16.03.1927
Neðri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (1332)

6. mál, fátækralög

Hjeðinn Valdimarsson:

Athugasemdir hæstv. atvrh. við fátækralagafrv. bera það með sjer, að hjer eru ekki á ferðinni neinar stórvægilegar breytingar, nema þá helst 43. gr. Hitt eru mest breytingar á tilvísunum í lög, eða ákvæði úr öðrum gildandi lögum feld inn í fátækralögin.

Það, sem fundið hefir verið fátækralögunum til foráttu, er ekki einungis missir kosningarrjettar þurfamanna, heldur yfirleitt öll meðferð á þurfalingum, og þá sjerstaklega fátækraflutningur og ójöfnuðurinn um fátækragjöldin í hreppunum. Þótt óskir hafi komið fram um að breyta því, hefir hæstv. stjórn ekki sjeð ástæðu eða talið fært að taka það til greina, að því er sjáanlegt er. Brtt. mínar mundu hafa í för með sjer, að fátækraflutningur hyrfi.

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) lagði mikla áherslu á ójöfnuðinn milli sveita, og það hefir hæstv. atvrh. með frv. heldur alls ekki hugsað um.

Hv. þm. V.-Sk. (JK) sagði, að það væri einkennilegt að vilja heldur búa við ranglætið en leiðrjetta það með breytingu stjórnarfrv. í 43. gr. Við því er það að segja, að þar kemur til greina aðeins einn lítill liður af öllu ranglæti fátækralaganna, og þannig, að sveitarstjórnum er heimilað, þegar þeim sýnist, að lagfæra þetta eftir þeirra eigin mati. Á því er sá galli, að borgaraleg rjettindi eru látin undir mat hverrar sveitarstjórnar. Það er vandsjeð, hvort mikið yrði unnið við það, þó að nokkur hluti manna fengi rjettindi hjá sveitarstjórnum, á móts við fordæmið og þá hættu, sem slík ákvæði hafa í för með sjer, að kosningarrjetturinn verði undir kominn mati stjórnmálaflokka í bæjum og sveitum.

Hv. þm. V.-Sk. gat þess, að ef kostnaðinum yrði jafnað niður, mundi það ýta undir, að sem mestu fje yrði eytt úr sveitarsjóði. Það fæ jeg ekki sjeð. Sveitarsjóður fær ekki endurborgað annað en það, sem hann hefir borgað út, og getur því ekki haft neinn gróða. Það væri rjett að athuga, hvernig varið væri fátækraframfærslu í ýmsum sveitum. En það mun vera sjaldgæft, að eytt sje of miklu. Hinu hefir venjulega verið fundið að, að fjeð væri við nögl skorið. En það væri aldrei hægara að athuga fátækramálin í heild heldur en þegar skýrslur úr öllum hreppum landsins kæmu saman í stjórnarráðinu. Þar væri þá saman kominn allur sá fróðleikur og þekking um málið, sem hægt væri að fá, og þá þekkingu væri auðvelt að hagnýta, er reynsla kæmi á lögin, og endurskoða þau að nýju, ef þörf væri.

Mjer virtist hæstv. atvrh. aldrei geta skilið brtt. mínar. Hann er altaf að tala um, að þessir menn geti lent á sveit vegna ýmiskonar óreiðu og óreglu, þeir kunni að hafa fengið arf og eytt honum. Hvaða ástæða sje þá til þess, að þeir hafi kosningarrjett? Jeg verð að segja, að ýmsir menn gera lítið annað en að eyða fje og er einungis haldið uppi af foreldrunum, en halda samt sínum kosningarrjetti. Í öðru lagi segir þessi brtt. mín, að menn eigi að hafa þegið af sveit eingöngu af þeim ástæðum, sem þar eru greindar, og öðrum ekki, þ. e. a. s. af ómegð, heilsuleysi eða elli, en ekki af óreglu eða annari óreiðu. Jeg vildi óska, að hæstv. atvrh. hjeldi sjer við brtt. mínar eins og þær eru, en ekki eins og hann vildi helst að þær væru til að tala þeim í gegn.

Hæstv. atvrh. gat þess, að hann vildi fresta því, að fátækralagafrv. yrði að lögum, þangað til sjeð væri, hvort samþykt yrði stjórnarskrárbreyting um þetta efni. Jeg veit ekki, hvort það er rjettur skilningur hjá mjer, að hæstv. atvrh. vilji stuðla að því, að sú stjórnarskrárbreyting gangi fram. Ef svo er, vil jeg þakka honum það og lofa honum styrk mínum og flokksbróður míns í hv. Ed. til þess.