16.03.1927
Neðri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (1330)

6. mál, fátækralög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal ekki vera langorður, en út af ræðu hv. 2. þm. Eyf. (BSt) vil jeg segja nokkur orð. Hann vildi halda því fram, að frv. væri mestmegnis uppprentun gömlu laganna. En það er misskilningur. Allar breytingar við þau, sem gerðar hafa verið á síðustu 20 árum, eru teknar með, og er það mikill hægðarauki að hafa gildandi ákvæði öll í einu lagi. Hitt er satt, að þrátt fyrir ýmsar breytingar, er aðallínunum í framfærslumálunum haldið. Og það er af þeirri einföldu ástæðu, að engin rödd hefir heyrst um að breyta þeim, ef jeg fráskil hv. þm. Borgf. (PO), er hreyfði því fyrir nokkrum árum að gera landið alt að einu framfærsluhjeraði. En jeg býst ekki við, að hann kæri sig um, að þeirri hugmynd sje haldið á loft nú.

Jeg skil mætavel, hvað veldur óánægju háttv. 2. þm. Eyf. (BSt). Hún stafar af því, að ekki hefir verið tekin til greina hugmynd hans um bygðarleyfi. Jeg hjelt þó, að hann ætlaði að sætta sig við þau úrslit þess máls að fela stjórninni það til athugunar til næsta þings, og ljeti vera að hefna sín á öðrum frv. fyrir þessar sakir. — Hann spurði, hvers vegna ekki hefðu verið gerðar breytingar á sveitfestitímanum. þær voru gerðar síðast 1923. Og fyrst er að sjá, hvernig þær reynast, áður en breytt er á ný. Mjer skildist á hv. þm. Mýr. (PÞ), að hann áfeldist stjórnina fyrir, að hún hafi ekki rannsakað, hvern kostnað það hafi í för með sjer, að ríkið sje eitt framfærslufjelag. Jeg veit ekki, hvernig hann hugsar sjer slíka rannsókn fyrirfram. Reynslan ein getur skorið úr um, hvað slíkt kann að kosta.

En við, sem erum á móti slíku fyrirkomulagi, höldum því fram í samræmi við reynsluna, að óvarkárni í útgjöldum magnist jafnan, er menn þurfa ekki sjálfir að bíta úr nálinni, sbr. t. d. það algenga fyrirbrigði í viðskiftum sveitarstjórna, að dvalarsveit, er leggur fram fje, þykir ekki hafa sýnt þá hagsýni, er framfærslusveit megi við una.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að engin rannsókn hefði farið fram. Veit hann þá ekki, að öllum sveitarstjórnum og bæjarstjórnum hefir verið skrifað, og þær beðnar umsagnar um málið, að láta uppi álit sitt á gildandi lögum og koma fram með þær breytingar, er þær teldu æskilegar? Þetta ætti honum þó að vera kunnugt sem bæjarfulltrúa. Um undirtektirnar er það að segja, að þær hafa margar svarað og það sumar rækilega, en ekki ein einasta stungið upp á því fyrirkomulagi, er hann vill fá. — Hann kvað það óheppilegt að hafa svo mörg „ríki í ríkinu“, sem viðgengist með þeirri skipun, er nú ræður. Væri með þeim einlægar erjur og ósamkomulag. Jeg verð nú að segja það, að jeg hefi ekki orðið var við svo sjerlega mikla óánægju, að orð sje á gerandi. Það er satt að vísu, að talsverð fyrirhöfn er þessum málum samfara, en enginn skyldi ætla, að þeirri fyrirhöfn sje rutt úr vegi með brtt. hv. þm. Jeg er viss um, að ómögulegt verður að koma lagfæringu að gagnvart ósanngjörnum reikningum, er ríkisstjórn kunna að berast. Þar er ekkert úrskurðarvald, samkv. brtt. Fylgi skilríki reikningi, á hann að takast til greina rannsóknarlaust. — Úr þessu mœtti þó kannske bæta með viðaukatill. En eins og komið er, erum vjer hjer með 3. umr. málsins og getum því ekkert gert, nema frv. komi aftur frá hv. Ed.

Jeg get ekki fallið frá þeirri skoðun, að ósanngjarnt sje að gefa vissar reglur um það, hvenær þurfamannastyrkur skuli ekki afturkræfur. Jeg held því fast fram, að sanngjarnast sje að fela hreppsnefndum og bæjarstjórnum að gera út um það. Þær eru styrkþegum kunnugastar og ættu að vita gerst um ástæður þeirra allar. Menn eru að vísu ekki hræddir um afgreiðslu þessa í sveitunum. En það er í kaupstöðunum, og þá sjerstaklega hjer í Reykjavík, að jeg hygg, að sumir sjeu hræddir við að fela bæjarstjórn slíkt úrskurðarvald, og þó að ástæðulausu. Því að svo mikla samviskusemi ætla jeg slíkum stjórnum, að ef þær eru í vafa og hafa ekki næga þekkingu á högum viðkomanda, láti þær frekar hallast á þá sveifina, er sje styrkþega í vil. — Það þarf t. d. alls ekki að vera sanngjarnt, að maður, sem á 4 börn, fái sveitarstyrk án endurgreiðslu. — Maður tekur auð að arfi. En fyrir slóðaskap og ómensku eyðir hann fje sínu og kemst á vonarvöl. Hvaða heimtingu á slíkur maður til að hafa kosningarrjett og ráða um almannamál, sem hefir sýnt sig óhæfan til að sjá sínum eigin fótum forráð?

Hv. þm. (HjV) spurði, hvers vegna ekki væru teknir hestarnir af þessum barnsfeðrum, sem ekki borguðu. Hann ætti ekki að þurfa að spyrja. Auðvitað hafa þeir vit á að láta hestana ekki heita eign sína; eiga ekki neitt til, er spurt er um eitthvað til þess að taka lögtaki.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) þarf jeg litlu að svara. Hann viðurkendi, að athugasemdir mínar væru rjettmætar, og hefir komið fram með brtt. til þess að ráða bót á því. — Viðvíkjandi 43. gr. skal jeg geta þess, að jeg tel sjálfsagt, að málið verði ekki afgreitt frá þinginu fyr en sjeð verður um afdrif stjórnarskrárbreytingarinnar. Ef ákvæðið um að fátækrastyrkur valdi missi kosningarrjettar verður felt burtu úr stjórnarskránni, fellur 43. gr. þessa frv. niður. Sem sagt, ætla jeg að sjá til, að frv. verði ekki að lögum fyr en útsjeð er um stjórnarskrármálið.