10.05.1927
Efri deild: 70. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

6. mál, fátækralög

Ingvar Pálmason:

Mjer skildist á hæstv. atvrh., að hann kannaðist við, að 43. gr. frv. væri varhugaverð, en hann taldi hinsvegar ekki líkur til, að hægt væri að finna aðra leið í lögum til þess að fyrirbyggja óverðskuldaðan rjettindamissi þeirra, sem verða af óviðráðanlegum orsökum að leita hjálpar sveitar sinnar. Jeg skal fúslega kannast við, að flestar leiðir hafa einhverja galla. En jeg get ekki fallist á það í röksemdaleiðslu hæstv. ráðh., að hreppsnefndir sjeu í öllum tilfellum best færar að gefa úrskurði um styrkinn í hverju einstöku tilfelli. Að vísu eru þær kunnugar ferli mannsins og fyrri högum. En um leið og styrkurinn er veittur og þær eiga að ákveða, hvort hann skuli teljast afturkræfur ellegar ekki, þá er ekki nóg að vita hinn liðna feril mannsins, sem styrkinn á að þiggja, heldur þarf annað og meira, nefnilega að sjá fram í tímann, hvernig ástæðum styrkþega verður háttað um það leyti, er vænta mætti, að hann gæti endurgreitt styrkinn. Höfuðgallinn er þetta, að segja svo fyrir, að ákvörðun skuli tekin um leið og styrkurinn er veittur.

Eins og hv. frsm. (GÓ) tók fram. er hreppsnefnd samkvæmt gildandi lögum heimilt að gefa eftir sveitarstyrk, með leyfi hlutaðeigandi sýslunefndar, ef eftirgjöf á fram að fara innan 5 ára frá stofnun sveitarskuldarinnar, en ef lengra er um liðið, þá á eigin spítur. Jeg segi eins og er, að mjer finst bæta megi misrjetti, sem stafar af missi kosningarrjettar sökum þegins sveitarstyrks, með því að fara þessa leið. Til þess að það reynist fært, þarf ekki að breyta lögum verulega mikið frá því, sem nú er um aðstöðu þurfamanna. En það mundi þurfa að breyta í allverulegum atriðum aðstöðu sveitarstjórna um rjett til að krefja aftur veittan styrk. Jeg vildi aðeins benda á eina leið, sem jeg veit til, að hefir verið notuð, en veit ekki, hvort talist getur fyllilega lögum samkvæm. Jeg veit þess dæmi, að hreppsnefndir hafa stundum veitt mönnum lán, sem ekki hafa þá verið talin sveitarstyrkur. Hefir þá oftast verið einhver trygging sett fyrir greiðslunni eða að minsta kosti samningur um hana. Jeg ímynda mjer, að langt megi komast áleiðis með þeirri aðferð. Þó má vitanlega búast við, að í einstöku tilfellum yrðu slík lán að einhverju leyti ekki endurgreidd.

Það, sem mjer finst langlakast við þetta frv., er það, að sveitarstjórnirnar eiga að taka ákvörðun um leið og styrkurinn er veittur. Það er alt annað mál eftir tvö ár, þegar reynt er. hvort styrkþegi er kominn á varanlegt sveitarframfæri eða ekki, og taka þá ákvörðun, hvort gefa skuli styrkinn eftir sem skuld.

Jeg held, að í þessari margumræddu 43. gr. frv. felist miklu minni rjettarbót en sumir virðast gera sjer í hugarlund, og þar er auk þess ekki gætt hagsmuna sveitarfjelaganna, svo sem skyldi.

Jeg lýsti því ekki beint yfir, að jeg mundi koma með brtt. við 3. umr., eins og hæstv. atvrh. virðist hafa skilist. En það má vel vera, að legið hafi næst að draga þá ályktun út af orðum mínum. En með því að jeg hefi ekki haft tíma til undirbúnings og er nú hlaðinn störfum, er ekki víst, að jeg sjái mjer fært að bera fram brtt. við 3. umr., þó býst jeg við, að svo verði.

Þar sem nú þetta frv. er í öllum aðalatriðum samhljóða þeim fátækralögum, sem við nú búum við, að undantekinni þessari grein, þá sje jeg ekki, að nein hætta sje á ferðum, þótt dragist eitt ár enn að leiða þetta mál til lykta, ef verða mætti, að fyndist heppilegri lausn þessa vandamáls en sú, er frv. felur í sjer. Þótt hæstv. atvrh. (MG) hafi velkt þessu máli mjög fyrir sjer og ekki fundið betri leið, þá er ekki útilokað, að með gagnrýni megi ráða þessu atriði til lykta á annan heppilegri hátt. Það er spurning, hvort breyting frv. veitir nokkra rjettarbót þeim mönnum, sem þurfa að leita hjálpar sveitarinnar. Það fer alveg eftir því, hvernig viðkomandi hreppsnefnd er skipuð, eins og nú er líka undir gildandi fátækralögum. Eins og nú er, er býsna rúm leið fyrir sveitarstjórnir að gefa eftir sveitarstyrk, svo að styrkþegi missi einskis í af rjettindum, þótt ekki hafi það verið lögákveðin skylda.