04.03.1927
Neðri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (1309)

6. mál, fátækralög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg gat því miður ekki verið hjer í deildinni, þegar hv. 1. þm. Reykv. (JakM) og hv. 2. þm. Árn. (JörB) hjeldu sínar ræður í gær. Jeg er þess vegna ekki viss um, að jeg geti svarað því, sem þeir sögðu, ítarlega. En þó verð jeg að segja, að jeg hefi farið í þá bestu smiðju um það, hvað hv. 1. þm. Reykv. sagði, því að jeg spurði hann sjálfan, og hefir hann gefið mjer aðalatriðin. Hann sagðist hafa ráðist á frv. með hörku mikilli, og það er reyndar hans siður. Við því er ekkert að segja, og ætla jeg ekki að reyna að fá hann til að breyta út af vana sínum.

Hv. þm. mun hafa sagt, að ekki væri sæmileg aðferð að fara kringum ákvæði stjórnarskrárinnar um sveitarstyrk handa þurfamönnum. Í stjórnarskránni stendur, að þeir menn hafi ekki kosningarrjett, sem standa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. M. ö. o., það gerir ekkert, þótt menn hafi þegið sveitarstyrk, ef þeir hafa endurgoldið hann. Eftir því sem önnur ákvæði stjórnarskrárinnar eru skilin, þá er lagt í vald hinnar almennu löggjafar að skýra þetta hugtak stjórnarskrárinnar. Það er þess vegna auðsætt, virðist mjer, að hin almenna löggjöf á að ákveða, hvað skuli talinn sveitarstyrkur, og líka hvenær hann skuli talinn í skuld.

Um fyrra atriðið veit jeg ekki til, að nokkurntíma hafi orðið ágreiningur, og um seinna atriðið hefi jeg heldur ekki heyrt hreyft neinum ágreiningi fyr en hv. 1. þm. Reykv. gerði það nú. Í því sambandi vil jeg benda á það, að Alþingi hefir oft ákveðið, að styrkur, sem veittur er af almannafje vegna fátæktar, skuli ekki teljast fátækrastyrkur. Það er svo um berklakostnað allan, og einnig sjúkrahúsvist, samkvæmt 77.–78. gr. fátækralaganna frá 1905. Og það hefir verið frá 1905 ákvæði í fátækralögum um það, að vissar tegundir styrkja skuli ekki telja fátækrastyrk. Í þessu frv. er því ekki gert annað en halda lengra áfram á þeirri leið, sem við höfum verið á síðan 1905.

Þá talaði hv. 1. þm. Reykv. um 43. gr. frv., sem mestum ágreiningi veldur, og taldi hana ósanngjarna, meðal annars fyrir það, að ef menn fengju bráðabirgðastyrk, mundi hann sjaldnast veittur sem óendurkræfur styrkur; þannig nytu þeir ekki góðs af þessu ákvæði, sem helst skyldu.

Það er fyrst að segja, að það mun ekki vera algengt, að menn fái styrk aðeins til bráðabirgða. Þó neita jeg alls ekki, að það geti komið fyrir. En þá er að gæta þess, að svo framarlega sem sveitarstyrkurinn er endurgoldinn áður en næsta kjörskrá er samin, þá gerir þetta hlutaðeiganda ekkert til. Í öðru lagi hafa sveitarstjórnir annað ráð, sem líka hefir verið talsvert notað, en það er að veita bráðabirgðalán.

Eftir því sem jeg skildi hv. 1. þm. Reykv., þá var þó höfuðástæða hans fyrir því að vera á móti frv. sú, að fátækraflutningi væri haldið, því að það væri enginn hlutur auðveldari en að komast alveg hjá honum, ekki annað en að skifta kostnaðinum á milli dvalarsveitar og framfærslusveitar. Jú, mikið rjett. Þetta lítur nokkurn veginn út að segja það, en það myndi verða talsvert ilt að koma því í framkvæmd. Því að jeg veit með vissu, að framfærslusveitirnar mundu verða oft og tíðum miklu harðar úti með þessu móti. Hjer um bil allur fátækraflutningur er frá bæjum og út í sveit. Og þó að þessum kostnaði í bæjunum yrði deilt með 2, þá yrði kostnaðurinn oft talsvert meiri og miklu meiri heldur en í sveitinni.

Svo er annað atriði, sem altaf er rætt um viðvíkjandi fátækraflutningi, — hversu ilt það sje og ómannúðlegt gagnvart börnum að flytja þau til. En jeg lít talsvert öðruvísi á það mál. Jeg tel, að í flestum kringumstæðum sje það ekkert ólán að vera fluttur úr bæ og upp í sveit; því að jeg veit, að eins og nú er komið, munu í flestum sveitum ekki valin önnur heimili en góð handa slíkum börnum.

Og þegar það er aðgætt, að þessi börn eru venjulega alin upp við mestu fátækt í bæjunum, þá fæ jeg alls ekki skilið, að nokkur, sem þekkir eitthvað til sveitalífs, álíti það óhapp fyrir börn að vera flutt á góð sveitaheimili.

Jeg man þá ekki eftir fleiri atriðum, sem háttv. 1. þm. Reykv. hafi haft á móti sjerstaklega, og sný mjer að háttv. 2. þm. Eyf. (BSt). Hann kvaðst vera nokkuð vonsvikinn yfir því, að stjórnin hefir ekki breytt alveg grundvelli fátækraframfærslunnar, því að hann hafði hreyft því 1925, þegar hann flutti till. um endurskoðun á sveitarstjórnarlögunum. Gat hann þess, að hann byggist við, að stjórnin hefði athugað málið, en það hefði aðeins ekki orðið ofan á að stinga upp á þessu fyrirkomulagi. Þetta er alveg rjett til getið hjá hv. þm. Henni þótti ekki fært að stinga upp á að gera landið að einu framfærsluumdæmi. Jeg játa, að jeg get ekki sjeð, hvernig hægt sje að fyrirbyggja, að fátækraframfærsla verði misþung á sveitum, nema með því að hafa alt landið eitt framfærsluhjerað. En mjer finst það hinsvegar hafa svo mikla galla, að jeg þori ekki að leggja það til, eins og nú standa sakir. Auk þess má ekki gleyma því, að ríkissjóður tekur mjög mikinn þátt í fátækraframfærslunni í landinu. Hann borgar samkv. 77.–78. gr. fátækralaganna um 60–70 þús. kr. á ári. Og allmikið af berklavarnarkostnaði mundi í raun rjettri mega telja undir þann lið. Svo að það verður ekki sagt, að ríkissjóður hlaupi frá án þess að taka neinn hluta af byrðunum.

Annars býst jeg við, að það sje hugmyndin, að framfærslukostnaði öllum eigi að jafna niður á sveitirnar, líklega eftir ýmsum hlutföllum, ef til vill sömu reglum og niðurjöfnun sýslugjalda. En ýmsir óttast, að framfærslukostnaður yfirleitt á landinu verði þá svo miklu hærri en hann er nú, því að sveitarstjórnir mundu ekki hafa eins sterka hvöt til þess að takmarka kostnaðinn.

Sami hv. þm. mintist á, að það væri eiginlega ekki rjett að láta sveitarstyrkinn vera óendurkræfan, þar sem komið gæti fyrir, að þurfamaður gæti síðar endurborgað. Jeg skal játa, að þetta er að vísu hugsunarrjett. En það er ekki framkvæmanlegt af þeim einföldu ástæðum, að það er aldrei hægt að vita, þegar styrkur er veittur, hvort hlutaðeigandi getur endurborgað eða ekki. Og jeg verð að segja, að það er ekki ósanngjarnt og ekki í ósamræmi við löggjöfina nú, þótt styrkur, sem veittur er vegna vanheilsu og ómegðar eða óhappa, sje óendurkræfur. Við verðum að muna, að allur sjúkrahúskostnaður og allur berklavarnarkostnaður er óendurkræfur, jafnvel þótt vel geti komið fyrir, að hlutaðeigandi verði síðar vel fær að endurgreiða þann styrk.

Jeg sje því ekki annað en að hjer sje aðeins verið að halda lengra áfram sömu braut, sem áður var komið inn á. Jeg sje ekki, að það sje óviðeigandi að láta sömu reglu gilda um veikindastyrk og til dæmis styrk vegna elli og óhappa. Vissulega má telja veikindi eina tegund óhappa. Það er einmitt þetta, sem því veldur, að jeg álít orðalag 43. gr. vera sanngjarnt, að velja skuli á milli þess styrks, sem veittur er án þess að hlutaðeigandi eigi sök á því eftir venjulegum sanngirnismælikvarða, og að dómur um þetta sje lagður í hendur á því opinbera stjórnarvaldi, sem á að vera kunnugast þessum málum. Jeg neita því ekki, að þetta kunni að verða framkvæmt misjafnlega. En jeg vil ekki bera hreppsnefndum eða bæjarstjórnum það á brýn, að þær geri þar vísvitandi rangt. En í stærri bæjum brestur stundum kunnugleika á högum manna, og getur slíkt valdið misrjetti. Mjer skilst, að brtt. á þskj. 80, frá hv. 1. þm. N.-M. (HStef), eigi að koma til umræðu nú, svo að jeg skal fara um þær nokkrum orðum. Hann stingur upp á því að nema burtu allan sveitfestitíma; mjer skilst, að menn eigi að hafa þar framfærslurjett, sem þeir eiga lögheimili, eða áttu það síðast. Jeg verð nú að segja það, að jeg á erfitt með að samræma 3. og 4. brtt. hans við þessa grundvallarhugsjón hans. Mjer skilst, að hjer sje ekki um sveitfesti að ræða, heldur heimilisfang. Ef 1. brtt. hans verður samþykt, þá á hver maður að hafa framfærslu þar, sem hann á lögheimili, og eru því hinar brtt. hans óþarfar. Í 5. brtt. hans segir svo, að menn vinni sjer eigi framfærslurjett með dvöl sinni í skóla, sjúkrahúsi, heilsuhæli eða þesskonar stofnun eða fangahúsi. Það er rjett að segja hjer, að maður vinni sjer ekki framfærslurjett, en jeg skil ekki, hví hann talar hjer um framfærslurjett, en í 3. og 4. gr. um sveitfesti.

Jeg skal svo ekki orðlengja meira um þetta, en vona, að til atkvæða verði gengið áður en fundi slítur.