11.05.1927
Neðri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Sigurðsson:

Það er nú svo langt síðan jeg kvaddi mjer hljóðs, að jeg hefi gleymt ýmsu af því, sem jeg ætlaði að segja, en vegna þess, að komið mun nú að lokum umræðunnar, skal jeg gera stutta grein fyrir afstöðu okkar minnihlutamanna.

Hv. form. fjvn. (ÞorlJ) gat þess, að við fjvn.-menn hefðum ekkert vitað um samning stjórnarinnar við stjórn landsspítalasjóðsins, er gerður var samkv. þál., er samþykt var 1925, en að okkur hefði snúist hugur, er það kom í ljós, að samningur var gerður. Þessu þarf jeg ekki að svara, því að hv. þm. Str. sagðist hafa gengið út frá því, að samningurinn væri gerður, enda þótt hann neitaði því áður að hafa haft nokkra vitneskju um það. Það er satt, að við minnihlutamenn vissum, að þessi samningur var gerður, þótt við myndum ekki, hve mikið ætti að leggja fram árlega úr ríkissjóði. Jeg er ekki svo minnugur, að jeg muni fyrir víst tölur, sem samþ. hafa verið fyrir svo löngu. Þess vegna var hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) falið að fara upp í stjórnarráðið til að kynna sjer samninginn. Og af því að menn mundu ekki, hver upphæðin var, þá hafði komið til orða, hvort ekki mundi hægt að færa þennan lið í fjárlagafrv. niður. Er ekki ástæða til þess að deila neitt um þetta atriði, því að það liggur ljóst fyrir.

Þegar litið er á brtt. þær til lækkunar á útgjöldum, er hjer liggja fyrir, þá tel jeg fullvíst, að þær stærstu þeirra, svo sem um að fella niður fjárveitingu til landsspítalans, draga af fje til brúagerða, síma og vita, og fella niður styrk til markaðsleitar, hafi litla eða enga möguleika til þess að ganga fram. Allar þessar fjárveitingar voru samþyktar hjer við 2. og 3. umr. um daginn, og var fjvn. þar ofurliði borin. En að meiri hl. nefndarinnar skuli nú fara að bera þetta fram aftur, er hreinn skrípaleikur. Það er aðeins gert til þess að kasta ryki í augu þeirra manna út í frá, sem ekki geta fylgst með því, sem gerist í þinginu, og telja þeim svo trú um, að hjer sje alvarleg sparnaðartilraun á ferðinni.

Hjer er að vísu um stóra upphæð að ræða, þar sem er framlag til landsspítalans, og mjer skildist á hv. þm. Str., sem nú ætti að slá stórt slag föðurlandsins vegna og spara nú svo, að um munaði. En hann komst þar í mótsögn við sjálfan sig undir eins, því að hann sagði, að þingmönnum bæri engin skylda til að taka þessa fjárveitingu upp í fjárlög, en stjórnin ætti að taka lán til þessa. Mjer er spurn: Hvað er þá unnið? (TrÞ: Jeg sagði ekki, að stjórnin ætti að taka lán handa spítalanum!). Jú, hv. þm. sagði, að stjórnin ætti að taka lán til spítalans, upp á sína ábyrgð. Jeg skrifaði það hjá mjer um leið og hann sagði það, svo að ekki þýðir að mæla því í mót. Með öðrum orðum: Hv. þm. Str. vill fella niður 150 þús. kr. fjárveitingu í fjárlögum, en láta svo ríkið taka 150 þús. kr. lán. Hverjum ætlar hann að telja trú um, að það sje nokkur rjetting á hag ríkissjóðs?

Um ýmsa aðra liði, svo sem stúdentagarðinn o. fl., get jeg tekið það fram, að við minnihlutamenn gætum fallist á, að eitthvað mætti spara á þeim í bili. En svo liggja hjer fyrir um 50 brtt., flestar bitlingar. Nokkrar af þeim upphæðum hafa verið samþyktar hjer áður, og ef menn halda þeim eins fast fram nú eins og þeir gerðu við 2. og 3. umr., þá má búast við, að margar af þeim komist nú í fjárlögin. Afleiðingin verður þá sú, að í staðinn fyrir lækkun á framlagi til verklegra framkvæmda koma margir nýir liðir, sem eru ýmist persónustyrkir eða aðrir bitlingar. Minni hl. óskar ekki eftir þessum skiftum, og þótt hann, eins og jeg hefi þegar tekið fram, hefði getað fylgt því, að feldir yrðu eða lækkaðir ýmsir liðir til sparnaðar, þá getur hann ekki undir þessum kringumstæðum lagt til, að nokkur breyting verði gerð á frv. Við minnihlutamenn munum því greiða atkvæði á móti öllum lækkunartillögunum, og líka á móti öllum hækkunartillögunum. Treysti jeg því, að háttv. deild verði okkur sammála um að samþykkja frv. óbreytt, og skila fjárlagafrv. þannig tekjuhallalausu.

Jeg verð áður en jeg sest niður að víkja örlítið að því, sem hv. 1. þm. Rang. (KIJ) sagði, en jeg skal reyna að haga orðum mínum svo, að þau gefi ekki tilefni til neinnar deilu. Hann vjek að gömlu deilumáli okkar á milli. (KIJ: Jeg byrjaði ekki á því!). Nei, það er rjett; það gerði hv. þm. Str. Hann dró þetta mál inn í umræðurnar í byrjun, og hv. 1. þm. Rang. talaði síðan um það. Jeg skal þá fyrst geta þess, að jeg hefi sjeð brjef frá Pjetri heitnum Jónssyni ráðherra til skólastjórans á Hólum, og mun það brjef dagsett skömmu áður en ráðherrann dó. Það brjef tekur af öll tvímæli um fyrirætlanir þáv. ráðh. Og jeg held því fast fram, að ef stjórnin hefði viljað gera eitthvað fyrir skólann, þá hefði hún átt að taka tillögur skólastjóra til greina, er hún samdi fjárlagafrv. En þessu neitaði ráðherrann þá, og þess vegna sá skólastjóri sjer ekki fært að halda áfram. Viðvíkjandi því, að hann hafi ekki svarað símskeyti frá ráðherra, þá er því að svara, að skeytið var sent daginn áður en jörðin var bygð. Skólastjóri símaði suður um kvöldið og bað mann hjer, sem hann treysti, að leita samninga við stjórnina, en. morguninn eftir var jörðin bygð, og var þetta um það leyti, sem við komum suður. Fresturinn, sem skólastjóra var gefinn, var óhæfilega stuttur og byggingunni hraðað óskiljanlega mikið. Það, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni, er því rjett í öllum atriðum.

Jeg vildi aðeins gefa þessa skýringu, úr því að þessu máli var hreyft, eins og gert var í gær.