10.05.1927
Efri deild: 70. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

6. mál, fátækralög

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Mikið hefir verið um það talað, hve erfitt væri fyrir sveitarstjórnir að ákveða, hvort styrkur skyldi endurkræfur, af því að þær þyrftu að gera það strax. Jeg held nú samt, að samviskusamar sveitarstjórnir eigi svo hægt með að kynna sjer hag styrkbeiðanda, að þær geti ákveðið þetta þegar í byrjun. Ef brtt. allshn. verður samþ., getur styrkþegi líka skotið máli sínu til æðri yfirvalda, svo að síður er hætt við, að hreppsnefndir misbeiti þessu úrskurðarvaldi sínu. Það, sem haft er á móti þessu ákvæði, er ekki síst það, að menn eru hræddir um, að af því leiði aukin gjöld fyrir hreppinn, af því að of oft kunni að verða ákveðið, að styrkur skuli ekki endurkræfur. Jeg held, að sá ótti hafi ekki við mikið að styðjast, og yfirleitt finst mjer ekki hafa verið færð nægileg rök fyrir því, að þetta ákvæði væri óviðunandi.