25.03.1927
Neðri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Við síðustu umr. þessa máls komu nokkrir hv. þm. fram með athugasemdir við þetta frv., sjerstaklega hv. þm. Barð. (HK). Það er auðvitað ekkert athugavert við það, að þm. geri sínar aths. við þau mál, sem fyrir liggja, en óneitanlega hefði farið betur á því í þetta skifti, að þær hefðu komið fram fyr en við 3. umr.

Jeg skal þá snúa mjer að þeim brtt., sem fyrir liggja. Allshn. hefir fallist á breytingu þá, sem hv. Ed. gerði á launum oddvita, og getur ekki aðhylst brtt. hv. þm. Barð. Störf oddvita eru nú orðin svo mörg og mikil, að það vill víða fara svo, að hæfustu mennirnir í hverri sveit fást ekki til að gegna þeim, með því að launin eru sáralítil. Þetta er vitanlega mjög óheppilegt fyrir sveitirnar, að þeir, sem eru hæfastir til að gegna þessum störfum, losa sig við þau eða skorast undan að taka við þeim. Jeg hygg því, að það sje mjög hyggilegt að hækka laun oddvita eins og hjer er farið fram á, enda er svo í hóf stilt, sem verið getur. Jeg álít, að þetta starf sje þess virði, að launin sjeu hækkuð eitthvað. Annars skal jeg taka það fram, að jeg þekki víða til, þar sem oddvitum eru greidd mun hærri laun en lög standa til. Þetta hækkunarákvæði kemur auðvitað ekki til greina nema þar, sem greitt hefir verið minna, og er í þeim sveitum nauðsynleg vernd. Um aðrar brtt. háttv. þm. Barð. (HK) er sama að segja. Allshn. getur ekki fallist á þær. Hv. þm. vill draga úr afskiftum sýslunefnda af hreppsnefndum og að þær sjeu alveg einráðar um sín mál. Þetta er nú líka yfirleitt svo, en mjer finst það ekki nema rjettmætt, að ef hreppsfjelög ætla að ráðast í eitthvað, sem fjárframlög þarf til, að þau þurfi að leita samþykkis sýslunefnda. Enda er það svo, að ef hreppsbúum er mikil nauðsyn á einhverju slíku máli og þeir eru nokkurnveginn einhuga um það, þá geta sveitarfjelögin haft sitt mál fram án samþykkis sýslunefnda.

3. brtt. sama hv. þm., um að 30. gr. falli burtu, eða til vara, að ákvæði greinarinnar um sektir falli niður, getur allshn. heldur alls ekki fallist á. Mjer heyrðist á hv. þm. Barð. (HK), að hann bæri ekki fult traust til sýslumanna og að hann óttaðist, að þeir kynnu að misbeita valdi sínu í þessum efnum. Þessu hefir ekki verið misbeitt þar, sem þessi ákvæði hafa verið í lögum, t. d. fátækralögunum, og verður maður að ganga út frá, að það eigi sjer ekki stað. (HK: Hefir þetta verið í lögum?). Sem sagt, nefndin hefir ekki getað fallist á þessar brtt. hv. þm. Barð. (HK).

Þá hefir hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) borið fram brtt. á þskj. 250, um það, að auk þessara launa skuli oddvitar fá 1% af innheimtum útsvörum. Nefndin hefir ekki haft tækifæri til að bera sig saman um þessa till., sem fyrst var útbýtt nú á fundinum. Jeg get því ekki sagt hjer neitt fyrir hönd nefndarinnar um þetta atriði. Jeg hygg, að það skifti í rauninni ekki svo miklu máli, hvort þessi brtt. verður samþykt eða ekki.

Þá er enn eitt atriði, sem jeg þarf að minnast á út af brtt., sem allshn. flytur, en sætti andmælum frá hæstv. atvrh. (MG).

Í þeim lögum, sem gilt hafa til þessa, eru engin ákvæði um, að fjallskilareikningar skuli endurskoðaðir eins og sveitarreikningar, og upp í þetta frv. eru ekki heldur tekin nein slík ákvæði. En það er mikið fje, sem fer í fjallskilasjóð, þótt aðeins sje um einn hrepp að ræða, hvað þá ef tveir eða fleiri hafa fjallskil saman. Því hefir allshn. þótt rjett að fyrirskipa í lögum, að þessir reikningar verði endurskoðaðir eins og sveitarreikningar, og þykir henni þannig tryggilegar um þetta búið en í frv. Hæstv. atvrh. (MG) vitnaði í 15. gr. frv. því til sönnunar, að þetta væri óþarft. Samkvæmt 15. gr. á hreppsnefnd „að sjá um notkun afrjetta hreppsins og fjallskil, rjettir, smalanir afrjetta og heimalanda á haustum til fjárskila, og á vorum til rúningar og fráfærna, og gera ráðstafanir til að eyða refum, alt eftir því, sem reglugerðir um fjallskil, refaveiðar o. s. frv. nánara ákveða.“ Um reikningsskil eða endurskoðun er ekki orð í frv. — Jeg tel því, að brtt. á þskj. 195 sje til bóta, og vænti þess, að hv. deild geti fallist á hana.

Þá er eitt atriði enn, sem jeg vildi stuttlega drepa á. Háttv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, að allshn. hefði ekki komið með neinar till. um að afla sveitarsjóðum nýrra tekna. Þetta er rjett, og jeg vil aðeins lýsa yfir því fyrir hönd nefndarinnar, að með svo naumum tíma, sem hún hafði til starfa, treysti hún sjer ekki til að bera fram neinar slíkar tillögur. Finst mjer ekki heldur slíks að vænta, því síður sem í umr. hefir hingað til ekki verið bent á neina nýja tekjustofna. Þetta atriði verður því að bíða betri tíma.