str. það, að ef það á að liggja fyrir hans flokki að taka við stjórnartaumunum, þá verður hv. þm. að taka aðra stefnu gagnvart þeim fjrh., sem þá verður, svo framarlega sem hv. þm. vill ekki verða sjer til minkunar fyrir þinginu. Hv. þm. má þá ekki storka sínum fjrh. fyrir það, að hann sætti sig við einhverjar lækkanir á þeim útgjaldaupphæðum, sem stjórnin stingur upp á, til þess að þingið geti að einhverju leyti fengið framkvæmdan sinn vilja um breytingar á fjárlagafrv., án þess að koma ríkissjóði á kaldan klaka. Hv. þm. verður þvert á móti að veita sínum fjrh. viðurkenningu, ef hann sýnir þá stillingu og sjálfsafneitun að sætta sig við, að þingið geri slíkar rjettingar á hans uppástungum.

Jeg get látið mjer storkunaryrði hv. þm. Str. í ljettu rúmi liggja, því að jeg er ekki kominn í þá stöðu, sem jeg er nú í, til þess að geðjast þeim hv. þm., heldur til þess að vinna mitt verk á þann hátt, sem jeg álít að þjóðinni sje fyrir bestu, og það hefi jeg einnig gert í þessu tilfelli.