11.05.1927
Neðri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. síðari kaflans (Tryggvi Þórhallsson):

Það skal ekki verða nema stutt athugasemd.

Jeg vil ekki láta hjá líða að lýsa ánægju minni út af því, að hæstv. atvrh. hefir nú játað, að samningurinn var gerður áður en þál. var samþykt, og að hann hefir ekki farið með rjett mál. En sjerstaklega gladdi það mig, er hann kom inn á afskifti Framsóknarflokksins af þessu máli. Árið 1925 ljek hjer alt í lyndi, þá var mikið góðæri og ríkisfjárhirslan var að fyllast. Þá lágu fyrir áætlanir um það, að landsspítalinn mundi kosta ca. 800 þús.–1 milj. kr. Þá vildi Framsóknarflokkurinn, að ráðist yrði í að byrja að reisa hann. Nú liggur það fyrir, að hann muni kosta um 11/2 milj. kr., en nú horfir öðru vísi við en 1925, því að fyrir sorglega fjármálastjórn er hjer komin versta kreppa. Þess vegna segjum við Framsóknarmenn nú, að við verðum að falla frá því að koma spítalanum upp þegar. En þá vilja íhaldsmenn ólmir berja höfðinu við steininn og halda áfram byggingunni.

Orð þau, er hæstv. atvrh. hafði eftir Jóni heitnum Magnússyni, sýna það alls eigi, að samningurinn við stjórn landsspítalasjóðsins hvíli á neinum lagalegum grundvelli. Og í samningnum er einmitt gert ráð fyrir. að fje sje ekki veitt í fjárlögum til spítalans, ef fjárhagsvandræði beri að hendi, — og þau fjárhagsvandræði eru nú að höndum komin.