04.03.1927
Neðri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

6. mál, fátækralög

Hákon Kristófersson:

Þó að jeg byggist ekki við því, hafa brtt. mínar á þskj. 64 mætt mótblæstri hjer í hv. deild. Jeg verð að segja, að það kemur mjer mjög á óvart, sjerstaklega um 2. brtt., þar sem á móti henni eru sumir af mínum stjettarbræðrum. Jeg hafði einmitt búist við, að sjerstaklega mundu það vera bændurnir, sem ljetu sjer umhugað um hjúin, ef um nokkra væri að tala, og þar af leiðandi mundu þeir styðja þessa breytingartillögu.

Jeg þakka hv. 1. þm. Rang. (KIJ) fyrir ummæli hans um 4. brtt. mína. Jeg verð að halda því fram, að þar sje heppilegar að orði komist en með orðinu „skylt“ í frv. Jeg vil benda á, að svo getur staðið á, að sveitarstyrk þurfi að veita, án þess að hreppsnefnd sje kölluð saman. Með öðrum orðum, að oddviti þurfi oft að taka einn ákvörðun um það, hvort styrk skuli veita. Þegar svo stendur á, hefir þá oddviti vald til að taka einn ákvörðun um það, hvort styrkurinn skuli afturkræfur eða ekki? Jeg verð að halda því fram, að það hafi hann ekki.

Þá vil jeg taka það fram, að jeg er sammála hæstv. atvrh. um, að ákvæði 43. gr. ríði ekki í bága við núgildandi stjórnarskrá, samkv. 29. gr. hennar. Þó að manni sje veittur styrkur og ákveðið sje, að hann skuli niður falla, er það ekki skuld, því að skuld, sem er eftir gefin á hvaða hátt sem er, getur ekki verið kröfuhæf gagnvart þeim, er upprunalega hafði stofnað til hennar.

Mig minnir, að það væri hv. frsm. (JK), sem óskaði þess, að b-liður 5. brtt. væri ekki samþyktur. Með mínum besta vilja get jeg ekki skilið, af hverju hv. frsm. hefir lagt svo ríka áherslu á það atriði, því að í tillögunni felst ekki annað en trygging fyrir því, að rjettur sje ekki fyrir borð borinn. Annars mun jeg, eins og jeg tók fram áður, leggja á vald háttv. deildar, hvort hún aðhyllist brtt. mínar. Mín skoðun er sú, að þær eigi rjett á sjer. Ef skoðun annara ríður í bága við það, er ekkert við því að segja.

Jeg drap á það fyrri, að jeg teldi miður rjett að fella niður fátækraflutninginn, af þeim ástæðum, að jeg býst við, að hinar ýmsu sveitir og hjeruð eigi hægra með að sjá fyrir þurfalingunum í sínu eigin hjeraði. Þetta er hægt að sanna með mörgum dæmum. Mjer er persónulega kunnugt um, að ekki fáum þurfalingum er komið hjeðan upp í sveit, til þess að framfærslukostnaðurinn verði minni, eða með öðrum orðum til þess að ljetta á bænum. Á jeg þar sjerstaklega við ungbörn, þó dæmi sjeu fyrir því um fullorðið fólk líka. par eð bæirnir líta svo á, að hagkvæmara sje fyrir sig að. koma sínum þurfalingum upp í sveit sökum minni meðlagskostnaðar, þá ætti það að vera ábyggilegt sönnunaratriði fyrir því, sem jeg hefi haldið fram, að eðlilegt sje, að sveitirnar vilji hafa þurfalinga á framfæri hjá sjer innansveitar heldur en kosta framfæri þeirra í bæjunum. Það er vitanlega rjett, að jeg lít þar á peningahliðina, og þó undarlegt sje, fer „Alþýðublaðið“ þar rjett með. Tel jeg mig ekkert minni mann fyrir það. — Annars hefi jeg hjer fyrir framan mig skýrslu um úthlutun fátækrastyrks hjer í Reykjavík árið 1925. Virðast þar engin takmörk sett um úthlutunina, og það sorglega er, að þar stendur meðal annars, að mönnum hafi verið veittur fátækrastyrkur vegna vinnuleysis og óreglu. Mönnum er sem sje veittur styrkur fyrir það að nenna ekki að vinna. Þá segir tíðindamaður „Alþýðublaðsins“, að jeg hafi sagt, að sjálfbjargarviðleitnin myndi hverfa, ef till. háttv. 4. þm. Reykv. yrðu samþyktar. Slík voru aldrei orð mín. Jeg spurði aðeins, hvort slík lagaákvæði myndu ekki geta dregið úr sjálfbjargarviðleitni manna, og jeg tók það skýrt fram, að jeg teldi sjálfsagt að veita fátækrastyrk, þegar brýn nauðsyn krefði, hvort heldur það væri sakir ómegðar eða annara óviðráðanlegra kringumstæðna, og jafnframt, að það væri skylda hverrar sveitarstjórnar að hafa glöggar gætur á, að slíkum styrkveitingum væri framfylgt með allri mannúð.

Háttv. 4. þm. Reykv. sagði, að menn vissu, hvað lagfæra þyrfti í þessum málum, en vantaði til þess viljann, og komst meðal annars þannig að orði:

„Jeg held, að það, sem mestu veldur um það, hve erfitt er að koma lagi á fátækramálin, sje ekki það, að menn sjái ekki, hvað aflaga fer, heldur hitt, að viljann vantar“, o. s. frv.

Það þarf mikið þrek til þess að taka sjer dómsvald í hendur og kveða upp slíkan dóm yfir öllum þeim mörgu mönnum, sem eru annarar skoðunar en hann sjálfur. Maður skyldi nú ætla, að menn, sem kveða upp slíka dóma yfir öðrum, gengju á undan með góðu eftirdæmi að líkna þeim bágstöddu. En hjer mun ekki því til að dreifa, slíkt hefir aldrei heyrst um þennan hv. þm. Hann hefir verið varðveittur frá allri góðgerðasemi, eftir því sem jeg veit best. Jeg er því hræddur um, að hjer sannist hið fornkveðna, að þeir gala hæst um að líkna öðrum, sem aldrei hafa svo mikið sem gefið þyrstum svaladrykk eða svöngum saðningu og aldrei hjálpað klæðlausum manni til að hylja nekt sína.

Annars þykist jeg hafa vit á sveitarstjórnarmálum, engu síður en hv. 4. þm. Reykv., þar sem jeg hefi verið við þau riðinn að meira eða minna leyti í 24 ár samfleytt, og geti þessi hv. þm. nefnt eitt einasta dæmi, þar sem jeg hafi misbeitt valdi mínu og gengið á rjett lítilmagnans, þá mun jeg viðurkenna, að eitthvað rjett kemur af hans vörum.

Að jeg nefndi nafn vissrar persónu í þessum umr. í fyrradag, var ekki af því, að jeg með því væri að draga hana inn í umr. á neinn óviðurkvæmilegan hátt, heldur nefndi jeg hana sem dæmi, máli mínu til sönnunar, af því að jeg bjóst við, að sá háttv. þm., sem jeg var að svara, myndi þekkja hana. Jeg mótmæli því algerlega, sem stendur í „Alþýðublaðinu“, að jeg hafi dregið hana inn í umr. á óþinglegan hátt. Þessi ummæli blaðskækilsins eru því ekkert annað en tilraun til að reyna að sverta náungann, eins og því er svo mjög títt. (MJ: það verður ljóta greinin, sem kemur í „Alþýðublaðinu“ á morgun). O, jeg hefi þá fyr heyrt þjóta í þeim skjá og staðið jafnrjettur eftir þær vindgolur. (Hlátur).

Þá hefir hv. 4. þm. Reykv. komið með brtt. á þskj. 95. Henni gæti jeg fylgt, ef hann aðeins vildi stytta hana töluvert, og það veit jeg, að hann gerir, því við erum altaf sammála, nema þegar hann fer út í ólukkans öfgarnar. Annars býst jeg við, að jeg sje í hjarta mínu meiri jafnaðarmaður en hann, (Hlátur), því að það er nú svo með marga þessa jafnaðarmenn, að þeir meina minst af því, sem þeir halda fram. Þó er undantekning t. d. með Ólaf Friðriksson, hann virðist hafa hugsjón, sem hann berst fyrir í fullri einlægni, þó jeg og aðrir sjeu honum andstæðir vegna öfga þeirra, sem hann varpar fram sínu máli til stuðnings. Að því leyti er hann miklu heiðarlegri en háttv. 4. þ. m. Reykv., sem ekkert meinar að mínu áliti af öllu sínu jafnaðarmannatali. Meinar kannske þessi háttv. þm., að ekki sje rjett að taka börnin frá foreldrunum, þegar þau líða allskonar skort hjá þeim? Jeg býst ekki við því. Og hvernig eiga t. d. sveitarstjórnir að fara að, þegar fluttar eru á þær úr kaupstöðunum stórar fjölskyldur á haustin, ef ekki má skifta þeim niður að einhverju leyti á heimilin. Ekki er hægt að láta þær hafa jarðnæði þá, og víða er þannig húsum háttað, að ekki er hægt að koma þeim fyrir á eitt heimili.

Jeg á nefnilega ekki við að búa til moldarkofa, sem aldrei er kveikt ljós í allan veturinn, eins og hv. þm. var að tala um í fyrradag, að hann vissi dæmi til að hefði verið gert. Annars ímynda jeg mjer, að sú saga hafi verið úr lausu lofti gripin.

Þá vil jeg taka það fram, að jeg er fús til að fallast á síðari málslið brtt. á þskj. 95, að sveitarstjórnir eigi að vanda val staðanna, sem börnunum er komið fyrir í. (HjV: Þessi málsgrein er í gildandi lögum). Já, en ekki eins orðuð. Þá hefi jeg og töluverða tilhneigingu til að fylgja tillögunum á þskj. 80, því að þær ganga í þá átt að leysa þann hnút, sem allir eru óánægðir með, sem sje atriðið um sveitfestidvölina. Annað mál er það, hvort þær eru allar í fullu samræmi við það, sem meint er með þeim, en það mætti laga til 3. umr.

Að síðustu nokkur orð til háttv. 4. þm. Reykv. Jeg held, að varlega sje farandi í það að brigsla öðrum um, að þeir sjeu á móti þeim, sem minni máttar eru, þó að menn greini á í skoðunum. Jeg legg mest upp úr framkomu manna í þeim efnum sem öðrum, hvað þeir sýna í verkinu, því „á ávöxtunum skulið þið þekkja þá“. Verður það nú sagt um hv. 4. þm. Reykv., að hann hafi öðrum fremur sýnt það í verkinu, að hann vilji hjálpa þeim, sem bágt eiga? Hvað hefir hann kannske gert til þess að lagfæra hið óeðlilega háa verð, sem verið hefir á nýjum fiski nú um langan tíma hjer í Reykjavík, sem bæði fátækir og ríkir hafa orðið að búa við? Jeg veit það ekki, og það veit víst enginn. Þetta er sagt sem dæmi til að benda á, að hv. 4. þm. Reykv. hefir sífelt á vörunum tal um bætt kjör almennings, en er manna sístur hvað allar framkvæmdir snertir því viðkomandi. Það má vel vera, að það hefði verið erfitt viðfangs að lagfæra það, en eitt spor í áttina fyrir málefnið hefði honum ekki verið vorkunn að stíga, en svo mikið hefir hann einu sinni ekki gert fyrir þá fátæku.

Sleppi jeg svo að fara lengra út í þetta mál nú, en gerist þess þörf síðar, vænti jeg, að hæstv. forseti gefi mjer leyfi til að bera af mjer sakir.

Læt jeg því staðar numið, svo aðrir geti tekið til máls og tíðindamaður „Alþýðublaðsins“ geti truflunarlaust skrifað hugleiðingar sínar.