12.05.1927
Efri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

6. mál, fátækralög

Ingvar Pálmason:

Ræða hæstv. ráðherra gefur ekki tilefni til þess að segja mikið. Aðeins vil jeg taka fram, að það er dálítið sitt hvað, sem fyrir okkur vakir í þessu efni. Hæstv. ráðh. segir, að fresturinn geti verið nauðsynlegur til þess að afla sjer upplýsinga um fortíð þurfalinga. Náttúrlega er rjett, að það getur líka verið ástæða til þess. En sje um þá menn að ræða, sem eiga ekki framfærslusveit í þeirri sveit, sem þeir njóta styrks, þá gerir greinin ráð fyrir, að dvalarsveit hafi ekki rjett til að ákveða þetta. En það, sem fyrir mjer vakti, var það, að erfitt væri yfirleitt að ákveða, þegar styrkur er veittur, hvort hann skuli vera afturkræfur eða ekki, og því þyrfti að hafa nokkurn frest. Nefndin getur oft vitað betur eftir nokkurn tíma, hverjar líkur eru um framtíð styrkþega. Það getur oft verið vegna veikinda, að styrks er þörf, og þá er undir flestum kringumstæðum erfitt fyrir hreppsnefndina að ákveða fyrirfram um styrkinn; betra að sjá, hverju fram vindur. Það var sjerstaklega með það fyrir augum, að jeg vildi fá inn þessa breytingu; til hins tel jeg minni líkur, að hreppsnefnd þurfi langan tíma til að kynna sjer æfiferil styrkþega.

Að lokum vil jeg taka fram, að auðvitað sætti jeg mig við varatill.; þess vegna er hún borin fram. Jeg setti aðaltill. fram vegna þess, að í henni felst það, sem jeg óska helst að gangi í gegn, en varatill. tel jeg einnig til bóta.