11.05.1927
Neðri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (1275)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg tek undir það með háttv. 1. þm. Rang. (KIJ), að samanburður fjárlaga mismunandi árabila er einskisvirði, þegar honum er slegið fram með nálægar kosningar fyrir augum, eins og samanburður hv. þm. Str. Jeg hefi athugað þetta mál og er hvergi hræddur við slíkan samanburð, ef hann er rjett gerður. Hv. þm. (TrÞ) endurtók það, sem hann hefir sagt oft áður, að kreppa atvinnuveganna stafi af misstjórn fiármálanna í landinu, og beindi þeirri ásökun til mín. Jeg skal ekkert um það segja, hve mikið af kreppunni stafar af mistökum í fjármálastjórninni, en jeg hygg, að best sje þó að taka þann blettinn, sem svartastur er í þessu efni, en það er útflutningsvara bænda, — kjötið. Ef hv. þm. (TrÞ) vill halda því fram, að það sje mistökum að kenna, hvernig farið hefir með sölu á þeirri útflutningsvöru, þá eru þau mistök ekki hjá landsstjórninni, heldur hjá þeim mönnum, sem nær standa framkvæmdum á þessu sviði og með söluna hafa að gera. En jeg tek ekki undir ásökun þessa efnis, enda þótt hv. þm. (TrÞ) vilji halda slíku fram. Hæstv. atvrh. (MG) hefir svarað því, sem svara þurfti um tekjur ríkissjóðs undanfarin ár og hina þungu skatta. En þeir hafa verið óhjákvæmilegir vegna gamalla skulda. Og jeg veit það, að dómur þjóðarinnar mun verða sá, að þegar góðæri sje, þá sje rjett að nota arð þess til þess að grynna á skuldum landsins. En sú skuldasúpa er orðin of mikil til þess, að góðærið hefði getað borið þjóðina yfir alla þá kreppu, sem nú stendur yfir. Samt sem áður hafa skuldir ríkissjóðs lækkað vegna þess, eins og 7. gr. fjárlagafrv. ber með sjer.

Hv. þm. (TrÞ) mintist á mismun afstöðu Íhaldsflokksins og Framsóknarflokksins til landsspítalans. Er það gott dæmi eins, er greinir meðal annars þessa flokka í sundur.

Það er rjett, að Framsóknarflokkurinn var sóknharður um það að tala um, að í framkvæmdir yrði ráðist. En Íhaldsflokkurinn hjelt þá aftur af, enda er það í samræmi við eðli hans, að hann vill vita fótum sínum forráð í hvívetna, en ekki ráðast í framkvœmdir fyr en sýnt er, að ástæður leyfa. En nú, er á móti blæs fyrirtækinu, þá heykist hv. þm. Str. Kjarkurinn bilar, og nú koma úr þeirri átt ekki óskir um annað en að hætta framkvæmdum. En Íhaldsflokkurinn er staðfastur. Þegar samþykt hefir verið að byrja á framkvæmdum, þá vill hann þrauka áfram, þangað til áforminu er komið í framkvæmd. Jeg játa, að bæði íhald og framsókn er nauðsynlegt, en þegar komið er svo langt sem bygging landsspítalans nú er komið, þá er sú festa, sem ekki lætur bugast við fyrsta mótblástur, meira virði fyrir þjóðina en kviklyndið, kröfuhart en fyrirhyggjulítið og ístöðulaust.