02.03.1927
Neðri deild: 19. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

6. mál, fátækralög

Frsm. (Jón Kjartansson):

Jeg skal reyna að teygja ekki tímann úr þessu, en það er aðeins út af ræðu hv. 1. þm. Reykv. (JakM), sem jeg verð að segja nokkur orð. Hv. þm. talaði nokkuð alment um þetta frv. og sagði það sama, sem jeg sagði hjer í gær, að það eru engar stórvægilegar breytingar á lögunum, sem frv. fer fram á, og taldi það því lítils virði. En jeg er hv. þm. ekki samdóma um það, að þótt breytingarnar sjeu ekki stórvægilegar, sjeu þær allar lítilsvirði. Jeg hygg, að breytingin, sem gerð er við 43. gr., muni fullnægja kröfum þeim, sem komið hafa fram á undanförnum þingum um endurskoðun fátækralaganna. Jeg held, að þær kröfur, sem fram hafa komið, hafi ekki beinst í þá átt að fá miklar breytingar á lögunum, heldur að því, að leiðrjetta það misrjetti, að menn mistu kosningarrjett við að þyggja af sveit. Hæstv. stjórn hefir nú reynt að leiðrjetta þetta, og meiri hl. nefndarinnar er henni samdóma um það, að rjett sje að reyna þá leið, sem stungið er upp á í frv. Jeg er ekki viss um, að þessu frv. hefði verið svo vel tekið, ef farið hefði verið fram á stórfeldar breytingar á fátækralögunum. Mjer er nær að halda, að stjórnin hefði þá fengið þungar ákúrur.

Hv. þm. (JakM) taldi, að það væri ósæmilegt að fara þessa leið, sem stungið er upp á í frv. Taldi, að með því væri verið að fara í kringum ákvæði stjórnarskrárinnar. Þetta er ekki rjett. Það er svo í gildandi lögum, að heimilt er að gefa eftir þeginn sveitarstyrk, og þegar sú heimild er notuð, missa þeir menn, sem eftirgjöfina fá, ekki rjettindi sín gagnvart stjórnarskránni. Þótt þessari heimild, að gefa eftir sveitarstyrk, verði beitt meira en áður, þá er ekki með því verið að fara í kringum ákvæði stjórnarskrárinnar.

Hitt kann vel að vera, eins og jeg tók fram í fyrstu framsöguræðu minni, að það sje nokkuð óeðlilegt að fara þessa leið. Getur vel verið, að sú leiðin þyki aðgengilegri, að fara í stjórnarskrána sjálfa og breyta henni. En við höfum enga vissu fyrir, að með því næðist það, sem við viljum ná. Þess vegna er lagt til, að þessi leið sje farin.

Þá sagði hv. þm., að með því að fara þessa leið væri framið ranglæti gagnvart þeim mönnum, er þyrftu skyndihjálpar við. Hann leit svo á, að þegar maður þurfi skyndihjálpar við, þá muni sveitarstjórnir ekki vilja ganga inn á að telja þann styrk óafturkræfan. Þær myndu hugsa sem svo, að þær geti náð þessu aftur hjá manninum, og yrðu því að hafa styrkinn afturkræfan. En við þetta skapaðist ranglæti gagnvart styrkþega, því að hann mundi missa rjettindi. En jeg hygg, að nú sje farið að fara nokkuð aðra leið, þegar um skyndihjálp er að ræða. Það er ekki farin sú leiðin að veita styrk, heldur er veitt bráðabirgðalán, — skyndilán. Og jeg tel það alveg rjett. Á hvern hátt það verður gert, er rjett að sveitarstjórnir hagi eins og þeim þykir best henta. Borgarstjórinn í Reykjavík hefir tjáð mjer, að það sje mjög að fara í vöxt hjer í bænum að fara þessa leið. Það getur vel verið, að það væri rjett að koma með brtt. við fátækralögin í þessa átt, ef einhverjar sveitarstjórnir kynnu að álíta, að ekki væri fært að fara þessa leið, af því að það væri ekki heimilt.

Þá talaði háttv. þm. nokkuð um fátækraflutninginn og taldi óhæft að halda honum áfram. Jeg er nú ekki samdóma hv. þm. í því, að það sje eins auðvelt að lagfæra þetta eins og hann álítur. Jeg held, að það sje ómögulegt að afnema fátækraflutninginn, nema því aðeins, að það sje gerð stórfeld breyting á öllu fátækraframfæri í landinu, á þann hátt, að gera alt landið að einu framfærslufjelagi. Þótt sú leiðin yrði farin, sem hv. 1. þm. Reykv. talaði um, að skifta framfærslukostnaðinum á milli dvalarsveitar, framfærslusveitar og ríkissjóðs, mundi hnúturinn eigi vera leystur fyrir það. Fátækraframfærið er orðið svo dýrt, að það yrði sumum sveitum alveg ókleift að bera kostnaðinn, og það þó aðeins yrði þá raunverulegs kostnaðar. Við vitum, að margar sveitir eru svo mannfáar og svo illa stæðar, að þær geta ekki borið þungar byrðar. Jeg held þess vegna, að hv. þm. sje ekki nægilega kunnugur ástandinu úti um sveitir landsins til þess, að hann geti dæmt um þetta mál.

Mjer þykir vænt um það, að hv. 1. þm. N.-M. (HStef) vill ekkert hraða sínum till. eða knýja þær til atkvæðagreiðslu, því að allshn. hefir ekki gefist færi á að athuga þær og því gott, að þær megi bíða til 3. umr.