12.05.1927
Efri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

6. mál, fátækralög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg tók fram við 2. umr. þessa máls, að jeg mundi geta fallist á till. í þessa átt, sem hv. 2. þm. S.-M. (IP) hefir nú lýst. En mjer þykir aðaltill. tiltaka of langan tíma. Jeg álít ekki nauðsynlegt að gefa hreppsnefndum svo langan tíma til þess að útkljá slíkt mál; tel 3 mánuði nægja. Ef hv. þm. því vill sætta sig við þessa varatill., þá skal frá minni hálfu ekkert verða í vegi fyrir samkomulagi. Meðan hreppsnefnd hefir ekkert ákveðið um styrkinn að því leyti, sem hjer um ræðir, verður maður að álíta, að hlutaðeigandi standi í sveitarskuld, og er því beggja aðilja vegna best að útkljá þetta sem fyrst. Og jeg álít, að hreppsnefndir og bæjarstjórnir hafi nægan tíma til þess á 3 mánuðum að útvega sjer gögn og athuga málið, eins og þörf kynni að vera á. Þetta er talsvert lengri tími en dómurum er ætlaður til að kveða upp vandasama dóma, og ættu þessi mál ekki að vera vandasamari. Það getur komið fyrir, að nefndin þurfi að fá upplýsingar annarsstaðar að, t. d. af öðru landshorni, og það er einungis í slíku tilfelli, að fresturinn gæti orðið helst til skammur. En þetta yrðu aðeins undantekningar, og við getum varla búið til aðalregluna fyrir þær.

Annars þykir mjer vænt um, að hv. þm. kom ekki með fleiri till.; jeg gat búist við fleirum, eftir ummælum hans við 2. umr. Eins og hann tók fram, hefir þessi 43. gr. frv. mikið fylgi í hv. deild, og það er vel farið að vera ekki að eyða tíma þingsins með því að stofna til umræðna út af atriðum, sem ekki eru líkleg að ganga fram.