12.05.1927
Efri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

6. mál, fátækralög

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi haft hina mestu löngun til að koma með allvíðtækar brtt. við þetta frv. til fátækralaga. Jeg hafði lýst yfir því við 1. umr. þessa máls, að jeg teldi ákaflega lítils virði þessa breytingu á fátækralögunum og óþarft að kosta upp á endurskoðun laganna fyrir ekki stórvægilegri breytingu. Þó vil jeg ekki alveg fortaka, að einhver lítilsháttar neisti af tilraun til þess að bæta eitthvað úr þeim herfilegustu rangindum fátækralaganna kunni að felast í frv., en ekki veitir af stækkunargleri til þess að koma auga á þessa minstu endurbót. Jeg undraðist þess vegna ákaflega, þegar jeg sá í nál., að nefndin hafði hælt hæstv. ráðh. (MG) fyrir þessa endurskoðun, þar sem henni fanst hæstv. ráðh. hafa hitt á það rjetta, gert einmitt mátulega mikla endurskoðun. Háttv. allshn. er ekki ákaflega kröfuhörð um endurskoðun fátækralaganna. Jeg er hræddur um, að það þýði þess vegna ekki að bera fram neinar breytingar til bóta við málið. Þó mundi jeg hafa gert það, ef ekki hefði staðið svo á, að jeg var ekki á tveimur fundum, þegar þetta mál var til umræðu; jeg hefi því ekki haft tækifæri til þess að koma með brtt. Aðeins vil jeg leyfa mjer að gera enn nokkra tilraun til að breyta 43. gr.

Þeirri grein hefir nokkuð verið breytt í hv. Nd. og einnig, að jeg ætla, að einhverju leyti af nefndinni hjer. — Jeg álít ekki, að það sje hentugt ákvæði, að sveitarstjórn skuli þegar fyrirfram ávalt ákveða, hvort styrkur skuli afturkræfur eða ekki. Jeg álít, að það eigi að vera viss rjettur handa hverjum styrkþega til þess að fá óafturkræfan styrk, ef svo og svo er ástatt. Fyrir því vildi jeg taka upp till., sem var flutt við frv. í hv. Nd., um að sveitarstyrkur skuli ekki afturkræfur af styrkþega, ef veittur er vegna elli, ómegðar, heilsuleysis, slysa eða atvinnuleysis. Jeg álít, að öll þessi atriði, sem upp eru talin, sjeu þess eðlis, að það eigi ekki að reikna mönnum til syndar, þ. e. a. s. eigi ekki að svifta þá mannrjettindum, þótt þeir leiti sveitarstyrks fyrir einhverjar þessar orsakir. Þessi till. felur það í sjer, að þetta er ekki beinlínis lagt á vald sveitarstjórnar, eins og eftir frv., heldur er fyrirfram ákveðið, að svona mikil rjettindi eigi menn að hafa til framfærslu.

Það hefir að vísu komist inn í þessa 43. gr. ákvæði, sem fer í líka átt og mín till., sem sje, að styrkur, sem veittur er mönnum fullra 60 ára að aldri, teljist ekki sveitarstyrkur. Þetta er spor í áttina. Jeg vil með till. bæta við öðrum ástæðum, sem eru jafnrjettmætar þessari ástæðu.

Ýmislegt fleira hefi jeg að athuga við þetta frv., og sannast að segja finst mjer of lítill gaumur hafa verið gefinn þeirri tillögu, sem fram hefir komið um að gera landið að einu framfærsluhjeraði, þannig, að eins sje að farið og nú á sjer stað um berklavarnir, að ríkissjóður greiði allan styrk, sem veittur er, en innheimti aftur hjá hreppunum. Einnig mættu hrepparnir greiða styrkinn og eiga síðan aðgang að ríkissjóði. Jeg ímynda mjer, að vel mætti koma þessu fyrir á rjettlátan hátt, þannig, að útgjöld landsmanna vegna hinnar nauðsynlegu framfærslu kæmu jafnt niður. Jeg vil taka dæmi af nágrannahreppi hjer við Reykjavík. Mjer finst ekkert rjettlæti í því, að útsvör í Seltjarnarneshreppi vegna fátækraframfærslu sjeu lægri en í Reykjavík. Þau eru lægri fyrir þá sök, að hreppurinn er í nágrenni við kaupstað, sem veitir íbúum hans ýmis hlunnindi, sem gera mönnum fært að hafa góða atvinnu, án þess þó að taka á sig þær byrðar, sem bærinn verður að leggja á sína menn, til þess að halda uppi þeim framkvæmdum, sem styðja atvinnu þeirra, er búa í skattahljeinu rjett við bæjarvegginn.

Að þessu leyti finst mjer það alls ekki rjettlátt, þegar einhver hreppur segir sem svo: nú er fátækraframfærið lítið, og viljum við því ekki vera í neinni „solidariskri“ ábyrgð gagnvart öðrum hreppum, er hafa miklu meira fram að færa. — Þegar ástæðan er þessi, sje jeg ekki annað en það sje fullkomlega rjettmætt, að hreppar sjeu „solidariskir“.

Endurskoðunin hefði átt að snúast um það, hvort ekki væri hægt að leggja niður eitthvað af þeirri fádæma skriffinsku og óþarfa naggi, sem er í sambandi við fátækramálin, eins og nú er. Allur sá tími og öll sú vinna, sem fer í alt þetta leiðindavastur, er sjálfsagt engu minni en það starf, sem leyst er af hendi árlega á öllum bæjarskrifstofunum hjer í Reykjavík, að jeg ekki tali um öll þau hrekkjabrögð, sem harðvítugar hreppsnefndir beita til þess að koma ómögum af sjer á aðra hreppa.

Það væri engum smáræðiskostnaði ljett af landsmönnum, ef þessi skriffinska hyrfi með öllu.

Jeg ætla að koma með brtt. við 43. gr. og vænti þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða.