25.03.1927
Neðri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg þarf ekki að hafa langan formála fyrir minni brtt. Jeg veit, að margir góðir oddvitar gera ekki þær launakröfur, sem vert væri. Býst jeg við, að laun þeirra verði síst of há, þótt þeir fái 1% innheimtulaun í viðbót við föstu launin. Að vísu skal jeg játa það, að sumir hreppar hafa ákveðið innheimtulaun oddvita mun hærri en hjer er lagt til, en í þeim sveitum getur slíkt haldist óbreytt; hjer er aðeins um lágmarksákvæði að ræða. Vegna þeirra hreppa, sem ekki taka upp hjá sjálfum sjer að greiða oddvita aukaþóknun, er tillaga mín nauðsynleg. Margur góður oddviti stynur heldur undir störfunum en að kvarta eða fara fram á launahækkun. Alment eru þessir menn hvorki efnaðir nje hafa mikinn tíma afgangs til opinberra starfa. Það er viðbúið, að bestu menn fáist ekki lengur til oddvitastarfa, ef ekki er launað betur en í frv. er ákveðið. Vil jeg því eindregið leggja til, að þessi leið verði farin, að greiða hundraðshluta af innheimtum útsvörum sem uppbót á launin, en hundraðshluta þennan greiðir oddviti auðvitað innheimtumanni, ef annar maður er tekinn til þess starfa. Hjer er farið fram á 1% sem lágmark, en vitanlega er ekkert því til fyrirstöðu, að greitt verði 2%–3%, ef þess þykir þurfa.