21.03.1927
Neðri deild: 35. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Brtt. hv. allshn. á þskj. 195 tel jeg ekki hafa mikla þýðingu, með því að efni hennar er venjulega tekið upp í ákvæði reglugerða. í frv. þessu, sem hjer liggur fyrir, 15. gr., eru líka ákvæði um það, að hreppsnefndir hafi umsjón með fjallskilum, refaeyðingu o. fl. Hinsvegar vil jeg ekki setja mig sjerstaklega upp á móti því, að þetta ákvæði verði sett inn í frv., ef hv. nefnd leggur kapp á það, þó að jeg telji það eigi nauðsynlegt vegna þess, að þegar sje nægilega sjeð fyrir þessum málum með reglugerðum.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) kvartaði um, að ekki væri sjeð fyrir auknum tekjum sveitarsjóðanna. Jeg álít, að með útsvörunum sje sveitarstjórnum gert mögulegt að auka tekjur sveitarsjóðanna, ef hreppsbúar eru færir um aukna skatta. Á annan hátt veit jeg ekki, hvernig hægt er að bæta úr þessu, nema þá að farið væri út fyrir hreppana með því að leggja á sýslurnar, eða að láta hreppana fá einhvern hluta af tolltekjum, en mjer er ekki kunnugt um, að óskir hafi komið fram um breytingar í þá átt.

Jeg skal viðurkenna, að jeg minnist þess, að komið hafi erindi frá sýslunefnd Árnessýslu um, að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að auka tekjur sveitarsjóðanna, en jeg minnist þess ekki, að slíkar óskir hafi borist ráðuneytinu annarsstaðar að. Það er alveg rjett, að störf hreppsnefnda eru altaf að aukast, bæði í fræðslumálum, heilbrigðismálum, vegamálum o. fl. En ef hv. þm. vill líta í 27. gr. frv., þá stendur þar, að hreppsnefndir skuli að öðru leyti sinna þeim störfum, er lög ákveða. Nú stendur svo á, að fyrir þinginu liggja frv. til laga um öll þessi mál, sem hv. þm. nefndi, bæði um fræðslumál, heilbrigðismál og vegamál. T. d. má þar nefna frv. háttv. þm. Dal. (JG) um breyting á fræðslulögunum, frv. um breyting á yfirsetukvennalögunum og frv. um breyting á lögum um sýsluvegasjóði. Það er líka óbeinlínis ljettir fyrir sveitirnar, sem felst í ákvæðunum frá 1923 um sýsluvegasjóði, þar getur sýslan fengið háan skatt af fasteignum. Yfirleitt get jeg því ekki betur sjeð en að sæmilega sje fyrir þessum málum sjeð.