21.03.1927
Neðri deild: 35. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skil ekki í því, að þörf sje á að bera þetta undir háttv. deild. Jeg fyrir mitt leyti skal gjarnan leyfa það, að þetta mál sje tekið af dagskrá nú, ef hv. þm. Barð. (HK) hefir ekki haft tíma til að athuga frv. (HK: Jeg sagði, að jeg hefði ekki vitað, að þetta mál var á dagskrá). Jeg er hálfhræddur um, að hv. þm. Barð. (HK) hafi sofið illa í nótt; mjer finst hann vera dálítið úrillur. Annars vil jeg benda hv. þm. á það, að sumt af þeim ákvæðum, sem hann talaði mest á móti, hefir nú staðið í lögum í 20 ár, og ef hv. þm. (HK), sem hefir um langt skeið átt sæti í hreppsnefnd, hefir ekki veitt þeim eftirtekt, þá virðist ekki ástæða til að ætla, að þau sjeu mjög varhugaverð. Hvað snertir ákvæði frv. um það, að taka megi sektir lögtaki í eignum oddvita, þá sje jeg ekki, að neitt sje athugavert við það, ef hann á sjálfur sök á vanskilunum. Jeg sje ekki, að nein ástæða sje til að óttast, að þeim ákvæðum verði misbeitt. Jeg vil t. d. benda á ákvæðin um það, að skylt sje að greiða þinggjöldin á manntalsþingum. Mjer er alls ekki kunnugt um, að nokkur sýslumaður hafi misbeitt þeim ákvæðum. Hinsvegar hlýtur hv. þm. að sjá, að einhvern gjalddaga verður að ákveða.

Hv. þm. (HK) talaði um, að frv. væri ekki annað en ný bót á gamalt fat. Jeg get nú ekki sjeð, hvers vegna ætti endilega að breyta öllu, svo að ekkert væri gamalt eftir, jafnvel ekki það, sem verið hefir í gildi í áratugi og aldrei hefir verið fundið neitt að. Um oddvitalaunin er það að segja, að þau voru hækkuð í háttv. Ed. úr 4 kr., sem stjfrv. gerði ráð fyrir, upp í 5 kr., og jeg get sagt hv. þm. það, að margar raddir hafa heyrst um það, að launin væru of lág. Hvort oddvitarnir hafa sjálfir átt þar frumkvæðið eða aðrir hreppsnefndarmenn, get jeg ekki sagt. En það er hægt að sýna ályktanir um þetta efni, sem gerðar hafa verið á hreppsnefndarfundum, en þar er þess ekki getið, hvort oddvitar hafi sjálfir vakið máls á því eða aðrir hreppsnefndarmenn. Störf oddvita eru nú orðin mörg og umfangsmikil, og mjer er kunnugt um, að margir þeirra vilja helst losna við starfann og aðrir ófúsir til að taka hann að sjer.