10.05.1927
Efri deild: 70. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1796 í B-deild Alþingistíðinda. (1343)

6. mál, fátækralög

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg tel ekki þörf á langri framsögu af hálfu nefndarinnar. Það er alllangt síðan málið var afgreitt frá hv. Nd. og mun hv. þdm. kunnugt. Þessi endurskoðun, sem fram hefir farið á fátækralögunum, var einkum í því skyni gerð að færa þau saman í eina heild. Þau voru orðin talsvert gloppótt, af því að búið var að fella sum ákvæði þeirra úr gildi og setja ný lög um sumt, sifjalögin. Á því, sem eftir var af fátækralögunum, hefir lítil breyting verið gerð að öðru leyti en því, að nú eru sett ákvæði um, að styrkur til þurfamanna skuli ekki ætíð vera endurkræfur. Nokkrar smábreytingar voru gerðar á frv. í Nd., en ekki neinar, sem verulegu máli skifta. Um þessa aðalbreytingu er ekki annað hægt að segja en rjettlátt sje, að sveitar- og bæjarstjórnir geti í sumum tilfellum gefið eftir veittan þurfamannastyrk. Það geta verið þær ástæður fyrir hendi, að slíkt sje sanngjarnt og rjett, og það má gera sjer von um, að þessi rjettur verði ekki misbrúkaður af þeim, sem hann er fenginn í hendur. Nefndin hefir borið fram nokkrar brtt. við frv., og skal jeg geta þeirra lauslega.

1. brtt. er aðeins orðabreyting. Á tveim stöðum í 10. gr. er notað orðið „eður“, en alstaðar annarsstaðar „eða“. Þykir nefndinni betur fara, að sama orðmyndin sje notuð alstaðar. Fyrri brtt. við 21. gr. er aðeins leiðrjetting á prentvillu, að í stað „vistfestur komi „vistfastur“. Með síðari brtt. við sömu grein leggur nefndin til, að í stað „þeim árum“ í niðurlagi greinarinnar komi: síðustu 10 árum. Með þessu ákvæði er komið í veg fyrir, að maður geti unnið sjer rjett til sveitarstyrks í einu framfærsluhjeraði eftir annað með mjög stuttu millibili.

Næsta brtt. er við 36. gr., að í stað orðsins „slík“ í 2. málsgr. komi „góð“. Greininni hefir verið breytt í hv. Nd., en þess ekki gætt að samræma orðalagið, svo að ef þetta er látið standa óbreytt, verður meiningin alt önnur en ætlast er til.

Þá kemur brtt. við 43. gr., og leggur nefndin til, að á eftir 2. málsgr. sje bætt nýrri málsgrein þess efnis, að ákvörðun sveitarstjórnar, sem um getur í 1. og 2. málsgr., megi skjóta til sýslumanns í sveitum, en atvinnumálaráðherra í kaupstöðum. Áður voru engin ákvæði um að áfrýja mætti úrskurði sveitarstjórnar eða bæjarstjórnar, en nefndinni fanst rjettara að hægt væri, ef þurfa þætti, að áfrýja til þessara stjórnarvalda.

Þá er brtt. við 45. gr. þar leggur nefndin til, að í stað orðanna „eða að minsta kosti oddviti hefir“ í fyrri málsgr. komi: og styrkþegi, ef hann er innsveitismaður, hafa. Það hefir verið álitin full sönnun fyrir því, að einhver hafi þegið sveitarstyrk, ef það hefir verið fært inn í bækur hreppsins og meiri hluti hreppsnefndar eða oddviti skrifað undir. En nefndin veit til þess, að þetta hefir verið misbrúkað, og þótti því rjettara að setja ákvæði um, að styrkþegi skyldi undirskrifa, ef hann væri innsveitismaður. Annars skyldi það talin fullgild sönnun, ef meiri hl. hreppsnefndar skrifaði undir.

6. brtt. nefndarinnar er við 48. gr. Leggur hún til, að orðin „ef ekki er um seinan“ í síðustu málsgrein falli burt. Það sýnist villandi að hafa þetta orðalag, því að sveitarstyrkur fyrnist ekki, og verður aldrei um seinan að krefja hann inn.

Við. 50. gr. vill nefndin gera þá breytingu, að á eftir orðunum „framfærsluhreppi þeirra“ komi: eða barnsmóðir. Ef einhver vill flytja af landi burt og skilur eftir vandamenn, sem honum ber að framfæra, er hann skyldur til að láta sveitarstjórninni í tje tryggingu fyrir meðgjöfinni. — Nefndinni þykir rjett, að barnsmóðir sje látin njóta sama rjettar, því verið getur, að hún framfæri barn þeirra, án þess að sveitin komi þar til.

Þá leggur nefndin til samhljóða breytingar við 66. og 67. gr., að í stað orðsins „styrkur“ í upphafi 2. málsgr. komi: ríkissjóðsstyrkur. Þessi kafli laganna fjallar um sjerstakan styrk úr ríkissjóði, og þykir nefndinni rjettara, til þess að koma í veg fyrir hugsanlegan misskilning, að breyta þessu á þann veg, sem brtt. fara fram á. — Jeg hefi þá minst á allar brtt. nefndarinnar, og þó að jeg hafi kannske ekki talað greinilega um þær allar, vona jeg, að þetta nægi.