10.05.1927
Efri deild: 70. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

6. mál, fátækralög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Háttv. 2. þm. Rang. (EJ) hallaðist að því, að ekki væri brýn þörf á að breyta fátækralögunum, og væri það aðalástæðan til þess, að hann væri móti frv. En þingið hefir skorað á stjórnina að láta endurskoða þessi lög, og stjórnin hefir viljað verða við þeim áskorunum. Aðalástæðan til þess, að menn eru óánægðir með núgildandi lög, er ákvæðið um rjettindamissi fyrir þeginn sveitarstyrk, hvernig sem á stendur. 43. gr. frv. er ætlað að ráða bót á þessu. Háttv. 2. þm. S.-M. (IP) hjelt, að hægara væri að finna rjettláta lausn á þessu máli á öðrum grundvelli. En jeg held, að það sje besta leiðin, sem stungið er upp á í frv. stjórnarinnar, að leggja þetta undir dóm kunnugustu manna. Jeg held, að ekki sje hægt að benda á kunnugri menn í þessu efni en sveitarstjórnirnar.

Hv. þm. (IP) áleit erfitt að ákveða um leið og styrkur væri veittur, hvort hann skyldi endurkræfur. Það má vera, en það er nú einu sinni svo, að erfitt er að þræða götu rjettlætisins, og hjer var raunar ekki annað hægt að gera en að leggja þetta undir dóm kunnugustu manna. Jeg mundi geta gengið inn á, að þessum úrskurði mætti fresta svo sem 2–3 mánuði. Annars lít jeg svo á, að ef sveitarstjórnir eru í vafa um þetta, þá geti þær vel farið þá leið að láta manninn fá lán til bráðabirgða. Jeg veit til þess, að hreppsnefndir hafa oft farið þá leið, þegar líkur voru til, að maðurinn gæti endurgreitt. Í þessu frv. er ekkert, sem fyrirbyggir slíkar lánveitingar, enda eru svona lán hættulaus, ef þau eru aðeins veitt í þeim tilfellum, sem annars hefði orðið að veita styrk.