16.03.1927
Neðri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1758 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

6. mál, fátækralög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Þær brtt., sem jeg ætla aðallega að gera að umtalsefni, eru brtt. þeirra hv. 4. þm. Reykv. (HjV) og hv. 1. þm. N.-M. (HStef), og mun jeg þá fyrst snúa mjer að brtt. hv. 4. þm. Reykv. á þskj. 115.

Aðalbreytingin þar miðar að því að gera alt landið að einu framfærsluhjeraði. Um þetta get jeg verið fáorður, því að jeg ljet í ljós þá skoðun mína við fyrri umr. þessa máls, að slík breyting mundi óheppileg, enda líklegt, að fátækraframfærslan yrði dýrari á þann hátt. Og sömu skoðunar hygg jeg, að margir fleiri sjeu. — Beinna sannana um þetta er ekki hægt að krefjast fremur en um aðra óorðna hluti, en mjög miklar líkur eru til, að kostnaður við fátækraframfærslu landsins verði meiri, þegar þeir fjalla um þau mál, sem ekki eiga beint eða beinlínis að borga brúsann.

Jeg tek þá fyrir í einu lagi 8 fyrstu brtt. og 13. brtt. líka, því að þær miða allar að sama marki. Þó er 4. brtt. nokkuð sjerstök. Þar stendur, að „danskir ríkisborgarar heimilisfastir hjer á landi eiga sama framfærslurjett sem íslenskir ríkisborgarar, meðan þeir dvelja hjer“.

Mjer er ekki alveg ljóst, hvað hv. þm. meinar með þessu. Samkvæmt sambandslögunum erum við skyldir til að leggja slíkum mönnum fje, þarfnist þeir þess, en fáum það síðan endurgreitt af framfærslusveit þeirra í Danmörku. Jeg veit ekki, hvort háttv. þm. hefir athugað þetta, og vil því vita, hver meining hans er með þessari brtt., og geymi svo frekari athugun hennar, þangað til hann hefir talað fyrir henni.

Um 13. brtt. er það að segja, að óhugsanlegt er, að hana megi samþykkja, því að þótt svo væri ákveðið, að allar sveitarstjórnir sendu reikningsskil fyrir janúarmánaðarlok hvert ár í stjórnarráðið, þá getur það auðveldlega dregist lengra fram á veturinn, svo að óhugsanlegt er að innheimtum og endurgreiðslum verði hægt að ljúka fyrir 1. júlímánaðar. Þó segir í brtt., að þetta skuli gert, en það verður bara alls ekki hægt, svo að þá er meiningarlítið að bera fram slíkar breytingar.

Jeg hlýt líka að skilja þessa 13. brtt. svo, að öllum fátækrakostnaði eigi að jafna niður eftir framtali tekna árinu áður, þó að það komi ekki beinlínis fram. En nú er kunnugt, að þessar tekjuskýrslur er ekki hægt að fá fyr en svo seint, að það mundi seinka niðurjöfnuninni mikið.

Um a-lið 9. brtt., við 43. gr., þarf jeg ekki að vera margorður. Það er ekki nema sjálfsagt, að sveitarstjórnir hafi ákvörðunarvald um það, hvenær heimilt sje að gefa eftir þeginn sveitarstyrk, en jeg held mjer við það, sem stendur í frv., að það megi gerast eftir að „2 ár eru liðin frá því, að þurfamaðurinn þáði af sveit“, og tel því enga bót, að það megi gerast „hvenær sem er“.

Um hina liði 9. brtt. verð jeg að segja það, að mjer finst þeir koma klaufalega við. Fyrsta málsgr. 43. gr. segir, að heimilt sje sveitarstjórnum að gefa upp þeginn sveitarstyrk, og þá er undarlegt, að á eftir komi margar nýjar málsgreinar um vissar tegundir manna, sem undanþegnar sjeu því, að styrkur þeirra skoðist sveitarstyrkur. Það má að vísu segja, að hjer sje um formsatriði að ræða, en þó klaufalega að orði komist.

Annars get jeg ekki gengið inn á, að rjett sje að taka út úr stóran flokk manna og sagt sje við þá: „Ykkar styrkur skal aldrei afturkræfur“, og það jafnvel menn, sem vitanlegt er um, að vel geta hafa þegið af sveit, ýmist fyrir óreglu, leti eða ómensku. Jeg vil ekki, að þessu sje breytt, heldur að hreppsnefndirnar ráði þar algerlega, enda kvíði jeg ekki, að þær verði hlutdrægar í þessu efni, er til þeirra kasta kemur, hverjum skuli gefa upp og hverjum ekki.

Eins og jeg hefi margtekið fram áður, er það ekki rjettur mælikvarði í þessu efni, að þeginn sveitarstyrkur skuli ekki endurkræfur, ef þiggjandi hefir börnin heima hjá sjer. Hann mundi oft ekki geta haft börnin hjá sjer, og verða kannske að borga hærra með þeim í dvöl, en kostað hefði heima. Það er því miklu sanngjarnara að leggja þetta á vald hreppsnefndanna, því þó að búast megi við misjöfnu mati á ýmsum stöðum, þá hefir þó löggjöfin sett sanngjarnar reglur til þess að fara eftir í þessu efni.

Þá er það brtt. við 48. gr., að barnsfeður megi ekki afplána í fangelsi meðlag með börnum sínum.

Hv. 4. þm. Reykv. vill líkja þessu við barsmíðahegningu. En þar er ólíku saman að jafna. Þessu ákvæði á ekki að beita nema víst sje, að kenna megi viljaleysi á því að borga meðlagið, en ekki getuleysi. Jeg sje ekki ástæðu til að fara að vernda þessa herra, sem gera það að atvinnu að unga út krökkum, en smeygja sjer undan því að borga með þeim einn einasta eyri. Jeg hefi vitað dæmi þess, að slíkir menn hjer í höfuðstað landsins haldi einn eða fleiri reiðhesta, er þeir sjást flengríðandi á úti um borg og bý. Ef slíkir menn væru látnir afplána í fangelsi meðlag barna sinna, ætli þá rynnu ekki á þá tvær grímur, og þeir sæju þann kost vænni að hætta við hestahaldið og reiðmenskuna, en leggja heldur með börnunum?

Þá er það 14. brtt. Hún er við 53. gr. og er áreiðanlega bygð á misskilningi og getur því ekki staðist. Má því alls ekki samþykkja hana. En út af þessum róttæku brtt. háttv. 4. þm. Reykv. vil jeg benda á, að ef þær verða samþ., þá mun þurfa að endurskoða frv. strax á næsta þingi. Það gerbreytir öllu málinu, ef þessar róttæku breytingar á upp að taka. Jeg hlýt þess vegna að vera eindregið á móti brtt. hv. 4. þm. Reykv.

Frá meiri hl. allshn. hafa komið fáeinar brtt., sem jeg hefi ekkert að athuga við.

Þá kem jeg að brtt. hv. 1. þm. N.- M. (HStef). Þær ganga eins og kunnugt er út á það, að hver maður skuli hafa framfærslu þar, sem hann er heimilisfastur eða hann sannanlega átti síðast lögheimili. Við þetta er það að athuga, að það verður sennilega erfitt og nokkuð mikil fyrirhöfn að fá úr þessu skorið. Og ef það er meiningin að komast hjá skriftum og jafnvel eftirgrenslan um sveitfesti, þá bætir þetta næsta lítið úr. Þá finst mjer sanngjarnari regla og hægari í framkvæmd, sem hv. 4. þm. Reykv. (HjV) hefir stungið upp á, að hver fái styrk þar, sem hann dvelur. Reyndar dylst mjer ekki, að nokkrar líkur eru til, að hreppsnefndir reyni að koma af sjer mönnum, sem eru að verða þurfandi fyrir styrk. En þó lægi þessi uppástunga nær heldur en hitt.

Í brtt. hv. 1. þm. N.-M. er haldið orðinu sveitfesti á sumum stöðum, en mjer skilst, að um eiginlega sveitfesti sje ekki að ræða eftir hans till. Það er framfærslurjettur, en ekki sveitfesti, enda hefir hv. þm. líka breytt þessu rjettilega á sumum stöðum. Mjer finst líka, að það sje í raun og veru brot á þeirri hugmynd, sem liggur til grundvallar fyrir brtt. hv. þm., að hann vill, að hver maður sextugur haldi þeirri framfærslusveit, sem hann á þá. Jeg skil ekki, hvers vegna má ekki nota sömu reglu um menn, sem eru sextíu ára og eldri, og aðra menn. Getur það orðið til þess að hrekja þá til og frá, og komið verði í veg fyrir, að þeir setjist að þar, sem þeir vilja. Úr því að engin eiginleg sveitfesti á að ráða alment, þá finst mjer, að um sextuga menn eigi að gilda sama regla og aðra. En þegar ákveðinn er sveitfestitími, þá er full ástæða til þess að láta sextuga menn ekki geta unnið sjer sveit úr því. Þetta hefir líklega vakað fyrir hv. þm.

Ennfremur finst mjer 7. brtt. vera brot á þessari grundvallarhugsun hv. þm. Hvernig stendur á því, að ekkja má ekki eiga framfærslusveit þar, sem hún er heimilisföst? Hvers vegna fremur þar, sem maður hennar átti síðast heima? Jeg sje ekki annað en að það sje einfaldast að láta ekkjuna eiga framfærslu í heimilissveit sinni, sem ekki þarf í öllum tilfellum að vera sama og manns hennar. Sama er að segja um hjón, sem eru skilin, að jeg skil ekki, hvers vegna konan á ekki að hafa framfærslusveit þar, sem hún er heimilisföst. Oft er það, að hjón, sem ætla að skilja, hafa slitið samvistum og þurfa þá ekki að eiga heimili í sama framfærsluhjeraði. Alt þetta sýnist mjer brot á þeirri hugsun, sem liggur bak við till. hv. þm.

Þá vildi jeg bera saman 2. brtt. við 21. gr. og 8. brtt. við 29. gr. í 2. brtt. segir svo: „Eftir 16 ára aldur á hver sá, sem hefir íslenskan ríkisborgararjett, framfærslurjett í þeirri sveit, þar sem hann á lögheimili, eða sannanlega átti síðast lögheimili“.

En svo kemur 29. gr., sem samkv. brtt. hv. þm. á að hljóða þannig: „Maður 16 ára að aldri á framfærslurjett í fæðingarsveit sinni, þangað til hann öðlast framfærslurjett í annari sveit“.

Eftir þessu getur maður 16 ára átt framfærslurjett á tveim stöðum, en það getur ekki staðist. Mjer skilst, að ef 2. brtt. verður samþ., þá sje brtt. við 29. gr. óþörf; ætti hann að koma með skriflega brtt. um að fella hana burt. Annars vil jeg segja það um þessar brtt., að jeg álít of snemt að taka upp þessa reglu. Við ættum fyrst að sjá, hvernig 4 ára sveitfestitímabilið reynist. Það er svo, að í lok þessa árs kemur það fyrst til að sýna sig fyllilega, því að þá eru 4 ár liðin frá því að breytingin var gerð. 1923 var sveitfestitími styttur úr 10 árum niður í 4 ár, og jeg held það sje nægilegt stökk í bili, og að ekki væri til bóta að afnema alla sveitfesti.