12.05.1927
Efri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

6. mál, fátækralög

Ingvar Pálmason:

Eins og jeg gat um við 2. umr. þessa máls, er jeg ekki allskostar ánægður með ákvæði 43. gr. þessa frv.; og jeg gat þess, að jeg hefði löngun til að flytja brtt. við þá grein. Mjer hefir ekki unnist tími til að koma brtt. á prent, en geri ráð fyrir, að hæstv. forseti taki gilt, að jeg leggi hana fram skriflega.

Jeg hafði hugsað mjer að gera till. um allvíðtæka breytingu á þessari 43. gr.; en eftir þeim undirtektum að dæma, sem hún ásamt frv. fjekk í hv. deild við 2. umr., taldi jeg það tilgangslaust. Því að það er engin ástæða til að koma með brtt., sem litlar eða engar líkur eru til, að hv. deild mundi fallast á.

Till. mín hljóðar svo, að skylt sje sveitarstjórn, er hún veitir styrk úr sveitarsjóði, að kveða svo á innan 6 mánaða, hvort styrkurinn skuli ekki afturkræfur o. s. frv., og til vara: „innan þriggja mánaða“.

Mjer finst þessi breyting, hvernig sem á hana er litið, ekki geta spilt aðalkjarna 43. gr., en hún gefur hreppsnefnd í hverju tilfelli þó dálítinn tíma til þess að átta sig á þessu, sem jeg álít, að hljóti altaf að vera nokkuð vandasamt. Jeg skal játa, að orðalag þessarar greinar allrar er ekki vel viðfeldið. En jeg vildi alls ekki leggja út í að gerbreyta henni, af þeim ástæðum, sem jeg hefi tekið fram. Hinsvegar virðist mjer þetta innskot ekki þurfa að spilla greininni hvað form snertir, og kjarni þessarar brtt. býst jeg ekki við að valdi neinum deilum. Það getur náttúrlega orkað dálítið tvímælis, hvað fresturinn á að vera langur, og því hefi jeg gefið hv. deild kost á að ganga að varatill., sem tiltekur 3 mánuði, ef henni þætti 6 mánaða fresturinn of langur. Jeg held þó, að í flestum tilfellum ætti það ekki að koma að sök. Að vísu gæti svo farið, að á þessum 6 mánuðum lægi fyrir að semja kjörskrá, og því æskilegt, að málið yrði í hverju tilfelli útkljáð áður. En svo stendur á, að kjörskrá er venjulega samin á þeim tíma, sem þessar styrkveitingar eiga sjer helst stað, sem er um miðjan vetur. Jeg held því, að þótt fresturinn yrði ákveðinn 6 mánuðir, þá raski það ekki miklu; því að það verður aldrei hægt að synda fyrir það, að einhverjir, sem á kjörskrá standa, kunni að vera búnir að missa kosningarrjett á kjördegi. Það hlýtur altaf að eiga sjer stað, og jeg held, að frá því sjónarmiði sje engin hætta á ferðum, þótt fresturinn væri svo langur.

Jeg fjölyrði svo ekki frekar um þessa brtt. Hún stendur svo ljóst fyrir, þegar hv. þm. bera hana saman við frumvarpsgreinina.