11.05.1927
Neðri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

21. mál, fjárlög 1928

Hákon Kristófersson:

* Það er vegna þess, að mín fáu orð, sem jeg sagði í gærkvöldi, hafa gefið mönnum tilefni til að taka til máls og þar að auki verið misskilin, að jeg þarf að segja nokkur orð. Háttv. þm. Mýr. (PÞ) kvað svo að orði, að ummæli mín hefðu borið vott um nokkuð einkennilegar hugmyndir um sanngirni. En ef svo hefir verið, þá hefir það aðeins verið af því, að jeg hefi ekki komið eins vel orðum að meiningu minni og æskilegt hefði verið. Jeg reyndi aðeins að stilla svo í hóf ummælum mínum, að enginn teldi sig móðgaðann af þeim.

Hvað viðvíkur fjósbyggingunni á Hvanneyri, þá bar jeg aðeins þá upphæð, sem til hennar á að fara, saman við aðrar nauðsynlegar fjárveitingar, sem þó hafa verið feldar niður. Þennan samanburð leyfði jeg mjer að gera, en það var aftur ómaklegt af háttv. þm. Str. að gera mjer upp þá meiningu, að jeg væri á móti því, að fje færi til þessa fyrirtækis. En jeg verð nú að segja það, að engu minni rjett til fjárframlaga hafa mörg önnur fyrirtæki, sem hv. frsm. meiri hl. fjvn. (TrÞ) leggur til, að niður falli.

Jeg tók það skýrt fram í gær, að ummæli mín bæri ekki að skilja sem andúð gegn viðkomandi skólastjóra, því að jeg met þann mann mjög mikils. En hinu ætti enginn að þurfa að furða sig á, þó að þm. leyfi sjer áð gera athugasemdir við ýmsar fjárveitingar, ef það er gert klækjalaust og án brigslyrða, og ekki þarf það heldur að vera af neinni andúð til vissra manna, þó að maður hafi aðra skoðun á ýmsum málum en sumir aðrir háttv. þm. Jeg hafði raunar ekki búist við, að orð mín mundu koma af stað andmælum.

Hv. þm. Mýr. (PÞ) mintist á það í sambandi við orð mín, og það var það, sem hann hafði við þau að athuga, að líklegast væri betra, að hið opinbera tæki kúgildin af prestssetrunum, en bygði þar aftur á móti peningshúsin. Hann sagði þetta út af því, að jeg drap á það, að prestarnir yrðu vanalega sjálfir að byggja öll nauðsynleg peningshús á prestssetrunum og Önnur þau hús, er áhöfn jarðarinnar heimtaði. En jeg hygg, að það mundi nú verða allútdráttarsamt fyrir ríkissjóð, ef hann ætti að fara að byggja öll peningshús á prestssetrum þeim, er ríkið á nú.

Þá var það vinur minn, háttv. þm. Borgf. (PO), sem flutti ræðu um þetta sama í dag, og þykir mjer leiðinlegt, ef hann heldur, að jeg hafi ætlað að fara að traðka hjer rjetti nokkurs manns. Annars hefi jeg ekkert út á ræðu hans að setja. Hún var flutt með hógværð og stillingu og snerti mig ekki að neinu leyti. Honum þótti undarlegt, að það skyldi vera verið að ræða þetta, en það er aðeins af því, að jeg vjek að þessu til samanburðar, og finst mjer ekkert athugavert við það.

Jeg hefi aldrei mótmælt því, að búið á Hvanneyri hafi blómgast í tíð núverandi skólastjóra. Jeg er viss um, að það er í ágætu standi, bæði hvað fje og jarðrækt snertir, og ber vott um hagsýni og dugnað húsbóndans. En er það í rauninni nokkuð aðdáunarvert? Þegar núverandi skólastjóri tók við, þá var búið að reisa þar bú á föstum grundvelli og þegar kominn hinn mesti menningarbragur á það, og var það fyrst og fremst verk hins látna heiðursmanns, Hjartar Snorrasonar.

Þá sagði sami merki þm. (PO), að umbætur þær, sem orðnar væru á kúabúinu, mundu auka tekjur ríkissjóðs. Jeg get þó ekki fallist á það, því að það eykur ekki tekjurnar, meðan leigumálinn er hinn sami. (PO: Það eykur verðgildi eigna ríkissjóðs). En það er þó langt þangað til það verðgildi verður að nokkru gagni fyrir ríkissjóð, og svo lengi sem leigumálinn helst óbreyttur, getur það ekki orðið. Jeg er þó alls ekki að hafa neitt á móti leigumálanum, því að leigumála, sem saminn er til ótiltekins tíma, er eðlilega ekki hægt að rifta. En þetta er ekki óverulegt atriði, því að þessum manni á að vera miklu hægara um allar umbætur en þeim mönnum, er búa við erfiða leigumála. Og þó að segja megi, að ekki sje veitt fje í fjárlögum beint til búsins, þá er þó aðstaðan miklu betri til jarðabótaframkvæmda en annarsstaðar, og gerir það mögulegt að hafa þar stórt bú, enda má þar að nokkru leyti nota aðstoð pilta þeirra, er við nám eru í skólanum, og sem svo má heita, að gefið sje með af hálfu ríkissjóðs.

Hv. frsm. meiri hl. (TrÞ) sagði, að skólastjórinn hefði lagt fram fje frá sjálfum sjer í þessu skyni. Má vera, að svo sje, en jeg tel það nú heldur ekkert aðdáunarvert. Og ef um stórfeldar jarðabætur er að ræða fram yfir hið ákveðna afgjald, þá er ekki fyrir það að synja, að fram kunni að koma kröfur til ríkissjóðs, fyrir það, sem skólastjórinn kynni að eiga inni. (Atvrh. MG: Það er fyrirgirt). Það er nú alls ekki víst. Annars er jeg nú alls ekki að benda á þetta af því, að jeg sjái eftir neinu handa þessum mæta manni, en það er fullkomlega heimilt að vekja athygli á þessu. En jeg get tekið undir það hjá hv. þm. Borgf. (PO), sem hann orðaði svo snildarlega vel, að byggingarskilmálarnir hefðu altaf gengið meira og meira í þá átt, sem til hagræðis er fyrir ábúanda. Jeg er honum alveg sammála um þetta. — Jeg get líka fúslega tekið undir það með hv. þm. (PO), að það er leiðinlegt, ef misrjetti á sjer stað milli skólanna, því að það á ekki að geta komið fyrir.

Hv. frsm. meiri hl. mintist á það í sambandi við tillagið til landsspítalans, að stjórnin og flokkur hennar bæri ábyrgð á því, ef till. um það efni kæmist ekki að, og ef byggingunni yrði ekki frestað. Það er rjett hjá hv. þm. (TrÞ), en stjórnin og flokkur hennar hafa þá ábyrgðartilfinningu að vilja standa við gefin loforð. Það kemur stundum fyrir í lífsins sögu, að þó að menn sjái kannske síðar, að eitthvað hefði mátt betur fara öðruvísi, eða orðið þeim sjálfum hagkvæmara, þá eru þeir þó svo heiðarlegir að vilja heldur taka á sig hið óhagstæða en að standa andspænis öðrum sem óáreiðanlegir menn.

Það mun nú víst vera tilgangurinn hjá háttv. frsm. (TrÞ) að skrifa þetta smávægilega aukaatriði á syndareikning stjórnarinnar og Íhaldsflokksins, en ekki býst jeg nú við, að það komi til að gagna honum mikið.

Þá er það líka látið í veðri vaka, að það verði svipur „hinnar harðdrægu íhaldsstjórnar”, sem setji mark sitt á ýmislegt í þjóðarbúinu. (TrÞ: Það er alveg rjett). Já, það vill nú svo til, að það er alveg rjett hjá háttv. þm. En hvernig er sá svipur? Jeg þori að fullyrða það, að hann er alt öðruvísi og miklu hollari en ef hann kæmi af áhrifum háttv. þm. Str. eða þeirra manna, sem honum ráða mest.

Hv. þm. vildi gefa það í skyn. að við íhaldsmenn værum bundnir á flokksklafa stjórnarinnar. En jeg verð að neita því fastlega, að þessi ásökun sje á rökum bygð. Jeg hefi ekki fundið til þess, hvorki fyr nje síðar, og jeg mundi ekki þora að fullyrða það á opinberum fundi, ef það væri þvert um huga minn, að stjórnin hafi á nokkurn hátt reynt að binda mig eða flokksbræður mína á klafa, eða gera okkur að „attaníossum“, sem kallað er. Þetta er aðeins illgirnisleg ásökun, sprottin af vanmætti og vöntun á gildum rökum. Jeg hygg, að það hafi verið sorglegur misskilningur hjá hv. þm. Str., er hann vildi halda því fram, að þetta væri Íhaldsflokknum eða stjórn hans að kenna. Jeg hygg, að ekki verði öðru um kent í þessu efni en óheppilegri rás viðburðanna. Þarf ekki að benda nema á eitt dæmi. Það hefir verið haft til ásökunar stjórninni, hvernig fór um sölu afurðanna haustið 1926. Það var á engan hátt gengissveiflum að kenna, heldur óheppni, sem kom fram í versluninni. En slíkt getur altaf komið fyrir. Jeg sje, að hv. þm. (TrÞ) hristir höfuðið, líklega af því að hann álítur, að jeg segi ósatt. En svo er ekki. Jeg segi satt, það veit veit háttv. þm., sem sjálfur hefir starfað í gengisnefndinni. Jeg veit ekki betur en að 2–3 kaupmenn hafi gert sölusamninga 1926, sem virtust í alla staði hinir hagstæðustu, en atvik þau komu til, sem urðu þess valdandi, að þeir biðu stórtjón af. Og svo er oft, þótt ilt sje að benda á eitt sjerstakt atvik, er slíku valdi. Hvað hv. þm. (TrÞ) snertir, þá veit jeg, að í honum eru svo margar góðar og ærlegar taugar, að ásakanir hans í garð hæstv. stjórnar eru frekar sprottnar af fljótfærni hans en illgirni. Jeg vil benda á eitt mál, sem Íhaldsflokkurinn hefir mjög verið ásakaður fyrir, en það er kjöttollsmálið, einkum í blaði Framsóknarflokksins, „Tímanum“. En þó vita bæði guð og menn, að það mál hefir átt atfylgi beggja flokkanna að fagna, þó að vísu Íhaldsflokkurinn hafi átt meiri þátt í góðum framgangi málsins. Jeg neita því ekki, að það sje rjett hjá hv. þm., að skattamir hafi verið mjög þungir undanfarið, en hafa ekki einnig framkvæmdirnar verið óvenjulega miklar og svo nauðsynlegar, að hæstv. stjórn hlaut að láta undan kröfum manna um að ráðast í þær? Og sje ekki hægt að benda á það, að hæstv. stjórn hafi farið óráðvendilega með fje ríkissjóðs, þá er ekki hægt að ásaka hana neitt. En slíkt hefir enginn getað bent á ennþá. Jeg vildi aðeins taka þetta fram vegna þess, að jeg hlýt að taka minn hlut af þeim hörðu árásum, sem hv. þm. Str. hefir gert á Íhaldsflokkinn og stjórn hans. En þær árásir hafa nú að vísu verið slegnar niður af hæstv. forsrh. (JÞ) og fleiri háttv. þm., og hefir þannig áfellisdómur hv. þm. (TrÞ) að engu orðið. Seinni tíminn mun leiða það í ljós, — sem jeg þó vona, að verði sem lengst að bíða, — þegar hv. þm. skipar eitt sæti í stjórn landsins, að honum munu ekki fara stjórnarstörfin betur úr hendi. Jeg veit að vísu, að hann mun ekki trana sjer mjög fram, enda skortir hann, þrátt fyrir marga góða hæfileika, algerlega vit og þekkingu til þess að fara með fjármál landsins;

Jeg læt svo útrætt um þetta mál.

Jeg gerði aðeins þessa hógværu grein fyrir orðum, sem fjellu hjer í gærkvöldi, og vísa hjer með frá mjer öllum órökstuddum fleipursummælum um Íhaldsflokkinn og þá stjórn, sem hann styður.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.